16.04.1970
Neðri deild: 76. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 606 í D-deild Alþingistíðinda. (3479)

195. mál, símagjöld á Brúarlands- og Suðurnesjasvæði

Flm. (Geir Gunnarsson):

Herra forseti. Á þskj. 473 flyt ég svohljóðandi þál.:

Nd. Alþ. ályktar að skora á ríkisstjórnina að beita sér fyrir því, að gjöld vegna símtala milli Brúarlands og Reykjavíkursvæðisins svo og innbyrðis á Suðurnesjasvæðinu reiknist á sama hátt og gjöld fyrir innanbæjarsamtöl.“

Þessi þál. þarfnast ekki langra skýringa. Gjöldin fyrir símtöl innanbæjar í Reykjavík og milli Reykjavíkur og nágrannabyggðanna, Hafnarfjarðar, Garðahrepps og Seltjarnarneshrepps, eru reiknuð sem innanbæjarsímtöl, en hins vegar reiknast símtölin á milli þessara svæða, sem ég nefndi, og Brúarlandssvæðisins sem utanbæjarsímtöl. Þannig reiknast t.d. símtöl frá Hafnarfirði inn í Árbæjarhverfi sem innanbæjarsímtal, en símtal milli Brúarlands og Árbæjarhverfisins reiknast á dýrara gjaldi, þótt vegalengdin sé styttri. Með þál. er gert ráð fyrir, að úr þessu misrétti verði bætt á þann veg, að samtöl reiknist sem innanbæjarsímtöl milli Reykjavíkur og Brúarlandssvæðisins á sama hátt og nú er gert milli Reykjavíkur og allra byggðarlaganna í nágrenninu, annarra en Brúarlands, þ.e. að Brúarlandssvæðið verði látið heyra til öllu þessu sameiginlega gjaldsvæði, Reykjavíkur og næsta nágrennis. Þá er lagt til, að sami háttur og nú er á hafður um verðlagningu símgjalda milli Reykjavíkur og næstu nágrannabyggða verði látinn gilda um Suðurnesjasvæðið innbyrðis, en nú eru símtöl milli einstakra staða á Suðurnesjasvæðinu, t.d. milli Keflavíkur og Garðs og Keflavíkur og Njarðvíkur eða Keflavíkur og Voga, reiknuð sem utanbæjarsímtöl, þótt símtölin milli Reykjavíkur og Hafnarfjarðar t.d. reiknist sem innanbæjarsímtöl, en innanbæjarsímtöl eru reiknuð án tillits til tímalengdar símtals. Suðurnesjasvæðið er afmarkað og nátengt atvinnusvæði og að því leyti alveg hliðstætt Reykjavík og nágrenni og mjög eðlilegt og sanngjarnt að það búi við hliðstæð kjör að þessu leyti. Ég leyfi mér svo, herra forseti, að leggja til, að umr. verði nú frestað og till. vísað til hv. allshn.