12.11.1969
Sameinað þing: 12. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 665 í D-deild Alþingistíðinda. (3537)

52. mál, lán og styrkveitingar atvinnumálanefndar ríkisins

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Það má vel vera, að það gefi villandi mynd af þessu vandamáli öllu að stilla þessum sjóðum upp hlið við hlið, en það er eins og hæstv. forsrh. sagði, að þetta hefur gripið hvað inn í annað og náin samvinna verið þar á milli. Það er hins vegar alveg nauðsynlegt að gera sér grein fyrir mismunandi eðli þessara sjóða, sem hér er um að ræða, og þeim mismunandi reglum, sem þeir fara eftir, til þess að skilja, hvernig stendur á þeim mismun, sem er á prósentuhlutföllum í lánveitingum þessara aðila. Ég skal hér alveg láta liggja á milli hluta að ræða um atvinnumálanefnd ríkisins, hæstv. forsrh. hefur gert því skil og mun vafalaust svara þeim aðfinnslum, sem komið hafa fram á hennar gerðum, en mér skilst samt, að meginsjónarmið hennar hafi verið byggt á því að athuga, hvert væri hlutfall atvinnuleysis í hverjum landshluta, enda má sjá, að nokkurt samræmi er á milli lánveitinga ag hins skráða atvinnuleysis. Um Atvinnujöfnunarsjóð gegnir allt öðru máli. Hann hefur ekki breytt starfsemi sinni með hliðsjón af þessu ástandi, sem við vonum að sé bráðabirgðaástand, heldur hagað sínum starfsreglum í samræmi við það, sem er hans eðlilegi hlutur. En til þess að skilja það, þarf örlítið að rekja forsögu þess sjóðs. Upphaflega er hann til kominn á þann hátt, að veitt var á fjárl. fé til þess að stuðla að jafnvægi í byggð landsins, eins og kallað var, og var það upphaflega vegna atvinnuörðugleika á Siglufirði rétt um 1950, sem fjárveitingar voru teknar upp í þessu skyni. Lengi vel var fé ráðstafað af rn., en síðan var stofnaður Atvinnubótasjóður. Honum var fengið það hlutverk, sem þá var orðað að stuðla að jafnvægi í byggð landsins, hið sama og Atvinnujöfnunarsjóður, sem nú er búinn að starfa í nokkur ár, hefur. Honum er einnig markað það sama hlutverk, og þetta hlutverk hefur sjóðsstjórnin alltaf skilið svo og ekki verið um það neinn ágreiningur, að fyrst og fremst bæri að líta á það, hvernig fólksflutningaþróunin væri í landinu og að þessum sjóði væri fyrst og fremst ætlað, enda er það skýrt tekið fram í lögum sjóðsins, að veita viðbótarlán til atvinnufyrirtækja og uppbyggingar á stöðum, þar sem um óeðlilega fólksflutninga væri að ræða til annarra svæða á landinu, til þess að stuðla að því að byggðarþróunin héldist með eðlilegum hætti. Hingað til hefur það verið svo, og ég veit ekki til, að á því hafi orðið breyting enn í dag, jafnvel þótt atvinnuleysi sé hér á Stór-Reykjavíkursvæðinu, að lánveitingar Atvinnujöfnunarsjóðs hafa svo að segja algerlega beinzt til annarra landshluta, og þá fyrst og fremst til Vestfjarða, Vesturlands ag Norðurlandssvæðisins, og að nokkru leyti til Suðurlandssvæðisins, með þeirri undantekningu þó, að sjóðurinn hefur ekki lánað til Vestmannaeyja, vegna þess að þar hefur jafnan verið um mjög mikla atvinnu að ræða og þar er eitt mesta og bezta atvinnusvæði landsins, sem gleðilegt er. En nokkrar byggðir á Suðurlandi, þar sem hefur verið við atvinnuörðugleika að stríða í lengri tíma, hafa verið teknar með, og þess vegna er það, að hlutfallstölurnar varðandi fjárveitingar og styrki sjóðsins til Reykjavíkur og Reykjanessvæðisins eru mjög lágar, og þær reglur gilda almennt um þessi svæði, að við lánum ekki til þeirra. Undantekningarnar, sem gerðar hafa verið í þessu sambandi, eru þær, að nú hefur verið ákveðið fyrir nokkru, sem jafnframt er aðstoð við skipabyggingariðnaðinn, að enginn greinarmunur verði gerður á því varðandi lánveitingar til nýrra fiskiskipa, til hverra svæða þau fara. Aftur á móti hafa ekki verið veitt lán inn á Reykjavíkur- eða Reykjanessvæðið í sambandi við kaup á eldri skipum, eða kaup á skipum á milli héraða.

Þetta sjónarmið geta menn haft sitt að athuga við, en það hefur verið samdóma skoðun sjóðsstjórnarinnar og byggzt, eins og ég segi, á lögum um sjóðinn og forsendum þeirrar löggjafar, að honum væri ætlað fyrst og fremst að sjá til þess, að strjálbýlissvæðin úti á landi gætu vegið nokkuð á móti Stór-Reykjavíkursvæðinu og þéttbýlissvæðunum hér, þannig að spornað yrði gegn fólksflutningum inn á þessi svæði. Þetta er hlutverk sjóðsins, og ef hann færi almennt að starfa að lánveitingum, þá væri það hlutverk fyrir borð borið. Það hindraði hins vegar ekki, að hægt væri að lána inn á þessi svæði, og ég tel, að ef þróunin færi að snúast í þá átt, að óeðlilegir fólksflutningar yrðu af Reykjavíkur- og Reykjanessvæðinu norður og austur og vestur, þá gæti það verið fullkomlega eðlilegt í samræmi við þá starfshætti að hefja lánveitingar inn á þessi svæði.

En fyrr er það ekki í samræmi við starfshætti sjóðsins ... (Gripið fram í.) Það held ég ekki. Ég held, að það séu ekkert ranglátir menn í sjóðsstjórninni, en þeir haga sér eftir því, sem grundvallarreglur um sjóðinn segja til um, og ég vil benda þessum hv. þm. á það, að m.a. vegna þess, að mikið stórfyrirtæki hefur aðsetur á Suðurnesjum, fóru fram um það beinar umr. á sínum tíma, að skatttekjur af því fyrirtæki gengju einmitt til lánveitinga annars staðar á landinu, en ekki í Reykjaneskjördæmi, til þess að vega upp á móti þeim mikla atvinnuauka, sem skapaður væri í því byggðarlagi. Ég er ekki að sjá eftir því, að Reykjaneskjördæmi hafi fengið þetta blómlega og ágæta fyrirtæki, sem ég veit að vísu ekki, hvað hv. fyrirspyrjandi hefur stuðlað mikið að, að þangað kæmi. Það er önnur saga. En úr því að svo varð nú, þá muna menn vafalaust umr. um ráðstöfun á skattgjaldi fyrirtækisins, að því var ætlað að vega upp á móti því, að þetta fyrirtæki hefði aðsetur í þessum þéttbýliskjarna, Það er enginn ágreiningur um þennan meginskilning, að ég hygg, innan sjóðsstjórnarinnar. Ég man ekki, hvað við höfum aðstoðað oft við að kaupa skip af Reykjanesi til annarra landshluta. Við höfum ekki fylgt neinum átthagafjötrum varðandi fiskiskip. Hitt er annað mál, að atvinnumálanefnd Reykjavíkur beindi til okkar þeim óskum fyrir nokkru, að annaðhvort veittum við sömu aðstöðu í Reykjavík, sem við töldum ekki eðli málsins samkv. eðlilegt að veita, eða þá að við veittum ekki aðstoð til kaupa á skipum frá Reykjavíkursvæðinu, ef atvinnumálanefnd Reykjavíkur legðist gegn því, og var fallizt á það af Atvinnujöfnunarsjóði að fylgja þeirri reglu. Engin slík ósk hefur borizt frá Reykjaneskjördæmi til sjóðsstjórnarinnar.

Ég held, herra forseti, að ekki sé ástæða fyrir mig að orðlengja frekar um þetta. En ég vonast til, að út frá þessu skilji menn það, sem ég hélt nú satt að segja, að öllum hv. þm. væri ljóst úr öllum kjördæmum, hvert væri hlutverk Atvinnujöfnunarsjóðs, og ég segi, að enn sem komið er, þrátt fyrir atvinnuörðugleika hér, hefur byggðaþróunin ekki snúizt á þann veg, að fólksflutningar hafi hafizt úr Reykjaneskjördæmi og Reykjavík til svæðanna úti á landi. En ég tek það fram, að það eru ekki nein ákvæði um það í lögunum, að ekki megi lána inn á þessi svæði, ef svo færi, að þarna færi að skapast byggðajafnvægisleysi í öfuga átt, þannig að óeðlilegir fólksflutningar ættu sér stað, vegna lífsbjargarerfiðleika, frá þessum kjördæmum til annarra kjördæma.