12.11.1969
Sameinað þing: 12. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 663 í D-deild Alþingistíðinda. (3535)

52. mál, lán og styrkveitingar atvinnumálanefndar ríkisins

Sigurvin Einarsson:

Herra forseti. Ég sé á skýrslu þeirri, sem við höfum fengið á borð okkar í dag, að hlutur Vestfjarða er ekki ýkja hár við úthlutun þeirra 241 millj. kr., sem þar er gerð grein fyrir. Það eru 3.1 % af upphæðinni, sem fallið hafa í hlut þessa landshluta. Nú vil ég ekki fara að deila neitt á atvinnumálanefnd ríkisins út af þessu, meðan ég veit ekki, eftir hvaða reglum þarna er farið. En mig langar til að spyrja hæstv. forsrh. að því, ef hann hefur nokkur gögn í höndunum til að svara því núna, hvort óskum atvinnumálanefndar Vestfjarðakjördæmis hefur þá verið fullnægt hlutfallslega eins vel og óskum annarra héraða. Hvort þeir hafi fengið jafnmikinn hluta þess, er þeir óskuðu eftir, og atvinnumálanefndir annarra héraða hafa fengið. Ég geri þetta sérstaklega af því sérstaka tilefni, að þegar ég var á ferð þarna fyrir vestan í haust, var mér bent á þetta, og var talið, að þarna væri um óeðlilega lágan hlut að ræða, en ég vil ekkert fullyrða um, að þarna sé neinu ranglæti beitt, meðan ég veit ekki þessar reglur. En 3.1% af upphæðinni handa þessum landshluta, það sjá flestir, að er ekki ýkja mikið. Ég sé að vísu, að þarna eru birtar lánveitingar Atvinnujöfnunarsjóðs við hliðina á þessu og þar er hlutur Vestfjarða tiltölulega betri en sumra annarra, en mér er ekki ljóst, hvers vegna er verið að stilla þessu upp hlið við hlið. Þarf þá ekki að taka margar aðrar stofnanir, lánastofnanir í landinu, ef á að draga einhverja ályktun út frá þessu eða er eitthvert sérstakt samband á milli Atvinnujöfnunarsjóðs og atvinnumálanefndar ríkisins, þegar verið er að úthluta þessu fé? Ég held, að taka þurfi miklu víðtækara yfirlit um lánveitingar almennt til atvinnurekstrar í landinu, ef maður á að fá nokkra rétta mynd af þessu. En þegar litið er á þessa úthlutun atvinnumálanefndar einnar, þá verð ég að segja, að mér þykir þetta ískyggilega lítilfjörlegur hlutur. En vil þó ekki deila á þetta á meðan ég veit ekki reglurnar, sem farið hefur verið eftir.