30.01.1970
Neðri deild: 49. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 427 í B-deild Alþingistíðinda. (353)

156. mál, Iðnþróunarsjóður

Matthías Bjarnason:

Herra forseti. Það var aðeins ein fsp. til hæstv. iðnrh. Ég vildi spyrjast fyrir um það, hvort það hafi verið ákveðin krafa fulltrúa ríkisstj. hinna Norðurlandanna, að framkvæmdastjórnin, sem gert er ráð fyrir, fyrir þennan sjóð, verði valin af íslenzka bankakerfinu, m.ö.o. hvort það hafi verið krafa fulltrúa ríkisstj. hinna Norðurlandanna, að framkvæmdastjórnin væri skipuð fulltrúum úr íslenzka bankakerfinu.

Ég lýsti því yfir hér í gær, að ég væri andvígur því, að fulltrúar bankakerfisins færu með framkvæmdastjórn. En ef það er ófrávíkjanleg krafa Norðurlandanna og Iðnþróunarsjóðurinn gæti kannske að engu orðið, þá verða menn að sætta sig við ýmislegt annað en gott þykir. En ég trúi því ekki, að vinaþjóðirnar á Norðurlöndum hafi gert þessa kröfu, fyrr en ég fæ það þá staðfest og skil ekki í öðru, en það megi taka upp samningaviðræður um þetta mál. Og ég lýsi því enn einu sinni yfir, að ég er andvígur því að fá bankakerfinu stjórn fleiri fjárfestingarsjóða, en þegar hefur verið gert.