16.04.1970
Neðri deild: 76. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 613 í D-deild Alþingistíðinda. (3493)

197. mál, rekstur Landssmiðjunnar

Flm. (Magnús Kjartansson):

Herra forseti. Nú fyrir skömmu svaraði hæstv. iðnmrh. fsp. frá mér, þar sem innt var eftir ráðagjörðum hæstv. ríkisstj. um framtíð Landssmiðjunnar. Af svarinu kom í ljós, að þær ráðagerðir svifu algjörlega í lausu lofti. Hæstv. ráðh. skýrði frá því, að hann hefði lagt til innan ríkisstj. 15. jan. s.l., að rekstri Landssmiðjunnar yrði hætt á þessu ári. Sú till. hefur hins vegar ekki náð fram að ganga, vegna andstöðu Alþfl. Hins vegar væri óljóst með öllu, hvernig rekstri Landssmiðjunnar yrði haldið áfram, um það væru engar áætlanir gerðar, hvernig nýta ætti afkastagetu fyrirtækisins og endurnýja það svo, að það fullnægði nútímakröfum. Af þessum ástæðum höfum við hv. þm. Þórarinn Þórarinsson flutt hér till. til þál., sem er svo hljóðandi:

Nd. Alþ. ályktar að skora á ríkisstj. að láta gera áætlanir um endurskipulagningu Landssmiðjunnar í þeim tilgangi, að afkastageta fyrirtækisins verði nýtt til fullnustu, t.d. í sambandi við áformin um gerð þurrkvíar í Reykjavík. Skulu áætlanir þessar lagðar fyrir næsta reglulegt Alþ. ásamt tillögum um fjáröflun til þess að koma vélakosti og rekstri Landssmiðjunnar í nútímalegt horf.“

Það fær að sjálfsögðu ekki staðizt til lengdar, að ekki sé mörkuð ákveðin stefna um rekstur jafn þjóðhagslega mikilvægs fyrirtækis og Landssmiðjan er. Og þar sem ekki er samstaða um málið innan hæstv. ríkisstj., er einsætt, að Alþ. verður að taka ákvörðun um stefnuna. Full ástæða er til þess að ætla, að meiri hl. Alþ., þm. Alþb., Alþfl. og Framsfl. séu fylgjandi því, að Landssmiðjan verði starfrækt af fullum krafti og endurnýjuð svo sem nauðsynlegt er. Og þessi till. er flutt í því skyni, að vilji Alþ. geti birzt og mótað ákvarðanir hæstv. ríkisstj.

Landssmiðjan hefur sem kunnugt er starfað síðan árið 1930. Hún var lengi forustufyrirtæki í járniðnaði hérlendis og vann með góðum árangri að mikilvægum og vandasömum verkefnum. Hefur Landssmiðjan átt mikinn þátt í þróun járniðnaðar hérlendis, en sá iðnaður er ein meginundirstaða iðnþróunar á Íslandi. Hins vegar hefur þetta fyrirtæki verið á stöðugri niðurleið um alllangt árabil að undanförnu. Á stríðsárunum voru starfsmenn fyrirtækisins um 300 talsins, en eru nú aðeins um 80, og heilum deildum hefur verið lokað, rekstrinum til mikils tjóns. Ástæðan fyrir þessum samdrætti er ekki sú, að fyrirtækið hafi reynzt illa eða rekstrarform þess hafi orðið því fjötur um fót. Hér hefur fyrst og fremst verið um að ræða pólitískar kreddur valdhafanna, ekki sízt síðan viðreisnarstefnan hófst fyrir 10 árum. Vegna þess að hér var um ríkisfyrirtæki að ræða, mátti ekkert fyrir það gera. Á sama tíma og milljónatugum af almenningsfé hefur verið varið til einkafyrirtækja, til þess að forða þeim frá gjaldþroti, hefur Landssmiðjan verið svelt að fjármagni og ekkert verið til þess gert, að fyrirtækið fylgdist með tímanum. Ástæðan er, eins og ég sagði áðan, pólitískar kreddur og jafnframt þrýstingur frá einkaaðilum, sem ekki vildu þurfa að eiga í samkeppni við Landssmiðjuna um verkefni. Morgunblaðið hefur meira að segja komizt svo að orði í forustugrein, að fráleitt væri, að ríkisfyrirtæki keppi við einkaaðila um verkefni. Hvers vegna skyldi það vera fráleitara en að einkaaðilar kepptu við ríkisfyrirtæki um verkefni? Núv. hæstv. ríkisstj. hefur haldið því fram, að hún aðhyllist í verki blandað hagkerfi. Þá eiga ríkisfyrirtæki og einkafyrirtæki að keppa á jafnréttisgrundvelli. En eigi í stað slíkrar samkeppni að koma einokunaraðstaða, er hún betur komin í höndum fyrirtækja, sem eru í félagslegri eign, heldur en í höndum fyrirtækja, sem eru í einkaeign.

Í skýrslu, sem hæstv. iðnmrh. gaf hér á þingi, greindi hann frá miklum vandræðaskap, sem einkennt hefur afskipti ríkisstj. af þessu máli á undanförnum árum. Skipuð hefur verið ein nefndin af annarri til þess að gera tillögur. Þessar nefndir hafa að vísu skilað tillögum, en með þær hefur ekkert verið gert. Nefnd, sem skipuð var árið 1965, benti á þá valkosti, að Landssmiðjan yrði byggð upp að nýju sem ríkisfyrirtæki, eða hún yrði seld í einu lagi til einkaaðila, eða stofnað yrði hlutafélag með þátttöku ríkisins um endurbyggingu smiðjunnar, en enginn þessara valkosta var valinn. Í staðinn hélt áfram sama vandræðastjórnin af hálfu hæstv. ríkisstj. Síðan var skipuð ný nefnd 1967, og sú nefnd fann upp á því snjallræði að leggja niður hluta af Landssmiðjunni, en nýta húsið í staðinn undir verknámsskóla. En eins og hæstv. ráðh. greindi frá, er þarna aðeins um bráðabirgðaráðstöfun að ræða af hálfu Iðnskólans. Hann hefur nú þegar sagt upp hluta af þessu húsnæði og virðist því ekki kæra sig um það. Afleiðingin af þessu er sú, að trésmíðadeildin hefur verið lögð niður og hefur það orðið fyrirtækinu verulegt áfall. Þriðja nefndin var skipuð 1969. Einnig hún kom með tillögur, og því hefur einnig verið lýst yfir af hálfu hæstv. ríkisstj., að hún telji, að þær tillögur standist ekki, það sé ekki hægt að starfrækja fyrirtækið í samræmi við þær. Allur þessi vandræðaskapur hefur að sjálfsögðu haft mjög skaðleg áhrif á rekstur Landssmiðjunnar á undanförnum árum. Enda fór hæstv. iðnmrh. um það allþungum orðum í skýrslu sinni hér á dögunum, að fjárhagsleg afkoma Landssmiðjunnar væri slæm. Hann sagði m.a., að á s.l. hausti hefði hallinn á rekstri Landssmiðjunnar verið orðinn 1.4 millj. Mér kom nokkuð á óvart, þegar hæstv. ráðh. sagði þetta, því það var ekki í samræmi við vitneskju, sem ég taldi mig hafa um afkomu þessa fyrirtækis. Því varð ég mér úti um reikning Landssmiðjunnar fyrir síðasta ár og hef ég hann hér. Á honum kemur það fram, að Landssmiðjan hefur engan veginn verið rekin með tapi á síðasta ári, heldur með ágóða. Eftir að afskriftum var lokið, sem námu á síðasta ári 473 þús. kr., var lagt í varasjóð 261 þús. og tekjuafgangur var um 71 þús. Það er þess vegna ekki rétt, að Landssmiðjan hafi verið rekin með halla, hún var rekin með ágóða, þrátt fyrir þær erfiðu aðstæður, sem hún hefur haft árum saman, og mér finnst það óþarfi, að hæstv. ráðh, geri ekki rétta grein fyrir atriðum eins og þessu, því að þetta skiptir að sjálfsögðu verulegu máli, þegar menn meta framtíð þessa fyrirtækis.

Hæstv. ráðh. kom að því í skýrslu sinni, að það kæmi mjög til álita, ef reynt yrði að halda áfram rekstri Landssmiðjunnar, að tengja framtíð hennar við áformin um byggingu þurrkvíar inni í sundum. Við hv. þm. Þórarinn Þórarinsson fellum þetta atriði einnig inn í tillögu okkar og ég vildi leyfa mér að gera það nokkuð að umtalsefni, vegna þess að ég lít svo á, að bygging þurrkvíar sé mikið stórmál. Það sé mikið stórmál fyrir Reykjavík og það sé mikið stórmál fyrir landið allt. Það hefur lengi verið um það rætt hér á landi, að nauðsyn væri að koma upp þurrkví fyrir Íslendinga. Athuganir á því máli hafa staðið yfir allt frá síðustu styrjöld og margsinnis hefur verið lagt í ýmiss konar rannsóknir. Hér á Alþ. var skipuð sérstök þurrkvíarnefnd árið 1951 og henni var falið að gera tæknilegar kannanir á staðsetningu og gerð þurrkvíar á nokkrum stöðum á landinu. Þessi nefnd mælti með því, að byggð yrði þurrkví fyrir 6 þús. tonna skip, er síðar mætti stækka til afnota fyrir allt að 18 þús. tonna skip, og í nál. sínu sagði þurrkvíarnefnd m.a., með leyfi hæstv. forseta:

„Að lokum vill nefndin leyfa sér að taka fram, að hún er einhuga um að leggja til, að hafinn verði nú þegar undirbúningur undir að hrinda þessu máli í framkvæmd. Mundi þetta verk ekki einasta skapa mjög mikla vinnu í landinu á meðan á byggingu hennar stendur, er dreifa mætti e.t.v. yfir þá tíma árs, sem hennar væri mest þörf, heldur mundi þurrkvíin skapa hér allt önnur og betri skilyrði til viðgerðar á skipastól landsmanna en nú eru fyrir hendi, þar sem þá fyrst væru möguleikar fyrir því að nota við þau verk hagkvæmari aðferðir við alla flutninga á efni til og frá en nú er gert og á þann hátt gera viðgerðir ódýrari, fljótari og öruggari og skapa jafnframt möguleika fyrir stóraukinni vinnu í landinu í þeirri iðngrein í framtíðinni. Hún telur, að með þeim siglingum, sem nú eru hingað til landsins, sé tæpast forsvaranlegt að eiga enga möguleika til að taka stærri skip á land en nú er hægt að taka í Slippinn, og úr því verði ekki bætt á neinn annan hátt betur en með byggingu þurrkvíar.“

Þrátt fyrir þessar niðurstöður nefndarinnar var ekki ráðizt í neinar framkvæmdir. Hins vegar héldu áfram ýmsar kannanir á málinu, m.a. á vegum Reykjavíkurhafnar, og önnur álitsgerð var gerð 1954. Árið 1962 bar svo Gísli Jónsson alþm. fram till. á Alþ. um nýjan tekjustofn fyrir Hafnabótasjóð, 2% gjald af kostnaðarverði nýrra skipa, og skyldi helmingur þeirra tekna renna til þess að koma upp og reka þurrkví í Reykjavík. Þessi till. náði ekki fram að ganga, og lá málið síðan kyrrt um alllangt skeið. Hinn 3. febr. 1967 var hins vegar gerð samþykkt í borgarstjórn Reykjavíkur. Þar var samþ. tillaga, sem fulltrúar Alþb. báru fram og var svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Með því að fyrsti áfangi Sundahafnar er í byggingu, telur borgarstjórn nauðsynlegt að kanna ítarlega þörf fyrir dráttarbraut eða þurrkví í tengslum við hina nýju höfn. Felur borgarstjórn því hafnarstjórn að framkvæma athugun þessa og kanna jafnframt, hverjar áætlanir eru uppi hjá þeim fyrirtækjum í borginni, sem annast skipaviðgerðir og líkleg væru til þess að hefja nýsmíði fiskiskipa, og athuga möguleika á samstarfi þeirra í þessu efni, eftir því sem henta þykir.“

Síðan fól hafnarstjórn Gunnari B. Guðmundssyni hafnarstjóra, Braga Hannessyni og Guðmundi J. Guðmundssyni að framkvæma þessa athugun, sem ákveðin hafði verið. Hefur Gunnar B. Guðmundsson hafnarstjóri gert bráðabirgðaskýrslu um þessa athugun og styðst ég við hana í þessari frásögn minni. Þar koma fram ýmsar mjög athyglisverðar upplýsingar, m.a. er rætt um þær nýju dráttarbrautir, sem teknar hafa verið í notkun fyrir minni fiskiskip, en á það er bent, að auk þeirra væri mjög nauðsynlegt, að hægt væri að koma hér upp aðstöðu fyrir stærri skip. Við skulum gæta þess, að skipafloti okkar hefur stöðugt verið að stækka á undanförnum árum, og að Íslendingar eru smátt og smátt að verða siglingaþjóð. Á þetta var raunar bent hér á síðasta þingi í till., sem flutt var af hv. þm. Guðlaugi Gíslasyni, þar sem lögð var áherzla á þessa staðreynd. Þróunin hefur verið sú, að 1955 voru íslenzk flutningaskip 24 talsins, þar af 7 stærri en 2 þús. brúttótonn og 8 undir þúsund brúttótonnum. Samsvarandi tölur nú eru 40 skip alls, þar af 13 stærri en 2 þús. brúttótonn og 17 minni en þúsund brúttótonn. Þarna er sem sé um að ræða tvöföldun síðan 1955, og það er full ástæða til að ætla, að þessi þróun muni halda áfram. Einnig er þess að gæta, að skipaferðir til Íslands og umhverfis Ísland eru mjög miklar, og það kemur oft fyrir, að erlend skip þurfa á viðgerðum að halda, sem við getum hins vegar ekki framkvæmt, af því að hér skortir til þess aðstöðu. Hafa oft borizt hingað fyrirspurnir um upptökumöguleika erlendra skipa og er ekki nokkur vafi á því, að ef þurrkví yrði komið upp hér, þá mundu erlendir aðilar hagnýta hana að nokkru leyti. Skipaviðgerðir þær, sem við verðum að ráðast í erlendis, eru mjög kostnaðarsamar. Árlegur kostnaður hefur að undanförnu numið um 120 millj. kr. Ef hér væri komið upp þurrkví, mundi verulegur hluti þeirrar upphæðar sparast. En samhliða aðstöðu til viðgerða í slíkri þurrkví þyrfti að skapa aðstöðu fyrir nýsmíði stálskipa í sambandi við hana, og það er af þeim ástæðum, sem rætt er um þá hugmynd að tengja framtíð Landssmiðjunnar við þetta fyrirtæki. Þurrkví er svo umfangsmikið fyrirtæki, að því verður naumast komið á laggirnar nema með þátttöku ríkisins, og það væri ákaflega eðlilegt, að þátttaka ríkisins yrði einmitt látin koma í gegnum Landssmiðjuna, þetta mikilvæga ríkisfyrirtæki.

Mér þykir rétt að lesa hér stuttan kafla úr skýrslu hafnarstjóra, þar sem gefin er stutt lýsing á þurrkví, með leyfi hæstv. forseta:

„Þurrkví er byggð á landi sem eins konar bás með loku í annan endann. Sjó er hleypt í kvína, og skip sigla inn, lokan sett fyrir og sjó dælt úr kvínni. Við byggingu þurrkvíar eru tvö höfuðvandamál: vatnsrennsli í kvínni á byggingartíma og vatnsþrýstingur á botn þurrkvíar við notkun. Vatnsrennsli að þurrkví er oftast leyst með því að byggja varnargarð út í sjó umhverfis byggingarstað og dæla burt lekavatni. Ef lekavatnið er of mikið, þá er nauðsynlegt að steypa neðansjávar, sem er dýrt. Vatnsþrýstingur neðan á botn þurrkvía er mótveginn ýmist með þungri botnplötu, þungum veggjum eða akkerum niðri í jörð undir kvínni. Þurrkví er oftast fyrir eitt skip, en ef hún liggur samsíða landi, má hafa lokur á báðum endum og eina milliloku. Þá er ýmist hægt að nýta kvína fyrir eitt stórt skip eða tvö lítil. Einnig er hægt að setja milliloku í kví, sem lokuð er í annan endann, og hugsa sér skip til lengri viðgerðar í innri hlutanum. Hvort tveggja bindur nokkuð notkunarmöguleikana fyrir stór skip. Viðhald á þurrkví er lítið annað en viðhald á dælum og lokum. Stór kostur umfram flotkví er, að þurrkví er hægt að byggja að mestu úr innlendum efnum, þ.e. steinsteypu.“

Sú nefnd, sem um þetta hefur fjallað á vegum hafnarstjórnarinnar, hefur einnig gert kostnaðaráætlun um þetta mál, og þar er kostnaður við þurrkví áætlaður um 100 millj. kr. og í samanburði á þurrkví og skipalyftum, flotkví, kemur það í ljós, að þurrkví sé fyllilega samkeppnisfær í stafnkostnaði, auk þess sem viðhaldskostnaður hennar yrði mun minni en annarra hliðstæðra mannvirkja.

Það er mjög jákvætt í þessu sambandi, að rannsóknir, sem gerðar hafa verið á staðsetningu þurrkvíar, hafa leitt í ljós, að jarðvegurinn fyrir innan Sundahöfn við Elliðaárvog er mjög hagkvæmur til slíkra framkvæmda. Árið 1962 til 1963 kannaði dr. Þorleifur Einarsson jarðfræðingur svæðið frá Kletti að Gelgjutanga með tilliti til staðsetningar þurrkvíar, og þar kom fram, að silt- og sandsteinslag er þarna, sem virðist algjörlega vatnsþétt. Slík aðstaða mundi geta gert byggingu þurrkvíar mun ódýrari en yfirleitt er talið gerlegt, og lausleg athugun á framkvæmdum við þær aðstæður sýndi, að munað gæti svo miklu sem 30% af upphaflegum kostnaðaráætlunum. Þessar athuganir halda enn áfram. Nefndin hefur einnig gert athugun á rekstrarkostnaði slíks fyrirtækis og tekjumöguleikum, og þar kemur fram, að tekjur af viðgerð á þeim 40 farþega- og flutningaskipum, sem nú eru í eigu Íslendinga, gætu verið um 3.3 millj. kr., og að þær tekjur mundu ekki gera mikið meira en að standa undir rekstrarkostnaði. Hins vegar er í þessum tölum ekki reiknað með dokkun erlendra skipa, en eins og ég vék að áðan, þá gæti þar orðið um allverulega viðbót að ræða, auk þess sem skipastóll okkar fer vafalaust vaxandi á næstu árum. Hins vegar er full ástæða til þess að gera sér grein fyrir því af fullu raunsæi, að þarna mun þurfa að leggja fram stofnkostnað, án þess að geta reiknað með því að rekstrartekjur geti fyrstu árin staðið á eðlilegan hátt undir honum. Þarna væri verið að ráðast í framkvæmdir í þágu framtíðarinnar, og þess vegna þyrfti að finna einhverjar aðrar leiðir til fjáröflunar. Einnig um það atriði hefur nefndin borið fram hugmynd af sinni hálfu, sem ég vil leyfa mér að gera grein fyrir. Það segir svo í skýrslunni um leiðir til fjáröflunar, með leyfi hæstv. forseta:

„Samkvæmt gildandi hafnalögum ætti beint framlag ríkissjóðs, ef þurrkví yrði byggð á vegum hafnarsjóðs, að nema 40% af stofnkostnaði. Þar sem um sérstakt fyrirtæki væri að ræða, sem þjónar allri siglingu til landsins, væri ekki óeðlilegt að reikna með 75% ríkisframlagi, svo sem til hafnargarða og dýpkana. Til þess að afla tekna til stofnkostnaðar fyrirtækis, sem óneitanlega leiðir til stóraukins öryggis í siglingum við landið, virðist eðlilegt, næst á eftir framlagi úr ríkissjóði, að leggja gjald á þau skip, sem leita hafna á Íslandi. Í frv. til hafnalaga, sem lagt var fyrir Alþ. 1967, var að finna slík ákvæði til tekjuöflunar fyrir Hafnarbótasjóð, en það náði þá ekki fram að ganga. Eðlilegast virðist að leggja gjald á öll skip, stærri en 100 brúttórúmlestir, t.d. 10 krónur á brúttólest, innheimt einu sinni á ári. Gjaldið skal renna til að greiða stofnkostnað þurrkvíar. Síðar ætti það að renna að hálfu til hafnarsjóðs þeirrar hafnar, sem viðkomandi skip er skráð í, ef um íslenzkt skip er að ræða, eða leitar til hafnar í fyrst á árinu, ef um er að ræða erlend skip, en að hálfu til Hafnarbótasjóðs til frjálsrar ráðstöfunar. Og ef horfið væri að þessu ráði, þá mundi þarna vera um að ræða tekjur, sem gætu numið á ári rúmlega 9 millj. kr.“

Þetta eru sem sé þær hugmyndir, sem ræddar hafa verið af þeirri nefnd, sem hafnarstjórn Reykjavíkur skipaði, og hefur skilað bráðabirgðaáliti. Eins og ég sagði áðan, tel ég hér vera um mjög mikið stórmál að ræða. Og ég hef gert grein fyrir því, að ég telji mjög eðlilegt, að það verði tengt við framtíð Landssmiðjunnar, vegna þess að starfsemi hennar mundi á mjög eðlilegan hátt geta tengzt við starfsemi þurrkvíar.

Eins og ég vék að í upphafi ræðu minnar, þá tel ég það miklu máli skipta, að Alþ. marki nú þegar stefnu í því stórmáli, hvernig eigi að haga framtíðarrekstri Landssmiðjunnar, svo að það fyrirtæki svífi ekki í lausu lofti, eins og það hefur raunar gert síðustu árin, og þetta er þeim mun mikilvægara sem fyrir ríkisstj. liggur till. frá hæstv. iðnmrh. um að leggja Landssmiðjuna niður. Ég tel þess vegna, að það sé algjörlega nauðsynlegt, að Alþ. taki ákvörðun, marki afstöðu sína í þessu máli núna, áður en það verður sent heim eftir stuttan tíma. Til þess að flýta fyrir málinu, legg ég til, að till. okkar hv. þm. Þórarins Þórarinssonar verði ekki vísað til n., og vil ég í þessu sambandi benda á, að í þingsköpum er ekki gert ráð fyrir því sem neinni almennri reglu í störfum deildanna, að málum verði að vísa til n. Málefni Landssmiðjunnar hafa verið svo mikið rædd, bæði á þessu þingi og því síðasta, að allir málavextir ættu að vera þm. kunnir, og ekki þörf neinna frekari athugana, áður en tekin er ákvörðun um að undirbúa þá stefnumótun, sem um er rætt í till. Verði till. samþ. hér í deildinni, teldi ég sjálfsagt, að hún yrði síðan send Ed. í samræmi við ákvæði 29. gr. þingskapa.