12.11.1969
Sameinað þing: 12. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 671 í D-deild Alþingistíðinda. (3540)

52. mál, lán og styrkveitingar atvinnumálanefndar ríkisins

Jón Skaftason:

Herra forseti. Ég skal ekki fara að munnhöggvast við hv. síðasta ræðumann, ágætan vin minn, eins og hann skýrði frá sjálfur. En þegar hann var að tala um álverksmiðjuna og að Reykjaneskjördæmi hefði notið einhvers sérstaklega í sambandi við staðsetningu álverksmiðjunnar, þá skaut hann algerlega fram hjá markinu að því leyti, að staðsetning álverksmiðjunnar var ekki ákveðin í Reykjaneskjördæmi vegna þess, að verið væri sérstaklega að hugsa um hagsmuni þess kjördæmis. Það var vegna þess, að talið var að viturra manna yfirsýn, sem könnuðu þessi mál, að þar væri hún bezt staðsett fyrir þjóðina alla, og ég veit ekki betur en allir landsmenn njóti þess afraksturs hennar, m.a. hans kjördæmi, sem tekjur af álverksmiðjunni, er renna í Atvinnujöfnunarsjóð, gefa á hverju ári. Svo að ég held, að við getum svona nokkurn veginn verið kvittir hvor við annan út af þessu deiluatriði. Sennilega eru kjördæmi okkar þiggjendur og gefendur að líku leyti. Ég mundi þó segja, að mitt kjördæmi væri ekki síður veitandi í þeim efnum heldur en hans kjördæmi.

Ástæðan til þess, að ég fór upp í ræðustólinn, var ekki sú, að fara að munnhöggvast við Matthías vin minn Bjarnason, heldur langaði mig til þess að koma að dálitlum upplýsingum í sambandi við þá yfirlýsingu hæstv. fjmrh., sem hann gaf hér áðan um, hvernig stjórn Atvinnujöfnunarsjóðs teldi, að hún ætti að haga lánveitingum sínum, eftir hvaða reglum væri farið. Hann sagði þá, að stjórnin færi eftir því, að hún veitti helzt lán til þeirra staða, sem fólksflóttinn væri mestur frá, til þess að reyna að fyrirbyggja fólksflótta þaðan og koma upp atvinnu þar. Ég náði af því tilefni í Hagtíðindin og hef reiknað út fólksflutninga frá fjórum svæðum, þ.e. fólksflutninga frá Vesturlandi, Vestfjörðum, Norðurlandi sem heild og Austurlandi, fólksflutninga frá árinu 1967 til ársins 1968. Og þá kemur í ljós, að á Vesturlandi hefur fólkinu fjölgað á þessu ári, frá 1967–1968, um 68, en hlutur Vesturlands af lánveitingum Atvinnujöfnunarsjóðs fyrir árið 1968 og til 1. júlí 1969 er, eins og skýrslan ber með sér, 16.1%. Á Vestfjörðum hefur fólkinu fækkað um 93 á þessu eina ári. Hlutur Vestfjarða af lánveitingum úr Atvinnujöfnunarsjóði er 22.5%. Á Norðurlandi hefur hins vegar fólkinu fjölgað á þessu eina ári um 122 íbúa. En hlutur Norðurlands af lánveitingum úr Atvinnujöfnunarsjóði er 36.3% eða langhæsta hlutfallið af lánveitingum Atvinnujöfnunarsjóðs á þessu tímabili, þó að fólksfjölgunin þar sé miklu meiri en á hinum stöðunum, sem ég nefndi hér áðan. Og raunar gildir það sama um Austurland, því að þar hefur fólki fækkað um 12 á einu ári, en hlutur Austurlands úr Atvinnujöfnunarsjóði er 17.5%. Ég hygg, að þessar upplýsingar séu algerlega óyggjandi. Hér er ég með það hefti Hagtíðinda, sem ber vott um, að ég segi rétt frá, þegar ég er að upplýsa um fólksflutninga á þessu eina ári, sem ég tilgreindi, og skýrsluna um hlutfall þessara landssvæða úr lánveitingum Atvinnujöfnunarsjóðs höfum við óyggjandi hér á þessu blaði, sem hæstv. forsrh. lét útbýta í upphafi fundar. Samkv. þessum upplýsingum, sem eru óyggjandi, fær sú staðhæfing hæstv. fjmrh. ekki staðizt, að stjórn Atvinnujöfnunarsjóðs líti til þess fyrst og fremst við úthlutun lána úr sjóðnum, hvaðan fólksflóttinn er mestur. Þar virðist eitthvað annað ráða og það væri gott, að hæstv. ráðh. upplýsti, hvað það annað er.