17.04.1970
Neðri deild: 77. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 622 í D-deild Alþingistíðinda. (3498)

197. mál, rekstur Landssmiðjunnar

Flm. (Magnús Kjartansson):

Herra forseti. Mig langar að fá að segja örfá orð um þingsköp í tilefni þess, að við flm. þessarar þáltill., ég og hv. þm. Þórarinn Þórarinsson, höfum lagt til, að sá háttur verði á hafður, að þessari till. verði ekki vísað til n., heldur taki deildin efnislega afstöðu til hennar, án þess að hún fari til n. Ég vil vekja athygli á því í þessu sambandi, að í 16. gr. þingskapa segir svo um störf nefnda:

„Til fastanefnda getur hvor þd. vísað þeim þingmálum, sem fyrir deildina eru lögð... “ Það er ekki um það að ræða, að nein skylda sé að vísa málum til n., heldur er það á valdi deildanna að ákveða það hverju sinni. Og ástæðan til þess, að við leggjum til, að þessi háttur, sem vissulega er óvenjulegur, verði á hafður, er sú, að það er algerlega nauðsynlegt, að Alþ. taki efnislega ákvörðun í þessu máli nú, vegna þess að fyrir hæstv. ríkisstj. liggur till. um að leggja Landssmiðjuna niður. Hæstv. iðnmrh. hefur lagt til, að málið fari til fjhn., en af því mundi leiða, að till. mundi ekki koma til atkv. hér á þessu þingi og vilji Alþ. kæmi ekki í ljós. Þess vegna leggjum við flm. til, að þessi till. hæstv. ráðh. verði felld, en deildin taki sjálf ákvörðun um efni till.