12.11.1969
Sameinað þing: 12. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 679 í D-deild Alþingistíðinda. (3549)

52. mál, lán og styrkveitingar atvinnumálanefndar ríkisins

Halldór E. Sigurðsson:

Herra forseti. Það er að vísu ástæðulaust að fara að bætast í hóp þeirra manna, sem tekið hafa þátt í þessum umr., og ég verð að segja það, að ég á afskaplega erfitt með það og það er fjarlægt mínu skapi að taka þátt í umr. um meting á milli héraða. Ég held, að allar slíkar umr. séu afskaplega óheppilegar og leiðinlegar í alla staði. En ástæðan til þess, að ég kvaddi mér hljóðs, var fyrst og fremst sú, að ég vildi sem stjórnarnefndarmaður í Atvinnujöfnunarsjóði taka það fram, að ég tel mig bera fullkomlega ábyrgð á þeim verkum, sem þar hafa verið framkvæmd, og bið mig á engan hátt undan því að hafa tekið þátt í þeim störfum, og skal undirstrika það, sem hér hefur komið fram, að það hefur verið samstaða í stjórn Atvinnujöfnunarsjóðs um afgreiðslu mála. Ég vil líka vekja athygli á því, að þær tölur, sem hv. 2. þm. Reykn., vinur minn Jón Skaftason, nefndi hér áðan, staðfestu svo vel sem verða mátti, að stjórn þess sjóðs hefur staðið vel í ístaðinu og kannske helzt skeikað þar út af, þegar hún lánaði á aðra staði heldur en lögin gerðu ráð fyrir. En það sýndi sanngirni hennar, að hún vildi mjög greiða fyrir því, að ný skip kæmu hér inn á það svæði, þó að túlka megi lögin á þann veg, að ekki hafi verið til þess ætlazt.

En það er oftar en nú, sem lánað hefur verið til kaupa á nýjum skipum, bæði í Reykjavík og á Reykjanessvæði. Það var gert á tímabilinu eftir 1960, ef ég man rétt. Ég vil líka geta þess, að með góðri samstöðu allra stjórnarnefndarmanna í Atvinnujöfnunarsjóði var fyrir áramótin 1968 lánað stórt lán í Reykjaneskjördæmi, sem var mjög hæpið, að væri innan ramma laganna, en það var nauðsynjamál og kom að góðum notum. Ég vil svo líka segja það, að ég lít svo á, að ástæðan til þess, að hér eru settir upp þrír aðilar, sem lán hafa veitt, atvinnumálanefnd ríkisins, Atvinnujöfnunarsjóður og Fiskveiðasjóður, sé sú, að um áramótin 1968–1969 fóru fram lánveitingar, m.a. til fiskvinnslustöðvanna í landinu. Þessar lánveitingar voru með þeim hætti, að Fiskveiðasjóður lánaði til fiskvinnslustöðvanna innan þeirra marka, sem lög hans heimiluðu, en jafnhliða þessu voru svo lögð fyrir Atvinnujöfnunarsjóð þau verkefni og þau mál, sem lög Fiskveiðasjóðs ekki náðu til að sinna. En Atvinnujöfnunarsjóður hefur, eins og lög hans segja til, rétt til að lána viðbótarlán og aðstoðarlán. Og í framhaldi af þessu og í samstarfi og eftir ábendingu Fiskveiðasjóðs Íslands voru þessi lán veitt af Atvinnujöfnunarsjóði. Í beinu framhaldi af því kom svo atvinnumálanefnd ríkisins, og það hefur verið tekið tillit til þessara lána og enn fremur hafa ýmsar lánaumsóknir hennar gengið hvort tveggja til atvinnumálanefndanna og Atvinnujöfnunarsjóðs, og hefur þess vegna verið eðlilegt samstarf um sumt af þeim málum, sem hafa verið afgreidd milli þessara tveggja aðila, enda á Atvinnujöfnunarsjóður að taka við þessum lánum, eftir að þau hafa verið lánuð. Þetta tel ég ástæðuna til þess, að þetta er hér í samhengi, og það gleður mig sannarlega, að hv. 2. þm. Reykn. skyldi koma auga á það og sýna það með tölum þeim, sem hann las hér upp áðan, að Atvinnujöfnunarsjóði hafði tekizt vel við sitt hlutverk eða stjórn hans, því að í þeim tölum, sem hann nefndi hér, kom fram, að á þessu eina ári vantaði um 200 manns á eðlilega fólksfjölgun í Vesturlandskjördæmi, um 300 á Vestfirði, um 500 á Norðurlandi og um 200 á Austurlandi.