29.10.1969
Sameinað þing: 8. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 652 í D-deild Alþingistíðinda. (3527)

39. mál, landgræðsla

Jónas Árnason Herra forseti. Fsp. sú, sem hér er á dagskrá, er vissulega tímabær, því að hún leiðir til umræðna um mjög þýðingarmikið mál. En ég held, að erfitt sé að gefa tæmandi svar við henni, þó að hæstv. ráðh. hafi að vísu nefnt hér ákveðnar tölur í því sambandi, eftir landgræðslustjóra og Ingva Þorsteinssyni. Mér virðist, af lítils háttar afskiptum, sem ég hef haft af þessum landgræðslumálum, að lítil takmörk séu fyrir því, hve mikil sjálfboðavinna stæði til boða á þessum vettvangi, ef fyrir hendi væri afl þeirra hluta, sem gera skal, fjármagn af hendi hins opinbera til þess að skaffa sjálfboðaliðunum nóg af ókeypis áburði og fræi. Ég get tekið sem dæmi, að nú í sumar skipulögðum við, nokkrir félagar í Ungmennasambandi Borgarfjarðar, með ágætri aðstoð frá góðum mönnum hjá Landgræðslunni, landgræðsluferð á melana í Leirársveit, og til þátttöku í þessari ferð fengust hvorki fleiri né færri en 60–70 manns, án nokkurrar teljandi fyrirhafnar. Þessi hópur vann þarna einn sunnudag í júní, setti niður girðingarstaura umhverfis svæðið, sem er u.þ.b. 23 ha., og sáði fræi í rúman helming þessa svæðis, eitthvað u.þ.b. 13 ha. Fræ það og áburður, sem við fengum þarna til afnota að þessu sinni, nægði sem sé ekki til þess að sá í nema rúman helming þessarar girðingar. Þrem vikum seinna fórum við svo 20 saman til þess að strengja vírinn á girðinguna. Það var unnið heilt kvöld og fram á nótt. Nú er eftir að setja trérenglur á vírinn milli stauranna, en börn og unglingar í Leirárskóla munu bráðlega vinna það verk undir stjórn eldri ungmennafélaga í hreppunum þarna í grenndinni. Verk þetta hefur sem sé gengið mjög vel og verið til mikillar ánægju fyrir alla þátttakendur, og árangurinn orðið eftir því. Núna í haust veitist okkur sú ánægja að líta yfir hvanngræna breiðu á u.þ.b. 13 ha. svæði, þar sem í vor var aðeins ber og blásinn melur. En ef nægilegt fræ og áburður hefði verið fyrir hendi, þá mundi þetta svæði, þetta græna svæði, vera u.þ.b. helmingi stærra. Sjálfboðaliðar í Ungmennasambandi Borgarfjarðar hefðu auðvitað viljað ljúka alveg við verkið, þ.e. sú í allt þetta svæði í sumar. Næsta sumar eru þeir reiðubúnir að gera það, og þá stendur einnig til að fara landgræðsluferð á sandana í Hítardal, og mér kæmi ekki á óvart, þó að fá mætti á að gizka 100 manns til þátttöku í þeirri ferð. Framboð á sjálfboðaliðum, þarna a.m.k., og svo hygg ég að sé víðast hvar á landinu, er sem sé það mikið, að þeir, sem eiga að útvega fjármagnið til þessara hluta, mega svo sannarlega taka á honum stóra sínum, ef þeir vilja ekki láta upp á sig standa í málinu.

Ég hef kvatt mér hljóðs hér í þessu sambandi til þess að leggja áherzlu á þetta. Það er mjög erfitt að áætla það, hvað þurfi mikið af fræi og áburði, en víst er, að það þarf mikið til þess að fullnægja eftirspurninni. Áhuginn fyrir þessum málum er orðinn það mikill og vilji manna til þess að vinna sjálfboðastörf á þessum vettvangi.

Ég hef kvatt mér hljóðs, líka í sambandi við mál, sem í fljótu bragði kann að virðast óskylt þessu máli, en er þó við nánari athugun nátengt því. Núna undanfarin tvö ár hafa komið hingað til lands brezkir herflokkar, 3–400 manns í hvorum herflokknum, til þess að stunda heræfingar á svæðum sérstaklega völdum til þeirra athafna. Það fer ekki á milli mála, að af þessu brölti verða margs konar spjöll á gróðri landsins, og þegar seinni herflokkurinn var hérna, — ég held, að það hafi verið í aprílmánuði s.l., — þjösnuðust ýmsir garpar úr honum á þungum hertrukkum sínum jafnvel yfir ræktað land. Bændur, sem urðu fyrir spjöllum af þessu, sendu athugasemdir í blöðin og mótmæltu harðlega. Vegagerðarmenn okkar hafa tekið upp þann góða sið, eflaust samkvæmt fyrirmælum frá hæstv. samgmrh., sem er jafnframt landbrh., þeir hafa tekið upp þann góða sið að sá grasfræi, þar sem verk þeirra valda spjöllum á gróðri. Hæstv. landbrh. hefur að vísu ekki með hernaðarmálefni að gera, en mér hefði ekki fundizt óviðeigandi, að hann hefði komið þeim tilmælum til þess ráðh., sem hefur með þau málefni að gera, að setja Bretunum þau skilyrði, að þeir fylgdu þeirri reglu, sem vegagerðarmönnum okkar er gert að fylgja, að sá grasfræi í þau svæði, þar sem þeir hafa spillt gróðri með brölti sínu. Slíku hefur því miður ekki verið að heilsa, en hitt er víst, að lítil samkvæmni er í því að hvetja okkur Íslendinga til að græða upp landið á sama tíma og útlendingum er leyft að spilla gróðri þess með hernaðarbrambolti. Það er þess vegna fróm ósk mín og vinsamleg tilmæli til hæstv. landbrh., og ég þykist þar tala fyrir munn allra þeirra, sem hafa heillazt af landgræðsluhugsjón hans og annarra góðra manna, vinsamleg tilmæli, að hann beiti áhrifum sínum í ríkisstj. til þess að herflokkar, hvort heldur brezkir eða annarra þjóða, fái ekki framar að spilla gróðri lands okkar með brölti sínu. Hernaðarþarfir annarra þjóða samrýmast ekki brýnni þörf okkar sjálfra til þess að græða upp land okkar.