30.01.1970
Neðri deild: 49. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 425 í B-deild Alþingistíðinda. (348)

156. mál, Iðnþróunarsjóður

Dómsmrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Eins og fram kom við framsögu n., gerði ég henni grein fyrir því, að ég mundi flytja brtt. við 4. gr., en á nokkrum atriðum hennar kom fram gagnrýni við 1. umr. málsins og sumar þeirra gat ég efnislega alveg fallizt á og féllu einnig innan þess ramma, sem samningurinn sjálfur segir til um og er af þeim ástæðum einnig hægt að breyta þessu ákvæði. En það er í því fólgið að breyta skipun framkvæmdastjórnarinnar þannig, að það séu aðeins viðskiptabankarnir, sem tilnefni fulltrúa í hana, auk Iðnlánasjóðs. Þá mundi gr. hljóða þannig, að „iðnrh. skipar 5 menn í framkvæmdastjórn sjóðsins eftir tilnefningu eftirtalinna aðila: Landsbanka Íslands, Iðnaðarbanka Íslands h. f., Iðnlánasjóðs, Útvegsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands, sem hver tilnefnir einn mann. Varamenn skulu skipaðir á sama hátt og skal skipunartími aðalmanna og varamanna vera 3 ár. Ráðh. skipar formann framkvæmdastjórnar, en hún skiptir með sér verkum að öðru leyti.“

Það var nokkur óánægja, sem var mjög skiljanleg, hjá fyrirsvarsmönnum Útvegsbanka og Búnaðarbanka, að þeir þyrftu að sameinast um einn mann og ég hef látið í ljós við fulltrúa þessara stofnana, að ég mundi hafa lagt til, að 6 menn væru í þessari stjórn, þannig að hver þessara banka hefði aðild að framkvæmdastjórn sjóðsins. Það er auk þess höfð gát á því nægjanlega snemma. En hins vegar, eftir að samningurinn var gerður og undirritaður hér í desembermánuði, þá voru ákvæði hans bindandi að því leyti, að framkvæmdastjórnina skipa framkvæmdastjóri sjóðsins og 5 fulltrúar íslenzka bankakerfisins. Í samningnum er einnig sagt, að aðsetur sjóðsins sé í Reykjavík, og Seðlabanki Íslands þarf að veita sjóðnum nauðsynlega fyrirgreiðslu og starfsaðstöðu, Þess vegna höfðum við haft Seðlabankann sem aðila til þess að tilnefna fulltrúa í framkvæmdastjórn og lagt það til og töldum, að sjóðnum væri að því mikill styrkur, þar sem Seðlabankinn ætti að sjá sjóðnum fyrir nauðsynlegri fyrirgreiðslu og starfsaðstöðu.

Nú hef ég rætt það hins vegar við Seðlabankann, að eðli málsins samkv. væri það æskilegra, að viðskiptabankarnir allir, sem hér væru nefndir, ættu aðild að stjórninni til jafns hver við annan og þeir bankastjórar, sem ég hef rætt þetta við, hafa fallizt á það sjónarmið, enda hef ég tjáð þeim og vil tjá hv. þd. það um leið, að ég hef ákveðið að tilnefna seðlabankastjóra dr. Jóhannes Nordal í stjórn sjóðsins. Það er 5 manna stjórnin, sem sæti á í einn aðili frá hverju hinna 5 Norðurlanda. En einmitt framkvæmdastjórnin og stjórn sjóðsins þurfa að hafa nána samvinnu sín á milli og með þessum hætti held ég, að þessu sé í alla staði vel fyrir komið, og vinnst þá það, að Útvegsbankinn og Búnaðarbankinn tilnefna hvor sinn manninn eins og hinir bankarnir í stjórn sjóðsins. Þetta er meginefni till. og ég skal ekki að öðru leyti ræða annan ágreining, sem fram kom hér, en það er mín skoðun, eins og ég lýsti í upphafi, að það sé þessum sjóði mjög til styrktar sem stofnsjóði og fjárfestingarsjóði fyrir iðnaðinn að hafa náin tengsl við alla þá banka, sem veita iðnaðinum verulega fyrirgreiðslu í lánum, rekstrarlánum og stofnlánum, að öðru leyti.

Ég vil, herra forseti, leyfa mér að leggja fram þessa skrifl. brtt. og bið um afbrigði fyrir henni.