12.11.1969
Sameinað þing: 12. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 664 í D-deild Alþingistíðinda. (3536)

52. mál, lán og styrkveitingar atvinnumálanefndar ríkisins

Einar Ágústsson:

Herra forseti. Hér er á dagskrá fsp. frá okkur, mér og hv. 4. þm. Reykv., um lánveitingar atvinnumálanefndar ríkisins til fyrirtækja og stofnana hér í Reykjavík og ég mun halda mig við það. Það er mjög gott að fá í hendurnar þessa skýrslu, og ég tel, að hún sé allrar athygli verð fyrir Reykvíkinga. Skýrslan sýnir, að reykvísk fyrirtæki lögðu inn 31 umsókn um 99 millj. og 152 þús. kr. aðstoð. Þessar umsóknir hafa fengið þá afgreiðslu, að sex umsóknir hafa verið afgreiddar jákvætt og lánin samkvæmt þessum sex umsóknum eru 21/2 millj. kr. Þetta er það, sem skýrslan segir. Synjað hefur verið umsóknum um 50 millj. og óafgreiddur afgangurinn, því að þótt þessar tölur komi kannske ekki alveg heim og saman, látum við það liggja á milli hluta, það munar ekki neinu verulegu. Umsóknir um aðstoð til fiskveiða eru 2 millj. og 777 þús. kr. Þar hefur verið lánað 700 þús. kr. Umsóknir til fiskvinnslu eru 3.3 millj. og þar hefur ekkert verið lánað. Umsóknir til landbúnaðarafurðavinnslu eru 15 millj., þar hefur ekkert verið lánað. Umsóknir til annars iðnrekstrar eru 78 millj. og 75 þús. kr. og þar hefur verið lánað 1800 þús. kr. Þetta er sú afgreiðsla, sem umsóknir frá reykvískum aðilum hafa fengið frá atvinnumálanefnd. Hins vegar kemur það fram af skýrslunni, að til opinherra framkvæmda hefur atvinnumálanefnd ríkisins lánað til Reykjavíkur 41.3 millj. kr. og til atvinnu vegna skólafólks 10 millj. kr. Ég tel það vera mjög alvarlegan hlut, sem Reykvíkingar verða að lesa út úr þessari skýrslu, það í fyrsta lagi, að fram kemur óeðlilega lítið af umsóknum um aðstoð við fiskvinnslu og til fiskveiða, hins vegar kemur mikið af umsóknum til iðnaðarfyrirtækja, sem ekki er sinnt. Svo er lánað til opinberra framkvæmda 51 millj. kr., og þetta staðfestir það, sem ég hef áður sagt hér og sem er mjög alvarlegur hlutur í atvinnumálum Reykvíkinga, að það er treyst á það ávallt, að opinberar framkvæmdir geti útrýmt atvinnuleysinu. Reynt er að kreista fram fjármagn til þess að vinna að opinberum framkvæmdum, en sjálfir undirstöðuatvinnuvegirnir sitja við skertan hlut. Þetta er þróun, sem átt hefur sér stað hér í höfuðborginni lengi og hún er mjög alvarleg og það er auðvitað alveg ljóst, að með þeim hætti að leggja áherzlu eingöngu á opinberar framkvæmdir verður ekki til frambúðar hægt að standa undir atvinnulífinu hér í Reykjavík. Hæstv. forsrh. svaraði því til, þegar hann ræddi um litla aðstoð til iðnaðarfyrirtækja hér í Reykjavík, að til hefði komið fyrirgreiðsla frá Seðlabankanum, og það er vissulega rétt, að nokkurt fjármagn hefur verið útvegað til lána handa iðnaðinum. En eins og hér hefur áður verið rakið, er það með mjög óhagkvæmum kjörum, því að í bréfi Seðlabankans til bankanna frá 14. febr. s.l., þar sem þessari tilhögun er lýst, þá er það skýrt tekið fram, að lánin skuli yfirleitt aldrei vera til lengri tíma en tveggja ára og að endurgreiðslur eigi í síðasta lagi að byrja eftir 6 mánuði. Og að stefnt verði að því, að þessi lán verði greidd af auknu eigin rekstrarfé viðkomandi fyrirtækja, en svo vísað til viðskiptabankanna að því leyti sem rekstur fyrirtækjanna getur ekki staðið undir þessum lánum. Þannig tel ég, að þessi fyrirgreiðsla atvinnumálanefndar ríkisins hafi verið mjög af skarnum skammti og að skýrslurnar sýni það.

Ég skal ljúka ræðu minni, herra forseti. Mér er ljóst, að svona skýrslu, sem er lögð fram núna í byrjun þingfundar, verður ekki hægt að ræða að neinu marki, en þessar eru þær niðurstöður, sem í fljótu bragði blasa við við lestur hennar.