12.11.1969
Sameinað þing: 12. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 718 í D-deild Alþingistíðinda. (3617)

946. mál, ráðstafanir í geðverndarmálum

Dómsmrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Það er ástæða fyrir mig, herra forseti, til þess að gera aths. við það, sem hér hefur verið haldið fram af hv. 6. þm. Reykv. Bæði hann og fleiri þm. lýstu því yfir og það stendur í þskj. frá þeim, að þeir hefðu ekki haft hugmynd um, hvernig ástandið væri, hvorki í kvensjúkdómadeildinni né annars staðar, og þeir hefðu hrokkið við, er þeir komust að því. En ég sagði ekki það, sem hv. þm. sagði að ég hefði sagt, að ég hefði ekki haft hugmynd um, hvernig ástandið væri á kvensjúkdómadeildinni. Hins vegar sagði ég frá því, að það hefði fyrst borizt vitneskja til heilbrigðisstjórnarinnar frá læknum geislalækningadeildarinnar á Landsspítalanum á s.l. sumri og mér hefði borizt vitneskja um það frá þeim sömu læknum, kvenmönnum, hversu alvarlegt ástandið væri í sambandi við legkrabbasjúkdóma íslenzkra kvenna. Það er skjalfest, að vitneskja liggur ekki fyrir fyrr en á s.l. sumri frá þeim læknum, sem um þessi mál eiga að fjalla, og hún er sennilega til komin vegna árangurs af þeirri krabbameinsleit, sem hér hefur átt sér stað á undanförnum árum og leiddi í ljós alvarlegra ástand en menn gerðu ráð fyrir. Þessi er sannleikurinn í þessu máli, og þetta þurfti ekki að fara að misherma hér nú, því að svo mikið var um það talað í vor, og það var það hliðarmál, sem þar kom inn í, að koma upp með hraða geislalækningatækinu, kóbalttækinu, sem svo mikið hefur verið talað um, til þess að bregðast við þessu viðhorfi strax, og það var þess vegna á s.l. hausti, sem ég vildi taka þá stefnu að byggja strax bráðabirgðahúsnæði til þess að koma þessum tækjum í notkun í haust, og þeirri stefnu hefur verið fylgt. Ég veit, að margir læknar vildu fara allt aðra leið. En þetta mál er annað en ástandið á kvensjúkdómadeildinni. Ástandið á kvensjúkdómadeildinni var þó ekki alvarlegra en það, að þegar læknir kvensjúkdómadeildarinnar og fæðingardeildarinnar og læknir skurðlækningadeildarinnar á Landsspítalanum töluðu saman og þegar óskað var eftir því af hálfu kvensjúkdómadeildarinnar, að læknir skurðlækningadeildarinnar veitti 5–6 rúm í sinni deild til þess að taka við alvarlegustu tilfellunum, þá var eytt þeim biðlista, sem hér hafði verið gerður að umtalsefni. Og ég hef sagt það og segi það enn, að þessar aðgerðir gátu átt sér stað, án þess að tilstuðlan ráðh. þyrfti til að koma, eingöngu með beinni og meiri samvinnu læknanna sjálfra á spítalanum. Þetta er efni málsins og óþarfi að rangherma neitt það, sem fram fór hér á s.l. vori þessu máli viðkomandi.