30.01.1970
Neðri deild: 49. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 426 í B-deild Alþingistíðinda. (350)

156. mál, Iðnþróunarsjóður

Eðvarð Sigurðsson:

Herra forseti. Iðnn. fjallaði um þetta mál á fundi kl. eitt í dag og hefur ekki unnizt mikill tími til þess að skoða málið og var ekki búizt við, að það kæmi hér á dagskrá núna. Ég lýsti því yfir í n., að ég mundi flytja brtt. við 4. gr. frv. Það kom fram ýmis gagnrýni á einmitt þeirri gr. frv. hér við umr. í gær. Ég ætla ekki að rekja þær, en ég er eindregið þeirrar skoðunar, að framkvæmdastjórn þessa sjóðs, sem nú er gert ráð fyrir í 4. gr., að skipuð sé fulltrúum úr bankakerfinu, eigi ekki að vera þannig og ég skal að vísu játa, að sú brtt., sem hæstv. iðnrh. nú hefur flutt, bætir þar nokkuð um. En í grundvallaratriðum er það þó hið sama, þ.e.a.s. það er bankakerfið, sem á að tilnefna þessa menn og ráðh. síðan að skipa þá. Ég er algerlega andvígur þessum hætti og leyfi mér að flytja hér skrifl. brtt. við 4. gr. frv. Hún er á þessa leið, með leyfi forseta: „4. gr. orðist svo:

Framkvæmdastjórn sjóðsins skipa 5 menn kosnir hlutfallskosningu af Alþ. Kjörtímabil stjórnar skal vera 3 ár, og skulu 5 varamenn einnig kosnir til þriggja ára. Ráðh. skipar formann framkvæmdastjórnar úr hópi hinna kjörnu manna, en stjórnin skiptir með sér verkum að öðru leyti.“

Ég skal svo ekki að öðru leyti fjalla um þetta mál, en styð frv. með þessum fyrirvara.