19.11.1969
Sameinað þing: 14. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 706 í D-deild Alþingistíðinda. (3589)

902. mál, skóla- og námskostnaður

Kristján Ingólfsson:

Herra forseti. Það er búið að gera þetta mál hér á þingfundinum í dag öllu flóknara en ég held, að þyrfti að hafa orðið. Það hafa komið fram tvö meginsjónarmið um stuðning við nemendur. Annars vegar er það sjónarmið, sem miðar að því að jafna möguleika þeirra til náms eftir búsetu í landinu, og hins vegar kom fram hjá hv. síðasta ræðumanni, 2. landsk., hið stéttarlega sjónarmið. Það er alveg víst mál, að báðir þessir hópar, sem hér hafa verið tilnefndir, eiga við örðugleika að etja og það er líka öruggt mál, að þjóðfélagið fer á mis við, að unnið sé úr mörgum góðum bútnum vegna þess, hvernig hin þjóðfélagslega aðstaða á efnahagssviðinu er. Það er að sjálfsögðu rétt, formsins vegna a.m.k., að gæta allrar kurteisi og þakka hæstv. menntmrh. fyrir margar þær upplýsingar, sem hér hafa komið fram, en það verður þó ekki dul yfir það dregin, að þær hafa á margan hátt gengið allmjög fram hjá þeirri meginspurningu, sem hv. fyrirspyrjandi beindi til hans. Hann hefur farið nokkuð mikið út í það að ræða um það, að úti á landsbyggðinni hafi verið tekin stefna, sem Alþ. áleit á sínum tíma og ég hygg, að landsmenn flestir álíti, að hafi verið jákvæð, að farið yrði út í byggingu stórra heimavistarskóla. En úr því að hæstv. menntmrh. hefur gert þessi skólakostnaðarlög að svo víðtæku umræðuefni á annað borð sem raun ber vitni um, þá væri e.t.v. hægt að fá hjá honum upplýsingar um það, hvernig á því stendur, úr því að skólakostnaðarlög eru hér til umr., að ekki er gert upp við þau sveitarfélög, sem reka heimavistarskóla úti um landið eins og þó skólakostnaðarlögin gera ráð fyrir. Það er ekkert launungarmál, að reikningshaldarar ýmissa skóla úti um land, bæði heimavistarskóla og heimangönguskóla, hafa orðið að elta ólar við menntmrn. allt þetta fyrsta ár, sem skólakostnaðarlögin eru framkvæmd, til þess að reyna að fá þann stuðning úr ríkissjóði, sem gert er þó ráð fyrir, að greiddur sé jafnvel mánaðarlega. Og þau svör, sem þeir hafa fengið hjá embættismönnum rn., hafa m.a. verið á þann veg, að því miður væri ekki til mannafli í rn. til þess að vinna þetta. Mér er spurn, hvort sveitarfélög og þeir, sem að skóla standa heima í héraði, eigi að verða fyrir barðinn á því, að ekki sé til mannafli í rn. suður í Reykjavík til þess að yfirfara skýrslur, sem gerðar hafa verið og sendar að heiman á lögákveðnum tíma og verða þar af leiðandi að velta kostnaðinum yfir á sjálf sveitarfélögin og hafa af því mikið vaxtatap og annað því um líkt. Ég held, að það sé ekki samkv. vilja hæstv. menntmrh., hans persónulega vilja. Ég vil ekki trúa því fyrr en í síðustu lög. En ég álít, að þetta mál snerti sveitarfélögin og hér verði að ráða bót á. Þetta er hluti af því ranglæti, sem byggðarlögin víða um land eiga við að búa, og ég vildi gjarnan fá svar við þeirri spurningu, sem ég ætlaði reyndar að gera hér í annarri fsp. En hér er komið inn á að ræða þetta mál á breiðari grundvelli og í rauninni búið að ræða hina ýmsu þætti skólakostnaðarlaganna hér í allan dag og það af hæstv. ráðh. sjálfum, þannig að það er ekki úrskeiðis, þó að þessi spurning sé borin fram.