22.10.1969
Sameinað þing: 6. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 644 í D-deild Alþingistíðinda. (3521)

901. mál, úthaldsdagar varðskipanna

Dómsmrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Ég fagna hverri þeirri hvatningu, sem fram kemur hér í þingsölum og annars staðar í þá átt, að við getum haft nægilega vel búna og góða landhelgisgæzlu. Ég tel það mjög skynsamlegt, sem hv. 1. þm. Austf. stakk upp á hér áðan, að það væri, að gefnu tilefni vegna þessara nýju laga, sem hafa verið í framkvæmd í ár, gerð sérstök úttekt á landhelgisgæzlunni með hliðsjón af þeim, áður en fjárlög eru afgreidd, með það í huga, hvort reynslan, sem við höfum fengið þessa mánuði, gefur tilefni til þess að álykta, að við þurfum að leggja meira í gæzluna fjárhagslega eða auka hana af þeim sökum. Kannske er nú þegar fyrir hendi vitneskja um slíkt hjá sjálfri Landhelgisgæzlunni eða forstjóra hennar, en ég mun gera sérstakar ráðstafanir til þess að slíkt komi fyrir sjónir þm. og þá væntanlega fyrst og fremst fjvn. En mér finnst svolítils misskilnings gæta hjá hv. þm., sem álykta sem svo, að Landhelgisgæzlan sé slæleg vegna þess, að spara þurfi. Nú hafa engar sannanir verið færðar fyrir því, að Landhelgisgæzlan hafi reynzt slæleg og menn verða að gera greinarmun á því, hvort ákveðið er að haga landhelgisgæzlunni með tilteknum hætti til þess að fá meiri hagkvæmni í rekstur hennar, eða hvort menn eru að draga úr því, sem menn telja nauðsynlega gæzlu, vegna fjárskorts. Ég hef aldrei gengið inn á það, því að mín skoðun er sú, að eftir að við fengum Ægi og hann kom í gæzluna og eftir að Árvakur var tekinn til landhelgisgæzlu gætum við hagrætt útgerð skipanna með þeim hætti, eins og ég sagði, að leggja litla áherzlu á útgerð Þórs og Alberts nema þannig, að þau væru ævinlega til taks, ef einhver hin skipin biluðu eða náttúrlega við björgun, þegar þannig stendur á og sérstök atvik skapast af illviðrum o.s.frv. En ég hef ekki haft þá skoðun, að við værum með þessum ráðstöfunum og miðað við þann kost, sem við höfðum, og þegar við líka fengum þar tvo flugbáta til afnota á fyrsta mánuði þessa árs, að draga úr landhelgisgæzlunni, þó að þessi háttur væri viðhafður. Í raun og veru hef ég litið svo á, að það væri réttast að selja Þór, ef við gætum selt hann. En ég held; að því miður fáum við ekki það mikið fyrir hann, að ástæða sé til þess, og betra væri að reka skipið, sem nú er orðið 20 ára gamalt, sparlega, nota það til vara og eiga það áfram, eins og gert hefur verið.

Ég er ekki í neinum vafa um það, að við getum styrkt Landhelgisgæzluna og skapað okkur líka miklu betri aðstöðu til björgunar í landinu með því að auka þyrlukostinn og þá sérstaklega með því að kaupa stórar þyrlur. Þess vegna leituðum við eftir tilboðum í stóra þyrlu, á árinu 1967, held ég, að það hafi verið. Hún virtist hins vegar mjög dýr, forstjóri Landhelgisgæzlunnar og ég höfðum skoðað slíkar þyrlur í Danmörku, og við höfðum af þeim spurnir. Þetta eru svo kallaðar Sikorsky-þyrlur, sem menn kannast við af myndum, sem syna, þegar Bandaríkjamenn eru að draga geimfara sína upp úr Kyrrahafinu. Af sögnum, sem við höfðum af flughæfni þessara stóru þyrla, var það alveg greinilegt, að ef við hefðum ráð á því að eiga svona þyrlu, þá værum við með gífurlega mikið björgunartæki í landinu, sem er ekki fyrir hendi nú. Þá hafði ég sérstaklega í huga, þegar Skagerak, ferjan eða báturinn, sem gekk á milli Noregs og Danmerkur með eitthvað á þriðja hundrað farþega, lagðist á hliðina og fórst í ofviðri og fjöldinn allur af farþegum var í sjónum í björgunarbeltum. Þá var fárviðri og mikill vindhraði, en Sikorsky-þyrlur, 9–10 saman frá Svíþjóð, Danmörku og Noregi, björguðu öllu þessu fólki með því að draga það upp úr sjónum í því vonda veðri, sem þarna var um að ræða. Þær þyrlur eru mjög dýrar í rekstri og við gáfumst upp á að leggja til við þingið að veita fé til kaupa á þessari þyrlutegund, en það hefur einnig verið erfitt í ári og þá var farin þessi leið, sem var af okkur hugsuð til bráðabirgða, að fá lánaða Albatross-báta, sem svo eru kallaðir, flugbáta, sem eru björgunarflugbátar frá Bandaríkjunum, og brúa þarna eitthvert visst bil, sem maður veit ekki, hvað mundi verða langt, því að þannig mundi kannske skapast betri aðstaða til þess að fá þyrlur ódýrari. Tækninni fleygir fram, þyrlur eru mjög dýrar eins og er og einnig erfitt að fá þær, því sérstaklega mikil not eru vegna þessarar styrjaldar í Víetnam, sem talað er um, en ef þessi styrjöld tekur einhvern tíma enda, þá sannast að segja datt manni í hug, að það yrði e.t.v. hægt að fá þyrlur af ágætri gerð með hagkvæmari kjörum, jafnvel þó að þær væru ekki alveg nýjar. En ég tel hins vegar alveg nauðsynlegt að láta þetta ekki niður falla með þyrluna og auðvitað getur verið um að ræða eitthvað á milli litlu þyrlunnar og Sikorsky þyrlu. Væri þá kannske viðráðanlegt fyrir okkur að fá nýja þyrlu, sem væri stærri en þessi litla þyrla, sem við höfum, þótt hún væri ekki af fullkomnustu gerð. Allt þetta er rétt að athuga.

Út af úthaldsdögunum vil ég segja það vegna talna, sem voru nefndar hér áðan af hv. 5. landsk. þm., að úthaldsdagar Óðins eru árið 1968 269 og Alberts á sama ári 274, en 204 hjá Óðni á þessu ári. Albert er þá dreginn úr úthaldinu, en samt sem áður var Albert aldrei lagt af ýmsum sökum. Það er 131 úthaldsdagur hjá honum á þessu ári og þá kemur Árvakur til sögunnar með 158 úthaldsdaga þann tíma, sem hann hefur verið í þjónustu Landhelgisgæzlunnar á þessu ári eða 7 mánuði, svo að þarna hjá þessum tveimur skipum eru nærri 300 úthaldsdagar á þessu tímabili í ár, þ.e. 3/4 hluta ársins. Þess er að gæta líka, að við venjulegt úthald þarf varðskip, að því er talið er, 6–7 daga í mánuði í Reykjavík til eftirlits, viðgerða og samningsbundinna fría áhafnar í heimahöfn, eins og það er orðað. Það á sennilega nokkurn þátt í því, eins og ég sagði áðan, að skipin hafa legið hér meira, að mönnum finnst, fremur en að illa sé haldið á spöðunum. Því miður kom það óhapp fyrir Þór ofan á allt annað, eins og kunnugt er nú af fréttum; að bruni varð í skipinu og er unnið að því að lagfæra skipið, en það er ekki gert af Landhelgisgæzlunni sjálfri, og þess vegna er það ekki gert með neinum sérstökum hraða af hagkvæmnisástæðum, enda var gert ráð fyrir því, að ekki þyrfti að halda á úthaldi skipsins eins mikið og áður. Svo var nýi Ægir frá í 3 vikur, þegar hann þurfti að fara í skoðun. Hér í sumar var hann uppi í Slipp. Skoðun átti reyndar að fara fram erlendis, en fallizt var á, að hún, væri framkvæmd hérna. Síðan varð Ægir fyrir því óhappi, að það brotnaði í honum stimpill, sem skemmdi ljósavél skipsins og sjóhæfni þess um leið, vegna þess hversu margt er sjálfvirkara í þessu nýja skipi heldur en eldri skipunum. Viðgerð á því hefur farið fram og mun vera annaðhvort lokið eða um það bil að ljúka núna. Þetta hefur náttúrlega haft nokkur áhrif á sjóferðir skipanna.

Ég skal svo ekki hafa um þetta fleiri orð, en ég er alveg samþykkur þeim þm., sem hér hafa lýst nauðsyn þess, að landhelgisgæzlan sé á hverjum tíma nægjanlega öflug, og ég endurtek það, sem ég sagði í þinginu í fyrra og vék að áðan, að það er höfuðnauðsyn að hafa bolmagn til þess að framkvæma þau nýju lög, sem nú eru í gildi, og það má ekki koma fyrir aftur, að á vissan hátt brotni niður möguleikinn til að framkvæma landhelgislöggjöfina á Íslandi, eins og hv. 1. þm. Austf. vék að áðan réttilega, að orðið hefði síðari árin, áður en þær breytingar voru gerðar, sem þingið í fyrra var nokkurn veginn samdóma um að gera. Ég mun leggja áherzlu á það, að þingið fái sem haldbeztar upplýsingar um það, hvað nauðsynlegt sé að veita mikið fé og leggja mikið afl í Landhelgisgæzluna til þess að þessi löggjöf verði framkvæmd,.sem höfuðnauðsyn er, að á engan hátt verði dregið úr að framfylgja fullkomlega.