19.11.1969
Sameinað þing: 14. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 701 í D-deild Alþingistíðinda. (3584)

902. mál, skóla- og námskostnaður

Sigurvin Einarsson:

Herra forseti. Ég lagði tvær spurningar fyrir hæstv. ráðh. Önnur var sú, hvort hefði verið rannsakað, hver væri mismunur á kostnaði þeirra nemenda, sem þyrftu að dvelja fjarri heimilum sínum, og hinna, sem gætu sótt skólann að heiman. Hann byrjaði á að halda fyrirlestur um heimavistarskóla, sem byggðir eru af mörgum sveitarfélögum saman, en hins vegar um þá, sem eitt sveitarfélag byggir, og lýsti þeirri stefnu, sem ríkisstj. hefur fylgt og er nú uppi í þessum málum. Ég veit ekki til, að það sé nokkur ágreiningur hér á hæstv. Alþ. um þessa stefnu. Það kom fram í skólakostnaðarlögunum, þegar þau voru afgr. fyrir fáum árum, að menn voru allir sammála um að styðja að því, áð byggðir yrðu stórir heimavistarskólar fyrir nokkur sveitafélög, og ég sá ekki nokkurt erindi fyrir þetta ræðuhald hérna, það kemur ekkert þessu máli við. En það, sem ég var að spyrja um, það var um þennan mismun á skólakostnaði, og hvert er nú svarið, sem ég fæ? Það er það, að ekki sé hægt að koma með neitt eitt svar. Það sé ekki hægt að koma með neina eina tölu. Ég var ekkert að biðja um neina eina tölu. Ég var að spyrja, hvort þetta hefði verið rannsakað, hver munur er á þessum kostnaði, því að þetta er aðalvandamál heimilanna, en það lítur út fyrir, a.m.k. enn, að þetta hafi ekki verið athugað. Auðvitað er ekki alls staðar alveg jafndýrt að dveljast við nám. Það er dýrara þar, sem menn hafa ekki heimavist. Það er dýrara í einum kaupstað en öðrum. Á þá ekkert að rannsaka það, af hverju er ekki alls staðar sama verð, af hverju er ekki alls staðar sami kostnaðurinn? Á að sleppa málinu þess vegna?

Hin spurningin var um það, hvort fram kæmi í þessari skýrslu, hversu margir þeir nemendur eru í landinu, sem þurfa að dvelja við nám annars staðar en heima hjá sér. Ekkert svar. Það hefur sennilega þá alls ekkert verið athugað. Hvernig á þá að gera tillögur hér á hæstv. Alþ. um að leysa úr þessum vanda, þegar hvorugt þetta liggur fyrir? Nú vil ég minna hæstv. ráðh. á það, að í fyrravetur skýrði ég frá athugun, sem Aðalsteinn Eiríksson, fjármálaeftirlitsmaður skóla, framkvæmdi eftir minni beiðni, sem var að vísu skyndiathugun, því að hann hafði skamman tíma til þess. Hann gat gert þessa athugun. á fáum dögum. Ekki með því að koma með eitthvert eitt svar, eða eitthvert meðaltalssvar, eins og hæstv. ráðh. gat um. Hann nefndi þó nokkur dæmi um, hver þessi mismunur væri, og ég greindi frá þessu öllu saman hér í ræðu á Alþ. Ég man eftir, að þessi kostnaður var allt frá 23 þús. kr. yfir skólatímann og upp í 52 þús., eftir því hvar á landinu það var og hvaða skóla var um að ræða. En hæstv. ráðh. telur þetta svo flókið, að það sé ómögulegt að athuga þetta. Ekki veit ég, á hverju verða svo byggðar till. þær, sem hæstv. ráðh. ætlar að flytja í þessu máli um það leyti, sem fjárl. verða afgreidd.