12.11.1969
Sameinað þing: 12. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 672 í D-deild Alþingistíðinda. (3541)

52. mál, lán og styrkveitingar atvinnumálanefndar ríkisins

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Hv. 2. þm. Reykn. hefur lagt á sig mikla vinnu, sem ber að þakka, að kynna sér Hagtíðindi og ýmsar tölur í því sambandi, en ég held, að hann ætti að reikna svolítið betur og reikna þetta dæmi á dálítið annan veg. Hann sleppti að vísu alveg einum landshlutanum, ég veit ekki, hvers Austurland átti að gjalda. (Gripið fram í.) Nei, Austurland var aldrei nefnt. Var það? Þá bið ég afsökunar á því. Hverjar voru þær tölur? Má ég biðja þm. bara að..? (Gripið fram í.) Hækkun um 12 og 17%?.Þá er þetta fullkomnað. Mér skilst, að tilgangurinn með göngu hv. þm. upp í ræðustólinn hafi e.t.v. einkanlega verið sá að sanna hlutdrægni sjóðsstjórnarformanns og annarra Norðlendinga í sambandi við úthlutun úr Atvinnujöfnunarsjóði á þessu tiltekna tímabili, því að öðru leyti gat ganga hans ekki þjónað neinu hlutverki, vegna þess að allar þær tölur, sem hann nefndi, voru í þá átt, að þær staðfestu ótvírætt, að hér hefði átt sér stað samdráttur í byggð miðað við fjölgunina í landinu yfirleitt. En það, sem honum láðist að reikna út og ég saknaði í þessum tölum hans, voru prósentutölur, því að það skiptir auðvitað mjög miklu máli, hvort talað er um fjölgun eða fækkun miðað við fjölgun af 5 þús. manns eða fjölgun af 15 þús. manns. Það hefur, held ég, æði mikið að segja, þegar á að draga ályktanir af því, hvað er eðlilegt og hvað ekki eðlilegt í þessu sambandi. Og ég efast stórkostlega um, að þó að þessi smávægilega fjölgun hafi átt sér stað í báðum Norðurlandskjördæmunum miðað við þá íbúatölu, sem þar er, komi það hlutfallslega út þannig, að sýnd hafi verið einhver sérstök mismunun varðandi fjárveitingar til þessa svæðis, og ég held, að hv. þm. ætti að vita það. Það ber að vísu að fagna því, að ekki skuli hafa verið verr að staðið á þessu svæði en hann gat um. Ég held, að hv. þm. hljóti að vera það kunnugur ýmsum stöðum á Norðurlandi og vita það mikið um atvinnuástand í norðlenzkum byggðum á undanförnum árum, að honum sé kunnugt um, að þar hefur verið hvað mest atvinnuleysi á Íslandi ár eftir ár. Að fara að öfundast yfir því, að hér muni hafa verið beitt einhverri hlutdrægni af hálfu sjóðsstjórnarinnar í þágu þessa kjördæmis, það held ég að verði hv. þm. ekki til neins sóma eða til að rétta hlut hans í þessum málflutningi öllum. Hann staðfesti það ótvírætt, að þessi svæði eiga öll mjög í vök að verjast og miðað við fólksfjölgun í landinu á þessu tímabili sjáum við af þessum tölum, sem hann nefndi, hversu stórkostleg aukning hefur orðið einmitt hér á þéttbýlissvæðunum á kostnað þessara fjögurra kjördæma úti á landi eða þessa stóra hluta landsins, sem við köllum strjálbýlissvæðin, og höfum einbeitt starfsemi okkar að. Þetta sannaði hv. þm., en hvort það hefur haft áhrif, að um 10, 20 eða 30 manns hefur fækkað eða fjölgað á tugþúsundasvæði, það get ég ekki skilið að segi mikið, því að ég held, að ákaflega erfitt væri að deila þessu fé þannig niður, að við gætum fyrir fram í Atvinnujöfnunarsjóði ákveðið það og ráðið því, þó að það væri allur vilji okkar, að það gæti ekki orkað í þá átt, að á einu svæðinu kannske fækkaði um 20–30 eða kannske 60–80 manns og á öðru svæðinu kannske 200–300 manns á sama tímabili. Það kann að vera, að hv. þm. sé slíkur meistari og Ali Baba í sínum aðgerðum, að hann gæti fundið þetta nákvæmlega út, en sem sagt, ég held, að hv. þm. hafi slegið vindhögg og að hann hafi staðfest ótvírætt það, sem er kjarni málsins, að þörf hafi verið á því að halda lánunum einmitt til þessara svæða allra saman og hann hefur sannað það með sínum tölulestri öllum, að einmitt þessi svæði hafa farið algerlega varhluta af fólksfjölguninni í landinu á því tímabili, sem um ræðir. Annars sé ég ekki ástæðu til þess að fara að eyða frekari orðum að útreikningum hv. þm., en tek aðeins undir það, sem hv. 3. þm. Norðurl. e. réttilega gat um og er ótvírætt, að það er hlutverk sjóðsstjórnarinnar að stuðla að jafnvægi í byggð landsins með þeim hætti, sem ég gat um í minni frumræðu og meðan það er í lögum, mun sjóðsstjórnin framfylgja þessu ákvæði og enginn ágreiningur hefur verið innan hennar um það, að þetta sjónarmið ætti að ráða.