12.11.1969
Sameinað þing: 12. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 678 í D-deild Alþingistíðinda. (3548)

52. mál, lán og styrkveitingar atvinnumálanefndar ríkisins

Ingvar Gíslason:

Herra forseti. Ég stend enn upp vegna þeirra ummæla, sem fallið hafa frá mínum ágæta vini, sessunaut og samflokksmanni, hv. 2. þm. Reykn., því að satt að segja stórfurða ég mig á málflutningi hans, ekki sízt núna í síðari eða næstsíðustu ræðu. Það er söguleg staðreynd, sem hv. þm. þekkir alveg jafn vel og við aðrir, hver byggðaþróunin hefur verið á Íslandi, það sem af er þessari öld. Ég skal játa, að ég er ekki allra manna minnugastur á tölur og raða þeim ekki upp í kollinum á mér og get ekki rutt þeim úr mér, hvenær sem á þarf að halda, og ég les Hagtíðindin illa. Hins vegar hef ég hér fyrir framan mig frv., sem við framsóknarmenn stöndum að. Að vísu er hv. 2. þm. Reykn. ekki aðili að þessu frv., en það eru margir framsóknarmenn flm. þessa frv., og þetta frv. hefur lengi verið flutt og því fylgir mjög ítarleg grg. Þetta frv. fjallar einmitt um sérstakar ráðstafanir til þess að stuðla að jafnvægi í byggð landsins og í grg. er gerð mjög ítarleg og skilmerkileg grein fyrir því, hvernig byggðaþróunin og mannfjöldaþróunin hefur verið í 30 ár, á árabilinu frá 1938–1968. Þar kemur í ljós samkv. því, sem í grg. segir, að árið 1938 var mannfjöldinn á öllu landinu 118 888. En 1. des. 1968, þ.e. síðast, þegar manntal var tekið, eru íbúar taldir vera 202 195, þannig að fjölgunin á 30 árum er 83 303 eða rétt um 70% á landinu öllu. Þá er jafnframt af hálfu flm. gerð grein fyrir því, hvernig þetta skiptist á landssvæði. Þessi landssvæði eru kölluð Kjalarnesþing, en ég hygg, að það sé svæðið frá Hvalfjarðarbotni og út á Reykjanestá, þ.e.a.s. það er það svæði, sem er vestan Hellisheiðar; síðan er Vesturland sunnan Gilsfjarðar; Vestfirðir; Norðurland; Austurland og Suðurland austan fjalls. Það er fróðlegt að athuga, hvernig þessar tölur eru og hvernig þróunin hefur verið í fólksfjöldanum á þessum tíma. Eins og ég sagði, hefur þjóðinni fjölgað um 70% á þessum 30 árum. Og þá kemur í ljós, að í Kjalarnesþingi vestan fjalls voru árið 1938 46 047 íbúar, en voru árið 1968 117 929. Ef þarna hefði aðeins verið um eðlilega fólksfjölgun að ræða, þ.e. 70%, þá skilst mér, að á þessu svæði ættu að vera 78 280. Ef við tökum svo aftur Vesturland sunnan Gilsfjarðar, þá eru þar árið 1938 9683 manneskjur, en eru árið 1968 13 191, en hefðu átt að vera, ef þetta svæði hefði notið fólksfjölgunarinnar 70%, 16 461. Á Vestfjörðum eru árið 1938 12 991 íbúi, en árið 1968 aðeins 10 263, en hefðu átt að vera 22 085. Ég gæti lesið áfram, en ég veit ekki, hvort tími er til þess. Ég hygg, að þessar tölur sýni og sanni, að það, sem hv. þm. var hér að fara með, er auðvitað hrein blekking og algerlega röng meðferð á tölum.