22.10.1969
Sameinað þing: 6. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 635 í D-deild Alþingistíðinda. (3513)

20. mál, fæðingardeild Landsspítalans

Dómsmrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Það er beint til mín sérstaklega fsp. um það til viðbótar því, sem hér er á þingskjalinu, hvernig hugsað sé að koma fyrir geislalækningum með kóbalttækinu í tengslum við þessa nýju fæðingardeild. Það er þannig hugsað, að áætlað er að gera neðanjarðargöng í fyrstunni yfir í Landsspítalann til þess að koma þeim sjúklingum á milli, sem þurfa að njóta þeirrar geislunar, sem af kóbalttækinu er að hafa, og einnig til þess að greiða fyrir flutningum á milli sjálfs Landsspítalans á mat og öðrum tilfæringum deildarinnar, en hins vegar yrði samgangur í framtíðinni sennilega, eins og áður hefur verið gert ráð fyrir, með byggingu geislunardeildar, geislalækningadeildar, á milli, sem tengdi saman gamla Landsspítalann og þessa nýju fæðingardeild. En á meðan það liggur ekki fyrir, er þessi háttur hafður á, þessi neðanjarðargöng, sem ég hef lýst.

Úr því að minnzt var á kóbalttækið, þá get ég sagt það líka, að lögð hefur verið mikil áherzla á að hraða byggingunni, þannig að kóbalt-geislalækningar gætu hafizt á þessu ári, og það er búið að byggja sjálfa bygginguna, sem er nú í sjálfu sér ekki meiri bráðabirgðabygging en það, að hún er, eins og ég hef áður tekið fram, — ég man ekki, hvort það var hér í þinginu eða annars staðar, — töluvert miklu stærri en t.d. samsvarandi rými undir kóbalttæki til geislalækninga hjá Norðmönnum í Osló, sem eru mjög framarlega á þessu sviði. Byggingin var boðin út og henni átti að vera lokið í sept. Það stóðst, og sennilega hafa staðizt allar áætlanir um byggingarframkvæmdir og undirbúning þess að setja tækið niður, en því miður er það svo, að þeir, sem gefa tækið, tilkynntu það á sínum tíma, — ég held, að það hafi verið í sept., — að verða mundi nokkur dráttur á afhendingu tækisins frá verksmiðjunni erlendis, sem er í Kanada. Hún mun nú hafa afhent tækið, ef ég veit rétt, annaðhvort 16. eða 17. þ.m., þannig að tækið ætti að geta komið hingað á að gizka um miðjan nóv. Ég get ekki fullyrt, hvað langan tíma tekur að tengja slíkt tæki og reyna það, en þetta er allt saman á næstu grösum, aðeins hefur orðið þessi smávegis dráttur á afhendingu sjálfs tækisins.