22.10.1969
Sameinað þing: 6. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 636 í D-deild Alþingistíðinda. (3516)

901. mál, úthaldsdagar varðskipanna

Fyrirspyrjandi (Jónas Árnason):

Herra forseti. Við höfum, ég og hv. 6. landsk. þm., leyft okkur á þskj. 20 að beina til hæstv. dómsmrh. svo hljóðandi fsp.:

„Hve margir voru úthaldsdagar íslenzkra varðskipa í mánuði hverjum á s.l. ári og það sem af er þessu?“

Ég hafði hugsað mér að fylgja þessari fsp. með nokkurri ræðu, en ég held, að ég sleppi þeirri ræðu og lesi í staðinn stutta klausu, sem mér var bent á áðan að hefði birzt í morgun í blaði hæstv. dómsmrh., Morgunblaðinu. Þessi klausa er frá Óla Þorsteinssyni á Þórshöfn, og honum farast orð á þessa leið:

„Svo virðist sem svæðið hér við Langanes og á Þistilfirði sé nú orðið aðalvettvangur landhelgisbrota og hafa nú á skömmum tíma verið staðnir að verki 6–7 landhelgisbrjótar. Þessi tala gæti þó verið 10 sinnum hærri, ef öll landhelgisbrot hér yrðu uppvís. En eftirtektarverðast er, að í öll þessi skipti er flugvél að verki. Hvar eru varðskipin? Þó flugvélin sé að mörgu leyti hentug til landhelgisgæzlu, er hún alls ónóg eingöngu. Hún getur t.d. ekki verið á lofti allan sólarhringinn í einu.“

Og Óli Þorsteinsson á Þórshöfn heldur áfram, með leyfi hæstv. forseta:

„Af ýmsum ástæðum getur verið réttlætanlegt að opna landhelgina á vissum svæðum, en það er allsendis óverjandi að hafa þessi svæði sama sem gæzlulaus. Það hefur ekki sézt varðskip,“ segir hann, „það hefur ekki sézt varðskip við Norðausturland í haust. Flugvélin kemur annað slagið, stingur sér niður og tekur einn til tvo báta og er svo farin. Þeir, sem eftir eru, geta verið vissir um, að hún kemur ekki aftur þann daginn og jafnvel ekki næstu daga.“ Og Óli heldur áfram: „Næturnar eru sérlega hentugur tími til landhelgisbrota, enda eru þær til þess óspart notaðar. Það má búast við því, að þessi ágangur fari vaxandi, þegar líður á haustið, og það er því skýlaus krafa okkar í þessu byggðarlagi, að varðskip verði tafarlaust sett til gæzlu við Norðausturlandið.“

Þetta voru orð Óla Þorsteinssonar á Þórshöfn, og undir þetta hygg ég að tekið geti margir þeir, sem búa við þýðingarmestu fiskimiðin við strendur þessa lands, eins og t.d. við Breiðafjörð. Fólk undrast þetta ástand, og ýmsum virðist, að nú sæki í sama horf og á s.l. ári og á árunum þar á undan, þegar segja mátti, að togskip færu öllu sínu fram á svæðum, sem voru þó lögum samkvæmt friðuð fyrir þeim. Það er von okkar fyrirspyrjenda, að í svörum hæstv. dómsmrh. fáist einhverjar skýringar á þessu ástandi.