18.03.1970
Sameinað þing: 39. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 593 í D-deild Alþingistíðinda. (3446)

175. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Jónas Pétursson:

Herra forseti. Ég skal reyna að lengja ekki þessar umr. mikið, en ég vil eiginlega láta það koma hér fram, að ég hef hina mestu vantrú á þessu máli öllu. Ég viðurkenni, að það væri ákaflega æskilegt að geta komið því í framkvæmd að taka gjöldin jafnóðum og tekjurnar myndast. En ég hef líklega eitthvað verulega afbrigðilegar skoðanir í skattamálum almennt séð. Ég hef sett fram áður nokkrar till., og í stuttu máli vildi ég gera algerar kollsteypur í skattakerfinu. Í höfuðdráttum vildi ég hverfa frá beinu sköttunum, útsvörum og tekju- og eignarskatti og aðstöðugjöldum, en sveitarfélögin öfluðu sér tekna í staðinn með háum fasteignasköttum og ríkið aflaði teknanna með óbeinum sköttum. Tryggingakerfið yrði aukið og að því leyti, sem þetta kæmi óréttlátlega niður, þessi einfaldasta aðferð, sem ég vil sérstaklega vekja athygli á, sem væri t.d. álagning fasteignaskatta, þá yrði því mætt í gegnum tryggingakerfið. Við höfum hér víðtækt og fullkomið tryggingakerfi, og það er jafnflókið og erfitt að framkvæma, þó að upphæðirnar séu eitthvað mismunandi háar, ef allt er byggt á einum og sama grunni. Ég held þess vegna, að þó að við reyndum að ná þessari hlið í gegnum tryggingakerfið, þá fælist ekki í því nokkur aukning á því starfsliði t.d., sem þyrfti til þess að koma því fram. En mér er sagt af þeim, sem bezt vita, að þessar till. mínar séu nánast fjarstæða, og fyrst og fremst vegna þess, að ekki sé hægt að ná með þessum leiðum nægilegum tekjum handa ríki og sveitarfélögum. Nú skal ég játa það, að ég get ekki neitað þessu með neinum rökum. En það hafa heldur ekki verið lögð á borðið rök, a.m.k. fyrir mig, sem hafa sannfært mig um, að rétt sé, að þetta sé óframkvæmanlegt á þennan hátt. Ég tel mig alls ekki þannig gerðan, að ég geti ekki tekið rökum, og ég mundi að sjálfsögðu beygja mig fyrir því, ef slíkt lægi óvefengjanlega fyrir. En það, sem hefur fyrst og fremst skapað þessa skoðun hjá mér, eru skattsvikin í þjóðfélaginu. Þau eru svo mikið eitur í þjóðlífinu, að ég sé eiginlega ekki, hverju má ekki fórna til þess að geta komizt fram hjá þeim.

Nú er það að vísu rétt, að skattsvik geta átt sér stað t.d. í innheimtu söluskatts. En ég vil þó benda á það, að ef skatteftirlitinu, sem við höldum uppi, væri eingöngu beint að eftirliti með innheimtu söluskatts, þá mundi vera hægt að veita þar miklu meira aðhald en nú er hægt. Og þó að mörgum sé illa við söluskatta og ég veit, að þeir hafa sína galla, þá erum við komnir inn á þá leið og við hverfum ekki frá henni, og söluskattar hafa vitanlega margvíslega kosti. Þá er tekið af ráðstöfun manna á peningunum, en með því að hverfa frá beinu sköttunum er sparnaðurinn gerður skattfrjáls að fullu.

Ég ætla ekki að eyða löngu máli í að skýra þetta. Ég vildi nota þetta tækifæri til þess að vekja athygli á þessu enn, og ég vil enn fremur endurtaka það, sem ég sagði hér í gær, þegar verið var að tala um innheimtu útvarpsgjaldanna, að afskaplega þýðingarmikið er að geta haft skattheimtuna einfalda. Flókin og margbrotin skattheimta er, eins og ég sagði þá, eins konar klækjaskóli í þjóðfélaginu, og bara sá þáttur gerir það að verkum, að það er hið þýðingarmesta mál að geta gert skattheimtuna sem réttlátasta og sem einfaldasta. Og auðvitað þurfum við líka að ná þeim tekjum, sem við viljum ná, til þess að geta haldið uppi fullnægjandi samfélagsþjónustu, bæði af hálfu ríkis og sveitarfélaga. Ég er ekki að bregða fæti á nokkurn hátt fyrir þetta mál, en ég vil láta þetta koma fram. Mér skilst, að ég standi a.m.k. fámennur með þessa skoðun, en hún er ákaflega rík í mínum huga, og ég hef mikla vantrú á því, að við séum að fara inn á rétta leið, þó að við reynum að koma á þessu staðgreiðslukerfi.