16.04.1970
Neðri deild: 76. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 621 í D-deild Alþingistíðinda. (3496)

197. mál, rekstur Landssmiðjunnar

Dómsmrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Mér finnst alveg óþarfi af hv. 6. þm. Reykv. að vera að tala um hroka hjá öðrum þm. Það var enginn hroki í þeim fáu orðum, sem ég sagði um Landssmiðjuna, og allra sízt ferst honum að vera að tala um hroka, þegar litið er til þess rembings, sem þessi hv. þm. hefur viðhaft hér í báðum ræðum sínum. Hann vill láta þm. taka ákvörðun um Landssmiðjuna, án þess að vita nokkuð um hana. Þeir mega ekki einu sinni fá að sjá reikningana. Ég hafði fulla ástæðu til þess að segja það, sem ég sagði um reikningana, og ég endurtek till. mína um, að málinu verði vísað til n. og n. skal verða gerð frekari grein fyrir þessum reikningum af rn. hálfu.