19.11.1969
Sameinað þing: 14. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 687 í D-deild Alþingistíðinda. (3577)

902. mál, skóla- og námskostnaður

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Fyrst er um það spurt, hvað liði framkvæmd þál. frá 14. maí 1969, um skóla- og námskostnað. Á vegum menntmrn. hefur farið fram mjög ítarleg rannsókn á því, hver er kostnaður ríkisins við skólahald á nemanda í barnaskólum í kaupstöðum annars vegar, barnaskólum annars staðar en í kaupstöðum hins vegar, barna- og unglingaskólum annars staðar en í kaupstöðum, gagnfræðastigsskólum annars staðar en í kaupstöðum og gagnfræðaskólum í kaupstöðum. Þessu er skipt eftir því, hvort um er að ræða heimangönguskóla eða heimavistarskóla. Nákvæm vitneskja um það, hver kostnaðurinn er í raun og veru, hlýtur að sjálfsögðu að vera grundvallarundirstaðan undir því, hvaða till. er skynsamlegt að gera varðandi lausn á þeim vanda, sem hv. þm. ræddi um í framsöguræðu sinni og liggur að sjálfsögðu til grundvallar þeirri þál., sem Alþ. samþykkti að ég bezt man samhljóða á s.l. vori. En tölur um þennan kostnað hafa ekki legið fyrir í þeim skýrslum, sem venjulega eru gerðar samkv. reglulegum hætti um rekstrarkostnað skólanna. Enn fremur hefur verið gerð athugun á rekstrarkostnaði eða framlögum ríkisins til menntaskólanna í kaupstöðum annars vegar og svo á Laugarvatni hins vegar, þar sem um heimavist er að ræða. Jafnframt hefur verið gerð athugun á stofnkostnaði skóla eftir því, hvort um heimavistar- eða heimangönguskóla er að ræða, og enn fremur á tilkostnaði heimila vegna nemenda í heimavistarskóla. Hér er um að ræða margar og flóknar tölur, sem ég sé ekki ástæðu til þess að gera hinu háa Alþ. grein fyrir í einstökum atriðum á þessum vettvangi, en ég er að láta ganga frá niðurstöðunum og talnaverkinu öllu í aðgengilegu formi og mun síðan láta alla hv. alþm. fá þann bækling, þegar hann hefur verið fjölritaður. Helztu niðurstöður af þessari athugun skal ég þó greina við þetta tækifæri og svo á eftir svara síðari fsp. um það, hvort vænta megi till. frá ríkisstj. um að bæta aðstöðu þeirra nemenda, sem þurfa að búa utan heimila sinna meðan á námi stendur í skyldunámsskólum, gagnfræðaskólum og menntaskólum.

Upplýsingarnar um framlög ríkisins til barnaskóla, sem eru heimangönguskólar, eru þessar: Barnaskólar í kaupstöðum: Tala nemenda þar er 18 594, heildarkostnaður ríkisins er 182.3 millj. kr. eða kostnaður á nemanda 9 803 kr. Í barnaskólum annars staðar en í kaupstöðum, heimangönguskólum, eru 3 003 nemendur, heildarkostnaður er 33.3 millj. kr. og kostnaður á nemanda 11091 kr. Í barna- og unglingaskólum, þeim skólum, sem eru hvort tveggja í senn barna- og unglingaskólar, annars staðar en í kaupstöðum, eru 5 634 nemendur, heildarframlög ríkisins eru 77.4 millj. og kostnaður á nemanda 13 735 kr. Í gagnfræðastigsskólum annars staðar en í kaupstöðum eru 927 nemendur, kostnaður alls er 13.1 millj. kr. og kostnaður á nemanda 14128 kr. Og að síðustu er að geta gagnfræðastigsskóla í kaupstöðum. Þar eru nemendur 9 958, heildarkostnaður ríkisins er 140.6 millj. kr. og kostnaður á nemanda 14118 kr. Nemendafjöldi alls í heimangönguskólum er þannig 38116 nemendur og heildarkostnaður ríkisins 446.7 millj. kr. Hér vantar því miður meðalkostnaðinn, hefur af einhverjum ástæðum ekki þótt rétt að reikna hann út, af því að hann sýni ekki raunhæfa tölu. Sá, sem vill, getur reiknað hann út sjálfur, ef hann telur þá tölu hafa einhverja þýðingu. Heildarkostnaðurinn er 446.7 millj. kr., en tölfræðingarnir hafa ekki talið þá meðaltalstölu hafa raunhæfa þýðingu.

Þá kem ég að heimavistarskólum og eru fyrst barnaskólar. Í heimavistarbarnaskólum eru nemendur 727, kostnaður ríkisins er alls 14.5 millj. kr. og kostnaður á nemanda 20 059 kr. Barna- og unglingaskólar með heimavist: Tala nemenda er 1508, heildarkostnaður er 27.9 millj. kr. og kostnaður á nemanda 18 490 kr. Héraðsskólar: Þar er 831 nemandi, kostnaður ríkisins er 28.1 millj. og meðalkostnaður á nemanda 33 792 kr. Samtals í heimavistarskólum er nemendatalan 3 063, heildarkostnaður er 70.5 millj. kr., en af sömu ástæðu og áður er hér ekki reiknaður út meðalkostnaður á alla heimavistarskólana.

Í þessari upptalningu er þrem skólum sleppt, Laugaskóla vegna þess, að um hann gilda aðrar reglur en um aðra héraðsskóla, og enn fremur er gagnfræðaskólunum í Stykkishólmi og á Brúarlandi sleppt, þar sem þeir eru að hluta heimavistarskólar, og þess vegna ekki hægt að draga þar þá hreinu línu, sem hér er dregin á milli heimavistarskóla og heimangönguskála. En kostnaður við þessa þrjá skóla er 6.1 millj. kr., þannig að heildarkostnaður ríkisins til þeirra skóla, sem hér er um að ræða, er 523.3 millj. kr.

Þá er að taka menntaskólana. Þar er Menntaskólanum við Tjörnina sleppt vegna þess, að þar er um nýjan skóla að ræða, sem ekki er reynsla fengin á. Í Menntaskólanum í Reykjavík eru 1525 nemendur, kostnaður við hann er 42.7 millj. kr. og kostnaður á nemanda 27 993 kr. Í Menntaskólanum á Laugarvatni eru 160 nemendur, kostnaður er 5.9 millj. kr. og kostnaður á nemanda 36 725 kr. Í Menntaskólanum á Akureyri eru 550 nemendur, heildarkostnaður er 15.0 millj. kr. og kostnaður á nemanda 27 307 kr. Í menntaskólunum eru alls 2235 nemendur og heildarkostnaður ríkisins við rekstur menntaskólanna 64.6 millj. kr. Það veldur því, að heildarrekstrarkostnaður ríkisins við skóla, sem ég hef nefnt, er 586.9 millj. kr.

Það, sem ber að vekja athygli á í sambandi við þessar tölur, er, að kostnaður á nemanda er langlægstur í heimangöngubarnaskólum í kaupstöðum, þar er hann 9 803 kr. á nemanda. Í heimangönguskólunum er kostnaðurinn hæstur á gagnfræðastigsskóla utan kaupstaða, 14128 kr. Hæstur kostnaður á nemanda í barna- og unglingaskólum er í héraðsskólunum, þar sem kostnaðurinn er 33 792 kr. á nemanda. M.ö.o., bilið á milli lægsta nemandakostnaðar og hæsta nemandakostnaðar á barna- og unglingastiginu er á milli heimangöngubarnaskóla í kaupstöðum, sem eru með 9 800 kr. á nemanda, til héraðsskólanna í sveitum, þar sem hann er 33 800 kr. eða meira en þrefaldur, milli þrefaldur og fjórfaldur. Í heimavistarmenntaskóla í sveit er þó kostnaðurinn enn hærri. Þar er kostnaðurinn á nemanda tæp 37 þús. eða næstum 10 þús. kr. hærri en á menntaskóla í kaupstað, þ.e. menntaskóla í Reykjavík. Kostnaður á Akureyri, þó að að hluta sé heimavistarskóli, er nokkru lægri.

Um byggingarmálin er það að segja, að samkv. hinum nýju skólakostnaðarlögum greiðir ríkið 100% af áætluðum byggingarkostnaði heimavistarrýmis skyldunáms, ef tvö eða fleiri sveitarfélög sameinast um heimavistina, en 50% af áætluðum kostnaði kennslurýmis. Ef um hreinan heimavistarskóla er að ræða, verður kostnaðarþátttaka ríkissjóðs í allri framkvæmdinni yfirleitt um það bil 75–80% samkv. núgildandi lögum. Ef tekið er dæmi af 80 nemenda skóla og borinn saman stofnkostnaður heimangönguskóla annars vegar og heimavistarskóla hins vegar og miðað við byggingarvísitölu 118, þá mundi heimangönguskóli kosta ríkið um 16 millj. kr. og ríkið greiða helminginn af því eða um 8 millj. kr., sem er um 100 þús. kr. á nemanda. Heimavistarskóli mundi hins vegar kosta fyrir jafnmarga nemendur 42 millj. kr. og ríkið mundi greiða 31–34 millj. kr. eftir því, hvort miðað er við eldri eða nýrri ákvæðin. Um suma skóla, sem enn eru í byggingu, gilda gömlu ákvæðin. Þá mundi kostnaðurinn nema um 31 millj. kr., en samkv. nýrri ákvæðunum um 34 millj. kr. Framlög ríkisins til 80 manna heimavistarskóla eru því um 34 millj. kr. eða rúmar 400 þús. kr. á nemanda. Ef um heimangönguskóla er að ræða, er kostnaðurinn hins vegar í heild um 8 millj. kr. eða um 100 þús. kr. á nemanda. Það kostar því ríkið um það bil 24 millj. kr. meira að byggja 80 nemenda heimavistarskóla en að byggja 80 nemenda heimangönguskóla. Það kostar ríkið um það bil 300 þús. kr. umfram á nemanda að byggja 80 nemenda heimavistarskóla miðað við að byggja 80 nemenda heimangönguskóla. Reiknað hefur verið út af hagfræðingum, að sé miðað við 8% ársvexti, verði umframkostnaður ríkissjóðs á hvern nemanda um það bil 25 þús. kr. á ári, ef nemandinn stundar nám sitt í heimavistarskóla miðað við það, að hann stundi nám sitt í heimangönguskóla. M. ö. o., framlag ríkisins — stofnkostnaðarframlag ríkisins — til menntunar nemandans í heimavistarskólanum er á ári um það bil 25 þús. kr. á hvern nemanda í heimavistarskólanum miðað við það, að hann hefði getað stundað nám í heimangönguskóla.

Að síðustu hefur svo verið gerð athugun á því, hver tilkostnaður heimilanna sé vegna nemenda í heimavistarskólum. Það, sem ég hef sagt í þeim tölum fram að þessu, er það, hvað ríkið leggur þegar af mörkum í rekstrarkostnað annars vegar og í stofnkostnað hins vegar vegna þeirra nemenda, sem stunda nám í heimavistarskólum, umfram þá nemendur, sem stunda nám í heimangönguskólum. Það segir ekki alla söguna. Einnig þarf að taka tillit til þess viðbótarkostnaðar, sem það hefur í för með sér fyrir heimilin að hafa nemendur í heimavistarskóla umfram það að hafa þá í heimangönguskóla. Og það má að vissu leyti segja, að það sé mergur þess máls, sem við blasir. Nemendur á skyldufræðslustigi, sem búa í heimavist, greiða hráefniskostnað í fæði sínu.

Öll matreiðsla o.þ.h. er greidd af því opinbera, ríki og sveitarfélögum. Þessara kjara njóta einnig þeir skyldufræðslunemendur, sem enn eru í héraðsskólunum. Aðrir heimavistarnemendur greiða einnig vinnulaun vegna matreiðslunnar, en húsnæði auðvitað ekkert. Þessar upplýsingar liggja fyrir um fæðiskostnað nemenda, miðað við drengi í heimavist á þeim vetri, sem nú er nýbyrjaður: Kostnaður heimavistarnemenda í menntaskóla er talinn vera á bilinu 24–34 þús. kr., í héraðsskóla á bilinu 25–30 þús. kr., og í barna- og unglingaskóla frá 5 þús. og upp í 16 þús. kr. Í þessu sambandi er athugandi, að heimavistardagar nemenda í barna- og unglingaskólum eru afar mismunandi, frá því að vera 30 dagar fyrir yngstu börnin og allt að 108–190 dagar fyrir 2. bekk unglingastigs. Ég eyði ekki frekari tíma hins háa Alþ. í að skýra frá tölum um þetta efni, en ítreka, að fjölrituð skýrsla um þetta, þar sem allar upplýsingar eru gefnar, sem við höfum á reiðum höndum, mun berast alþm. í hendur innan skamms tíma.

Þá spurði hv. þm. um, hvort vænta mætti tillagna frá ríkisstj. um að bæta aðstöðu þeirra nemenda, sem þurfa að búa utan heimila sinna meðan á námi stendur. Það er í menntmrn. unnið að tillögugerð í sambandi við þetta vandamál, og mun hún áreiðanlega koma til kasta Alþ. áður en fjárl. verða afgreidd. Þessari tillögugerð er ekki fulllokið enn, þar eð svo stuttur tími er liðinn síðan þessari víðtæku athugun lauk, að endanlega hefur ekki tekizt að ljúka því verki. Ríkisstj. í heild hefur því ekki fjallað um þær hugmyndir, sem uppi eru, en hún mun gera það á næstunni og þá eflaust hafa samband eða samvinnu við hv. fjvn. um það, hvernig á þessum vanda skuli tekið. Það er mér þó óhætt að segja, að ýmsir sérfróðir menn, sem að þessum málum hafa vandlega unnið, eru, að ég held mér sé óhætt að segja, ekki þeirrar skoðunar, að rétt sé að taka á vandanum með svo einföldum hætti sem fram kom í ræðu hv. þm. og liggur að baki því frv., sem þegar hefur verið flutt í hv. Nd. Alþ. um málið, þ.e. að greiða ákveðna upphæð á nemanda. Frv. gerir ráð fyrir einni allsherjarupphæð á hvern nemanda, algerlega án tillits til þess hvernig á stendur. Hv. þm. nefndi í fsp. sinni tvær upphæðir. Þeir embættismenn; sem að þessu vinna, telja hér vera um flóknara vandamál en svo að ræða, að hægt sé að leysa málið þannig, að ein eða tvær upphæðir dugi ýmist á alla heimavistarnemendur eða á tvo hópa heimavistarnemenda. Það þurfi að semja um málið mun margbrotnari og flóknari reglur heldur en liggja að baki þessum einföldu hugmyndum. Þeir telja líka, að ekki sé heldur hægt að leysa málið með fullri sanngirni eða réttlæti upp á þann máta að miða jöfnun aðstöðumunarins eingöngu við það að greiða fæðiskostnað niður mun frekar en nú er gert, né heldur að greiða niður enn frekar en nú er gert aksturskostnað frá heimili til skóla. Það þurfi að taka tillit til margra atriða við reglur, sem settar kynnu að verða um þetta mál, en hafa þá sem grundvallarsjónarmið fjarlægðina frá heimilinu til skólans, en að engin ein viðmiðun í þessu muni geta dugað, heldur þurfi viðmiðanirnar að verða margar og reglurnar talsvert flóknar. En um það mun ríkisstj. fjalla, að ég vona innan skamms, og þá mun fjvn. að sjálfsögðu fá málið til meðferðar.