19.11.1969
Sameinað þing: 14. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 692 í D-deild Alþingistíðinda. (3579)

902. mál, skóla- og námskostnaður

Ingvar Gíslason:

Herra forseti. Hv. fyrirspyrjandi bíður rólegur eftir till. ríkisstj. í þessu máli, en ég verð að segja það um mig, að ég bíð dálítið spenntur eftir því, hverjar till. verða. En ég vil af þessu tilefni lýsa ánægju minni yfir þeim áhuga, sem virðist skyndilega vera vaknaður hjá hæstv. menntmrh. og raunar fleiri hv. stjórnarþm., á þessu mjög svo merkilega máli. Ég treysti mér nú ekki til þess að fara að ræða þessa skýrslu, sem hæstv. menntmrh. gaf, enda er hún raunar ekki að fullu fram komin, þar sem hann hefur heitið því að senda okkur fjölritaða skýrslu um þetta efni, og vil ég þakka það út af fyrir sig; því það er miklu aðgengilegra heldur en ef hann hefði farið að lesa hana hér í þinginu. En ég vil minna á það, að í mörg ár hefur þetta mál verið rætt hér á þinginu, m.a. af mér, og það fyrir næsta daufum eyrum lengst af. Þetta mál, að nauðsynlegt sé að jafna námsaðstöðu í landinu með þeim hætti að greiða af almannafé aukakostnað, sem nemendur á skyldunáms- og framhaldsskólastigum verða að taka á sig vegna skólagöngu sinnar, — um þetta efni hef ég ásamt fleiri framsóknarmönnum flutt þingmál ár eftir ár, og þessu hefur satt að segja verið mjög lítill gaumur gefinn fyrr en núna á allra síðustu mánuðum, og ber að þakka það. Í því máli, sem við höfum flutt um þetta, framsóknarmenn, í mörg ár, var beinlínis lagt til, að sú stefna yrði upp tekin, að slíkur kostnaður yrði greiddur, þ.e. kostnaðarauki heimilanna í dreifbýlinu yrði léttur. Þessi þáltill. okkar framsóknarmanna, sem hér var að velkjast í þinginu árum saman, var svo samþ. á síðasta þingi með talsverðum efnisbreytingum að vísu, en þó þannig, að við flutningsmenn töldum ekki ástæðu til annars en að vona, að þrátt fyrir allt mundi samþykkt tillögunnar verða málefninu sjálfu til framdráttar, þó að við hefðum heldur kosið, að upphaflegt orðalag og efni hefði haldið sér. Ég vil því benda á, að þær upplýsingar, sem hæstv. menntmrh. gaf hér áðan, eru árangur af þessari baráttu okkar, viðleitni okkar framsóknarmanna í þessu máli um margra ára skeið. Það má kannske segja, að árangurinn sé ekki mikill, en ég tel það þó til mikilvægs árangurs af okkar viðleitni að afla þessu máli fylgis, að hæstv. menntmrh. marglýsir yfir því, að þetta sé stórmál og það sé fullkomið réttlætismál að gera eitthvað í þessu. Ég vil þá líka minna á það einmitt í tilefni af því, sem hæstv. ráðh, sagði um framkvæmdir í þessu máli, að það má ekki láta hér staðar numið. Það er sem sagt komið að því, að þessu máli verður að fylgja eftir. Og það er þannig komið, að allir, sem áhuga hafa á þessu máli og skilja nauðsyn þess, sameinist um að finna því skynsamlegt form. Og einmitt vegna þess að menn hugleiða, hversu mikið fjárhagsmál þetta sé, þá vil ég ekki að neinn okkar sé að blekkja sig á því, að þetta sé fjárhagslega auðvelt eða það sé fjárhagslega lítill baggi fyrir ríkissjóð, ef út í þetta verður farið. Því þessu er alls ekki þannig farið. Ef á að fara út í þetta af einhverjum myndarskap, þá verður ekki komizt hjá því að verja til þess verulegu fé. En í það má auðvitað ekki horfa. Ég held því, að við ættum að hefjast handa í þeim anda, sem till. okkar framsóknarmanna gerði ráð fyrir á sínum tíma og eins og við höfum sett þetta mál upp, þannig að börnin og unglingarnir úr sveitinni geti notið sömu fjárhagslegrar aðstöðu í sambandi við skólanám og börnin, sem eiga skemmra að sækja skóla og geta búið í foreldrahúsum á skólatímanum. Mergurinn málsins, eins og hæstv. ráðh. sagði hér áðan, er auðvitað tilkostnaður heimilanna, hitt skiptir miklu minna máli í þessu sambandi, hvað það er mikið, sem ríkið þarf að leggja til skólanna, hversu út kemur sá hlutfallsreikningur, sem hann var hér að gefa upplýsingar um. En sem sagt, ég held að við verðum að finna leið út úr þessu, til þess að jafna þennan aðstöðumun, sem er á skólagöngunni, því að slíkt er bæði sanngirnismál og fullkomið réttlætismál.