22.10.1969
Sameinað þing: 6. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 630 í D-deild Alþingistíðinda. (3511)

20. mál, fæðingardeild Landsspítalans

Dómsmrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Fyrirspyrjandi, hv. 6. þm. Reykv., vék nokkuð í ræðu sinni hér áðan að meðferð þessa máls á s.l. þingi. Af því tilefni vil ég segja það, að þegar fsp. og þáltill. voru bornar fram um stækkun fæðingardeildarinnar, lágu þegar fyrir, eins og þá var gerð grein fyrir af minni hálfu á Alþ., ákvarðanir heilbrigðisstjórnarinnar um það, að stækkun fæðingardeildarinnar skyldi ganga fyrir öðrum þeim byggingarframkvæmdum, sem næst skyldi hafizt handa um á landsspítalalóðinni. Að frumteikningum hafði lítillega verið unnið á árinu 1968, en skipulagsmál landsspítalalóðarinnar voru til meðferðar milli heilbrigðisstjórnar og borgarstjórnar og eins og þá stóðu sakir, í byrjun ársins eða á fyrstu mánuðum, var auðvitað engin leið til þess, eins og ég tók fram þá, að hefja byggingarframkvæmdir á þessu ári, bæði af skipulagsástæðum og einnig vegna undirbúningsskorts, sérstaklega teikninga. En ég man ekki betur en ég hafi látið orð um það falla hér á þinginu, áður en það hætti í vor, að málin horfðu þannig við, að ég teldi, að hægt ætti að vera að hefja framkvæmdir á vorinu 1970. En ég skal nú svara fsp., sem er á þá leið, hvað líði undirbúningi að stækkun fæðingar- og kvensjúkdómadeildar Landsspítalans.

Með bréfi dóms- og kirkjumrn. til byggingarnefndar Landsspítalans, dags. 13. maí 1969, fól heilbrmrh. byggingarnefndinni að láta hraða undirbúningi að viðbyggingu við hús fæðingardeildar Landsspítalans eða nýbyggingu. Bréfið var svo hljóðandi:

„Með vísun til viðræðna við formann byggingarnefndar Landsspítalans, dr. Sigurð Sigurðsson landlækni, er þess óskað, að nefndin láti nú þegar halda áfram vinnu við teikningar að viðbyggingu við hús fæðingardeildar Landsspítalans. Teikningar miðist við þær ráðagerðir, sem uppi hafa verið um skipulag landsspítalalóðarinnar í viðræðum milli rn. og borgarinnar og eru í samræmi við till. byggingarnefndarinnar um skipulagið. Er þess óskað, að allri undirbúningsvinnu verði hraðað og teikningar allar og önnur gögn nauðsynleg til útboðs liggi fyrir eigi síðar en í byrjun næsta árs, 1970.“

Á fundi byggingarnefndar Landsspítalans 6. maí 1969 hafði hins vegar verið til umr. málefni fæðingar- og kvensjúkdómadeildar Landsspítalans, en þar gerði landlæknir, formaður byggingarnefndar, grein fyrir till., sem höfðu verið gerðar í sambandi við undirbúning að heildarskipulagi Landsspítalans. Þær till. höfðu miðazt við, að deildin yrði stækkuð upp í allt að 120 rúm. Þá sýndi Bárður Ísleifsson arkitekt og skýrði teikningar að stækkun fæðingardeildarinnar, sem húsameistaraskrifstofan hafði unnið að árið 1968. Formaður byggingarnefndar óskaði eftir því, að nefndin gerði sérstaka ályktun varðandi þessi mál, og voru eftirfarandi ályktanir gerðar:

„Nefndin ályktar, að stækkun þessarar deildar sé aðkallandi og telur hæfilegt, að sú stækkun nemi ekki minna en 50 rúmum. Með þessari stækkun verður deildin fær um að annast þá sjúklinga, sem sérstaklega eru í þörf fyrir sérhæfða meðferð í þessum greinum, og ætti að verða fullnægjandi sem kennslustofnun fyrir lækna, ljósmæður og hjúkrunarlið. Byggingarnefndin tekur fram, að stækkun á sjúkradeildum spítalans krefst aukinnar starfsemi allra þjónustudeilda spítalans, svo sem allra rannsóknadeilda, röntgen- og geislalækningadeilda, þvottahúss, eldhúss o.fl.

Þá vekur nefndin athygli á því, að nauðsynlegt er, að till. þær um heildarskipulag lóðarinnar, sem nú liggja fyrir hjá rn. og Reykjavíkurborg, fáist samþykktar hið fyrsta. Hefur ekki verið unnt að gera áætlanir um frekari byggingar á lóðinni, með því að ekki hefur verið gengið frá heildarskipulagi.“

Um þetta heildarskipulag vil ég segja það til nánari glöggvunar fyrir hv. þm., að þar er um að ræða, að Landsspítalinn fái lóð fyrir sunnan Hringbrautina, sem mundi verða um það bil jafnstór og landsspítalalóðin er nú fyrir norðan Hringbraut. Samhliða því hafa verið ráðagerðir um að flytja Hringbrautina sunnar og Hringbrautin, eins og hún nú er, legðist til Landsspítalans fyrst og fremst sem bílastæði og fæli í sér verulega stækkun á landsspítalalóðinni. Uppkast að samningum milli Reykjavíkurborgar og ríkisins, — heilbrigðisstjórnarinnar, ríkisstj. skulum við segja, — lá fyrir í byrjun sept. og hefur verið til meðferðar hjá borginni og í rn., og geri ég mér vonir um, að samningar um þetta heildarskipulag, sem ákveður Landsspítalanum mjög góða aðstöðu og stóra lóð um langa framtíð, — slíkt heildarskipulag er eitt af mikilvægustu atriðunum í sambandi við heilbrigðismálin að mínum dómi í dag, — geti orðið staðfestir milli borgar og ríkisstj. fyrir áramót um þetta heildarskipulag. Jafnframt held ég, að mér sé óhætt að fullyrða, að um byggingu fæðingardeildarinnar á gömlu lóðinni við austurendann á fæðingardeildinni, sem nú er, sé ekki ágreiningur, jafnvel þó að einhver dráttur yrði á heildarskipulaginu, þ.e. um staðsetningu hennar þar. Reyndar sagði ég áður en þingi lauk, að ég teldi ekki, að neinir erfiðleikar mundu verða af skipulagsástæðum um framgang nýbyggingarinnar.

Það bréf, sem ég vitnaði áðan í frá dóms- og kirkjumrn., var síðan tekið fyrir á fundi byggingarnefndar Landsspítalans þriðjudaginn 13. maí, og þá var arkitekt spítalans, húsameistara ríkisins, falið að hefjast þegar handa um frekari teikningar að viðbyggingunni og þá við það miðað af hálfu ráðh., að teikningar, sem hægt væri að fá samþykktar í byggingarnefnd, gætu legið fyrir fyrir áramót. Þá mundu verða eftir þær sérteikningar, sem þarf að vinna að, áður en svona verk yrði boðið út. Við skulum segja, ef það yrði boðið út sérstaklega að steypa upp bygginguna, gera hana fokhelda, eins og það er kallað, þá ætti að vera hægt að gera það mjög fljótlega á næsta ári með þessum framgangi og að þessu leyti.

Á fundi byggingarnefndar þriðjudaginn 16. sept. s.l. var málið síðan tekið til meðferðar að nýju. Þar sýndi Bárður Ísleifsson arkitekt tillöguuppdrætti að stækkun fæðingar- og kvensjúkdómadeildarinnar. Þar er gert ráð fyrir viðbyggingu við austurenda núverandi byggingar að grunnmáli 982 fermetrar, sem rúmi 54 sjúkrarúm og fæðingarstofur og skurðstofur, þriggja hæða hús, eins og fæðingardeildin er nú. Rúmmál byggingarinnar er áætlað 12 000 rúmmetrar. Fund þennan sátu ásamt byggingarnefndinni læknar fæðingardeildarinnar, þeir Pétur Jakobsson prófessor og Gunnlaugur Snædal sérfræðingur. Málefni fæðingar- og kvensjúkdómadeildarinnar voru síðan tekin á ný fyrir á fundi byggingarnefndar 30. sept. s.l., og þar voru enn sýndar og skýrðar teikningar að viðbyggingu við fæðingardeildina. Þær teikningar gera ráð fyrir, að grunnflatarmálið sé um 940 fermetrar. Byggingarnefndin fól arkitektum að vinna áfram að þeim teikningum í samráði við lækna fæðingardeildar og borgaryfirvöld að því er varðar staðsetningu. Segja má því, að vinna við undirbúning og stækkun fæðingardeildarinnar sé í fullum gangi svo sem framast má verða. Teikningar liggja fyrir í aðalatriðum, þannig að þær teikningar, sem sýndar hafa verið á byggingarnefndarfundi, hafa hlotið jákvæðar undirtektir þar, og eins munu læknar fæðingardeildar vera þeim samþykkir í aðalatriðum. Þetta þriggja hæða hús er hugsað þannig, að almenn fæðingardeild sé á annarri hæðinni, sérstök kvensjúkdómadeild á fyrstu hæð og á þriðju hæðinni skurðstofur og annað, sem tilheyrir slíkum stofnunum báðum.

Að því er fjármál nýbyggingarinnar varðar vil ég geta þess, að eins og kunnugt er eru í fjárlagafrv. áætlaðar 10 millj. til byggingarinnar, en lauslega áætlað má gera ráð fyrir, að byggingin fokheld kosti í kringum 25 millj., kannske nær 30 millj., fer það nokkuð eftir því, að hvaða marki menn stefna með orðinu fokhelt, sem getur verið nokkuð teygjanlegt hugtak. Ég lét þess getið á síðasta þingi, að ég mundi freista þess að reyna að afla nægjanlegs fjár, til þess að hægt væri að byggja fæðingardeildina upp á skömmum tíma.

Ég tel alveg nauðsynlegt að vanda vel undirbúninginn, ekki aðeins teikningar, eins og að sjálfsögðu er nauðsynlegt, heldur einnig, að séð væri fyrir endann á fjárreiðum, til þess að byggingarstarfsemin gæti gengið hindrunarlaust, er hún væri hafin. Nú treystum við okkur ekki í ríkisstj. að áætla meira en 10 millj. á fjárl. til fæðingardeildarinnar vegna ýmissa fjárhagsörðugleika og þrengsla, sem þar voru fyrir, og fyrir mér vakti þá að fá lánsfé til bráðabirgða. En ég hef áður skýrt frá því, að á þessu ári og næsta ári og eitthvað kannske fram á árið 1971 muni standa yfir byggingar, sem nú er unnið að á Landsspítalanum, en þeim mundi þá verða lokið. Það er austurálman svo kallaða, sem verið er að ljúka, og eldhús og mötuneyti og annað slíkt. Til þessara byggingarframkvæmda höfum við haft um 50 millj. kr. á ári, en þegar léttir á fjárveitingum til þeirra, ætti að mega með góðu móti greiða upp á fáum árum, skömmum tíma, lánsfé, sem yrði fengið á næsta ári til fæðingardeildarinnar. Ég hef þess vegna talfært þennan lánsmöguleika við Seðlabankann og við stærstu viðskiptabankana og hlotið þar vinsamlegar undirtektir, enda þótt engri samningsgerð um slíka lánveitingu sé lokið. En fyrir mér hefur vakað og ég hef sett fram þá hugmynd, að Seðlabankinn lánaði þetta í bili, 10 millj. kr. á móti öðrum 10 millj. sameiginlega frá viðskiptabönkunum, hinum bönkunum, þannig að með því móti, ef það næði fram að ganga, yrði séð fyrir 30 millj. kr., sem vel ættu að nægja til þess að steypa upp þessa byggingu. En auk þess hafa konur, eins og fram hefur komið, safnað um 4 millj. kr. til stækkunar fæðingardeildarinnar. Það er nú unnið að því í rn. að athuga betur, hvaða áætlun við getum lagt fram hjá peningastofnunum um endurgreiðslu á slíkum lánum, ef við fengjum þau hjá þeim, og verður rætt nánar við bankana á næstunni. Ég geri mér vonir um, að samkomulag geti náðst við þá annaðhvort með þessum hætti eða öðrum hætti, þannig að bygging fæðingardeildarinnar gæti hafizt, eins og venjulega að vori til eða eitthvað eftir tíðarfari, á árinu 1970 og þá væri hægt hindrunarlaust af fjárhagsástæðum og öðrum ástæðum að steypa upp bygginguna á næsta ári.

Ég get svo við það, sem ég nú hef sagt, aðeins bætt því, að gert var samkomulag milli fæðingardeildarinnar og handlækningadeildarinnar á Landsspítalanum um, að handlækningadeildin tæki að sér „akut“ kvensjúkdóma, sem fæðingardeildin sjálf gæti ekki annað, þar sem talið var, að þar væri mjög alvarlegur biðlisti á ferðinni. Þetta gekk allt greiðlega fyrir sig, og hafa verið 6–7 rúm til að sinna þessu af hálfu handlækningadeildarinnar, hefði kannske mátt byrja á þessu fyrr og ég vil segja að frumkvæði læknanna sjálfra. Ég hygg, að það séu yfir 100 tilfelli, sem handlækningadeildin hefur þannig fjallað um síðan. Það er síðan í maí, og ég held, að mér sé óhætt að fullyrða, að á þessu sviði sé ekki um neinn umtalsverðan biðlista að ræða eða umkvörtunarverðan, þannig að alvarlegar meinsemdir, sem geta haft alvarlegar afleiðingar í för með sér, þurfi að bíða.