19.11.1969
Sameinað þing: 14. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 693 í D-deild Alþingistíðinda. (3580)

902. mál, skóla- og námskostnaður

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Víst eru þær tölur fróðlegar, sem hæstv. ráðh. lagði hér fram um kostnað ríkisins vegna hinna ýmsu tegunda skóla, en þær snerta þó að ákaflega litlu leyti það vandamál, sem um er fjallað í frv. því, sem ég flutti hér í byrjun þings, og einnig að mjög litlu leyti það vandamál heimilanna, sem um er fjallað í þeirri fsp., sem hér er til umr. Ég hefði því vænzt þess, að meginhluti ræðu hæstv. ráðh. fjallaði um vandamál heimilanna fremur en um skýrslugerð af hendi ríkisins um tilkostnað þess varðandi þetta mál, því að hið tilfinnanlega vandamál er vandamál heimilanna í þessu sambandi, en það fannst mér afskaplega lítið koma við tilfinningar hæstv. ráðh. Hér er um svo alvarleg vandamál að ræða, að hægt er að fullyrða, að ef ekki er úr bætt, þá verður menntun á Íslandi sérréttindi efnafólks, og að nokkru leyti komið undir því, hvar fólkið býr í landinu. Þetta er það, sem ég held að hæstv. ráðh. ætti að beina athygli embættismannanna, sem um þetta fjalla, meira að, heldur en að grafa upp tölur og skýrslur úr bókfærslu ríkisins. Málið er ekki um það.

Embættismenn ríkisins, sagði hæstv. ráðh., þeir álíta, að þetta mál sé mjög flókið. Jú, það er náttúrlega hægt að gera öll mál flókin, en það er ekki leiðin til lausnar á þeim. Það væri miklu nær að reyna að finna einhverja einfalda lausn, sem kæmi þó til móts við þennan vanda fólksins og létti þær ofurþungu byrðar, sem eru að sliga mörg heimili í landinu. Hæstv. ráðh. sagði, að embættismennirnir segðu, að fjarlægðin milli heimilis og skóla væri grundvallaratriði þessa máls, ég álít það hégómahlið þessa máls. Ég held, að ákaflega litlu varði, hvort það eru 5 km eða 500 km frá heimili til skólans. Kostnaðurinn við að ráðstafa barni í heimavist fer ekkert eftir vegalengdinni milli heimilisins og skólans. Og þetta sýnir betur en allt annað, að embættismennirnir hafa ekki litið mjög á hina alvarlegu hlið þessa máls. Þeir eru einhvers staðar á allt öðrum sviðum. Þeir eru ekki heldur að fjalla um fjárhagslega vandamálið, sem blasir við heimilunum. Það er bersýnilegt. Þar varðar fjarlægðin milli heimilis og skóla ákaflega litlu. En þess sakna ég mest; að hæstv. ráðh. skuli ekki gefa okkur neina innsýn í það, hvað embættismennirnir, sem eru að athuga þetta mál, segja um framkvæmanlega úrlausn á fjárhagslegu, efnahagslegu vandamáli heimilanna varðandi þetta mál. Það þyrftum við að fá að vita eitthvað um. Væntanlega er málið ekki svo flókið í höndum embættismannanna, að þeir eygi þar enga lausn. Þá er illa farið.

Ég spyr því hæstv. ráðh., hverjar séu hugmyndir embættismannanna, sem mér skilst að um lengri tíma hafi verið að athuga þetta vandamál, hverjar séu þeirra hugmyndir um mögulega lausn þess. Ég var búinn að velta því mikið fyrir mér, hvort hægt væri að leysa þetta með þátttöku ríkisins í hlutfallslegum tilkostnaði hvers heimilis. Ég komst að þeirri niðurstöðu, að í mörgum tilfellum mundi verða erfitt fyrir heimilin að sanna, hver hinn raunverulegi tilkostnaður væri, einkanlega þegar honum hefur verið ráðstafað á annan veg en í heimavist til opinberra skóla, og gæti þá orðið handahófskennd framkvæmd, ef ósannaðar fjárútlátakröfur væru þarna lagðar til grundvallar þátttöku ríkisins í tilkostnaðinum. Málið er tiltölulega auðvelt, ef miðað er við kostnaðinn, t.d. í fyrsta lagi meðaltalskostnaðinn á barnaskóla- og skyldunámsstiginu. í annan stað á gagnfræðastiginu, varðandi heimavistarkostnað í skólum gagnfræðastigsins, og í þriðja lagi meðaltalsheimavistarkostnað í skólum menntaskólastigsins. Það voru nokkrir hv. þm., sem fóru inn á það, að það hefði átt að taka háskólastigið með. Ég gerði það ekki í mínu frv., af því að sérstök lána- og styrktarkerfi eru í gangi varðandi námsaðstöðu og fyrirgreiðslu þeirra, sem stunda háskólanámið. Einhverjir höfðu líka bent á það, að æskilegt hefði verið að taka margs konar sérskóla inn í frv., t.d. iðnskólanámið, en þar er um fyrirgreiðslu að ræða eða þátttöku í kostnaði við námið á mjög mismunandi hátt, svo að ég treysti mér nú ekki til þess. Þeir geta gert það, sem vilja gera málið flókið, það eru víst nógu margir, sem vilja það. Sumir nemar í iðngreinum eru á fullum verkamannalaunum við sitt nám, eða jafngildi þess fyllilega, þannig að ég tók það ekki með.

Ég held því, að það sé hægt líka, hæstv. ráðh., að gera málið nokkuð einfalt og ná þó réttlátri lausn að verulegu leyti, ef menn líta á byrði heimilanna, sem í mörgum tilfellum er ekki margir tugir þús., heldur á annað hundrað þús. kr. á ári. Heimili, sem hafa 3–4 börn á barnafræðslu-, unglingaskólastigi eða menntaskólastigi, — þau heimili eru mörg — verða fyrir fjárútlátum allt upp í á annað hundrað þús. kr. á ári og ef um er að ræða að fylgja börnunum eftir í 7 ára skyldunámi og síðan framhaldsskólanáminu, þá hefur þarna verið um slík útgjöld að ræða yfir áratug. Þetta er það alvarlega við málið, sem getur stöðvað efnismenn á námsbraut sinni, og dugir þá lítið að segja, að tryggja þurfi ungu fólki möguleika til að mennta sig eins og hæfileikar standi til, eins og hugur og hæfileikar standi til, vil ég nú segja, en þar verður úr að bæta, ef sú hugsjón á að verða að veruleika.