26.11.1969
Sameinað þing: 16. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 726 í D-deild Alþingistíðinda. (3630)

903. mál, raforkumál

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Hv. 1. fyrirspyrjandi fylgdi þessum fsp. úr hlaði með nokkrum orðum, talaði um rafvæðingu fyrir kosningar og eftir kosningar, stórt átak 1953 og hraðann í rafvæðingu þá, en gaf í skyn, að nú væri önnur tíðin, nú væri þetta allt saman hægfara og framkvæmdamáttur þess fjár, sem veitt er til þessara framkvæmda, væri nú harla lítill. Í tilefni af þessu held ég, að ég verði að gera nokkurn samanburð, áður en ég lýk máli mínu í sambandi við þessi svör, á því, sem framkvæmt hefur verið í seinni tíð og áður.

Ég vil þá snúa mér að 1. fsp: Hún hljóðar svo: Hversu há fjárhæð samtals hefur verið tekin að láni vegna dreifingar raforku um sveitir gegn loforði ríkisstj. um endurgreiðslu?

Því er til að svara, að vaxtalaus framkvæmdalán úr héraði til veitulagna í sveitum hafa á undanförnum árum verið sem hér segir: Arið 1965 3.4 millj., árið 1966 5.5 millj., árið 1967 9.95 millj., árið 1968 8.69 millj., árið 1969 10.8 millj., eða samtals 38.34 millj. Þá er eðlilegt að gera sér grein fyrir því, hvað er ógreitt af þessum lánum, en það eru ógreiddar eftirstöðvar framkvæmdalána, 18.32 millj.

Þá er spurt: Hve há fjárhæð gengur árlega næstu árin til endurgreiðslu þessara lána? Því er til að svara, að árið 1970 verða endurgreiddar 7.20 millj., árið 1971 3.58 millj., árið 1972 5.91 millj., árið 1973 ekkert, árið 1974 1.63 millj.

Þá er þriðja spurning: Hversu mörg býli hafa verið tengd samveitum fyrir lánsfé og í hvaða hreppum? Ekki er unnt að svara þessu nákvæmlega. Það liggur ekki ljóst fyrir, hvað mörg býli alls hafa verið rafvædd fyrir framkvæmdalán úr héraði, því að þessi lán hafa oft aðeins verið hluti af heildarkostnaði veitulagningar. Ef hins vegar er miðað við, að meðalkostnaður rafvæðingar býla frá þeim veitum, sem lánin gengu til á tímabilinu 1965–1969, hafi verið 200–210 þús. kr. á býli, þá hefur væntanlega verið lánað til sem svarar 180–190 býla, eða m.ö.o. 180–190 býli verið rafvædd fyrir þessi framkvæmdalán.

Þá er fjórði liður fsp.: Hefur mönnum verið gert að greiða úr eigin vasa kostnað af dreifilínum umfram hin föstu heimtaugagjöld? Ef svo er, hvaða reglur gilda um þær greiðslur? Hafi rafmagnsveitur verið samþykktar af framkvæmdaáætlun um veitulagnir í sveitum, sem mælzt hafa lengri en 1.5 km háspennulína á býli að meðaltali, er þeim bændum, sem þessar veitur fá, gert að greiða sem óafturkræft framlag áætlaðan kostnað línunnar, sem er fram yfir 1.5 km á bæ að meðaltali. Það er ákaflega lítið, sem að þessu hefur verið gert, og það er ekki rétt, sem hv. fyrirspyrjandi gaf í skyn áðan, að þetta væri gert án þess að það væri samþ. í orkuráði. Síðustu árin hefur raunverulega ekkert verið gert við dreifingu rafmagnsins nema það hafi verið samþ. í orkuráði. En þetta kom þó fyrir áður.

Þá er það 5. liður: Hvað er eftir að tengja mörg þeirra býla, sem samþ. hafa verið í orkuráði, og í hvaða hreppum eru þau? Orkuráð hefur fyrir sitt leyti samþ., að lagt verði til allra þeirra býla á landinu, sem talið er að séu með allt að 1.5 km línulengd milli sín að meðaltali. Lauslega áætlað teljast þau býli, sem eru enn órafvædd með þessa línulengd á milli bæja að meðaltali, um 200 talsins. Stofnkostnaður við veitulögn til þeirra miðað við verðlag í byrjun þessa árs er áætlaður 45 millj. 873 þús. kr.

Þá er það 6. liður: Hafa býli verið tengd samveitu, áður en þau voru samþ. í orkuráði? Ef svo er, hversu mörg eru þau býli, í hvaða hreppum og eftir hvaða reglum eru þau valin? Og svarið við þessu er á þá leið, að það hefur komið fyrir í tíð allra þeirra ráðh., sem sveitarrafvæðingin hefur heyrt undir í seinni tíð, að lagðar hafa verið rafmagnsveitur til býla samkvæmt boði ráðh., án þess að fyrir lægi samþykki raforkuráðs, síðar orkuráðs fyrir þeim veitum. Venjan hefur þó verið sú, að leggja málið fyrir ráðið til staðfestingar á næsta fundi þess. Jafnan er hér um að ræða smærri veitulagningu til einstakra býla. En eins og ég sagði áðan, þá hefur í rauninni ekkert farið fram þannig nú í seinni tíð.

Þá er það 7. liður fsp.: Hversu miklu fé hyggst ríkisstj. verja til dreifingar raforku um sveitir næstu tvö árin: a) til endurgreiðslu lána, b) til framkvæmda? Í fjárlagafrv., sem nú liggur fyrir Alþ., er gert ráð fyrir að verja 27.1 millj. kr. til rafvæðingar sveitanna árið 1970 og er það 5 millj. kr. hærri upphæð en varið var í þessu skyni á fjárlögum árið 1969. En við þetta má bæta heimtaugargjöldum, 21/2–3 millj. kr., og samtals eru þetta þá 30 millj. kr. Til endurgreiðslu á framkvæmdalánum úr héraði er, eins og áður segir, gert ráð fyrir að endurgreiða á næsta ári 7.2 millj. kr., og verða þá eftir til nýrra veitulagna á árinu, ef miðað er við fjárlagafrv., um 23 millj. kr. En á næsta ári má einnig gera ráð fyrir lánum úr héraði, kannske 6–7 millj. eins og undanfarið, og væri þá framkvæmdaféð óbreytt upphæðin, sem er í frv., um 30 millj. kr.

8. liður fsp.: Hvenær má vænta heildaráætlunar um rafvæðingu þeirrar byggðar, sem enn hefur eigi verið tengd samveitum? Því er til að svara, að gerðar hafa verið yfirlitsáætlanir um rafvæðingu sveitanna: Í fyrsta lagi áætlun, sem nær til býla með allt að 1.5 km línulengd á bæ að meðaltali og vikið var að hér að framan. Í öðru lagi áætlun, er nær til býla með 1.5–2 km meðallínulengd á bæ, og liggur nokkuð ljóst fyrir, hvernig það kemur út. Það eru um 270 býli, sem eru með vegalengdina 1.5–2 km, og það eru, eins og áðan var minnzt á, nær 200 býli, sem eru órafvædd og hafa vegalengdina 1–1.5 km.

Næst er 9. liður fsp.: Hvað hyggst ríkisstj. gera til þess að greiða fyrir öflun raforku þeim til handa, er endanlega yrðu utan orkuveitusvæða? Það hefur verið gert ýmislegt til þess að greiða úr því. Samkvæmt orkulögunum er gert ráð fyrir, að bændur, sem fá ekki rafmagn í náinni framtíð frá almenningsveitum, fái veitt lán úr Orkusjóði til einkarafstöðva, vatnsaflsstöðva og mótorrafstöðva. Til lánveitinga af þessu tagi hefur verið varið á undanförnum árum talsverðu fé, t.d. árið 1964 3 millj. kr., árið 1965 4 millj., árið 1966 10.2 millj., árið 1967 4.5 millj. og árið 1968 4.9 millj. Hefur bændum yfirleitt ekki verið neitað um þessi lán, þegar þeir hafa sótt eftir þeim, hvort sem er til vatnsaflsstöðva eða mótorrafstöðva. Venjulega eru þessar dísilstöðvar, sem bændur kaupa, 6 kw. og kosta nú um 100 þús. kr., en lánin eru um 88 þús. kr. til 10 ára með 6% vöxtum. Það er orðið sjaldgæft, að bændur komi upp einkavatnsaflsstöðvum, vegna þess að það lítur út fyrir, að búið sé að nota þá aðstöðu, sem fyrir er, að mestu leyti, en fjöldi bænda sækir árlega um lán til dísilstöðva. Það eru bændur, sem reikna með að þurfa að bíða nokkuð eftir því að komast í samveitukerfið, eða þeir, sem reikna alls ekki með því, að það verði í náinni framtíð.

Það er rétt að geta þess, hve margir hafa fengið rafmagn frá almenningsveitum á ári núna undanfarið, t.d. frá árinu 1958, ef við tökum 10 ár — við höfum ekki enn þá yfirlit yfir árið 1969 — árið 1958 eru það 148 býli, sem fá rafmagn frá samveitum, árið 1959 127 býli, árið 1960 215 býli, árið 1961 137 býli, árið 1962 188 býli, árið 1963 259 býli, árið 1964 196 býli, árið 1965 197 býli, árið 1966 215 býli, árið 1967 178 býli og árið 1968 119 býli. Það var rétt, sem hv. fyrirspyrjandi sagði áðan, að býlafjöldinn væri kannske ekki það rétta mark í sambandi við hinar raunverulegu framkvæmdir. Síðan farið var að leggja rafmagn að bæjum með vegarlengdinni 1–1.5 km, en það eru ein 6–7 ár síðan það var, þá var vitanlega eðlilegt, að býlin yrðu færri en áður, a.m.k. fyrir sama fjármagn. En það ber nú ekki mikið á því. Þess vegna er ekki hægt í dag að tala um það, að framkvæmdahraðinn hafi verið minni í seinni tíð en hann var t.d. fyrir 12–15 árum. Framkvæmdahraðinn hefur ekki verið minni. Það hafa alveg jafnmörg býli fengið rafmagn á hverju ári og þá og fleiri býli. Til staðfestingar því vil ég aðeins segja það, að ef við tökum km-fjöldann, sem hefur verið lagður í háspennulínum, frá því að byrjað var að veita rafmagni um landið, þá er það náttúrlega drýgsti og sannasti mælikvarðinn á framkvæmdahraðann. Árið 1947 var fyrst farið að vinna eftir orkulögum, raforkulögum eins og þau þá hétu, þá var aðeins 5 km háspennulína til dreifingar. Árið 1948 voru það 43 km, og ef við tökum 10 ár, 1949–1958, þá er vegalengdin á þessum 10 árum 1565 km. Ef við tökum hins vegar árin 1959–1968, næstu 10 ár, — og ég vil biðja hv. fyrirspyrjanda að hlusta á þennan samanburð, — ef við tökum áratuginn 1959–1968, þá hafa þessi 10 ár verið lagðar háspennulínur 2297 km að lengd til dreifingar á rafmagni. En á hinum áratugnum, — og ég ætla að biðja hv. fyrirspyrjanda að hlusta á það líka, — 1949–1958 eru það 1565 km. — (Gripið fram í.) Já, það eru 1565 km í háspennulínum á árunum 1949–1958, það eru 10 ár, og ef við tökum aftur 10 ár, 1959–1968, þá eru það 2297 km. Ef við tökum svo býlafjöldann og berum þetta saman, þá er það þannig, að býli eru talin í landinu hjá orkumálaskrifstofunni 4824, og býli, sem hafa fengið rafmagn frá samveitum í lok árs 1968, eru þá 3429, en býli með dísilstöðvar voru þá 948. Ég var búinn að biðja Pál Hafstað um að senda mér samanburðinn á býlunum líka, sem höfðu verið tengd á þessum áratugum, og hann hefur þann samanburð, en því miður hefur hann ekki komizt í mínar hendur, en sá samanburður var einnig hagstæður seinna tímabilið. Að sjálfsögðu fer ég ekki með neinar tölur, úr því að þær eru ekki hérna í mínum plöggum, það hefur einhvern veginn farizt fyrir hjá Páli að koma þessu til mín.

En þegar við tölum um það, sem við erum allir sammála um, að það eigi að rafvæða landið og það sé erfitt fyrir alla að vera án rafmagns, þá er gott að gera sér grein fyrir því, hvað það eru mörg býli í landinu, sem hafa ekki rafmagn. Talið er, að um 400 býli séu ekki á framkvæmda- eða lánaskrá hjá Rafmagnsveitum ríkisins, en það er vitað, að talsvert af þessum býlum hefur samt sem áður rafmagn. Þau hafa dísilstöðvar, sem ekki hefur verið tekið lán út á, þau hafa keypt notaðar stöðvar af öðrum, sem ekki hafa komizt á skrá, þannig að gizkað er á, að um 200 býli hafi ekkert rafmagn, kannske 300, við vitum það ekki nákvæmlega, og segja má, að það sé allt of mikið. Hitt getum við verið sammála um, að það er ekki stórt átak, ef þessir aðilar eru í miklu strjálbýli og ekkert útlit fyrir, að þeir fái rafmagn frá samveitum á næstunni, þá er það ekki stórt átak að gera þeim mögulegt að fá dísilstöðvar. Þeir eiga kost á að fá 88 þús. kr. lán til 10 ára með 6% vöxtum til þess að kaupa dísilvél, sem kostar 100 þús. kr., og það heimili, sem hefur góða dísilvél, er ekki rafmagnslaust. Það eru mikil viðbrigði að hafa rafmagn frá slíkri vél, miðað við það að vera rafmagnslaus, og því miður verður það svo nokkuð lengi hér í landi, að talsvert margir verða að sætta sig við dísilorkuna. Við höfum ekki enn ákveðið að tengja við samveitusvæði byggðarlög, þar sem bæir eru svo strjálir, að meira en 1.5–2 km eru milli bæja til jafnaðar. Vel má þó vera, að þegar lokið er við að láta þau býli fá línu frá samveitunum, þá verði vegalengdin ákveðin meiri, t.d. 2–2.5 km; en ákvörðun hefur ekki verið tekin um það enn.

Ég ætla, að þeim fsp., sem hér hafa verið bornar fram, hafi verið svarað og að fyrirspyrjendur hafi fengið, a.m.k. að nokkru, þær upplýsingar, sem þeir hafa óskað eftir. Að sjálfsögðu má segja, að þessi svör séu ekki tæmandi. Það má sjálfsagt einhverju við þau bæta og fá fleiri upplýsingar, t.d. um það, hvað tengd hafa verið mörg býli á ári allt frá byrjun, síðan byrjað var að rafvæða sveitirnar. Út af fyrir sig er það ekki aðalatriðið, heldur það, hvað hefur verið gert í heild og hvað mikið átak þarf að gera til þess að koma þessum málum öllum í það horf, sem við viljum hafa. En við getum sagt, að þegar fólkið í landinu hefur fengið rafmagn frá dísilstöðvum, sem nú eru orðnar gangvissar, þá sé það ekki rafmagnslaust, þó hitt þyki betra, að hafa tengingu frá vatnsaflsstöðvum.