26.11.1969
Sameinað þing: 16. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 736 í D-deild Alþingistíðinda. (3635)

903. mál, raforkumál

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Hv. 1. þm. Vestf. minntist á ferðalagið til Patreksfjarðar, sem var ánægjulegt fyrir okkur alla, að ég vona, og hann minntist líka á það, að hann hefði komið á minn fund ásamt öðrum Vestfjarðaþm. til þess að ræða um rafmagn á flugvöllinn á Sandodda. Ég man eftir komu þessara manna, og við ræddum um það, hvernig mætti lýsa völlinn upp, og töluðum um rafmagnslínu í því sambandi. Ég man vel, hvað okkur fór á milli. Aðalatriðið var það að fá ljós á völlinn og gera mögulegt, að flugvélar gætu setzt á völlinn og tekið sig upp, þótt komið væri myrkur. Þetta var kjarni málsins, en ekki það, hvernig ljósin væru fengin, hvort það væri með línu frá Patreksfirði eða með öðrum hætti. En nú er það svo, að þessu hefur verið bjargað í bili á mjög ódýran hátt með ljósum, sem eru nothæf, en náttúrlega ekki eins og bezt verður á kosið. Og vegna þess, að þetta hefur verið talið nothæft og vélar gætu lent við þessi ljós og tekið sig upp við þessi ljós, þá hefur verið látið þar við sitja um sinn. Náttúrlega þarf ekki orðum að því að eyða, hvers vegna það er. Það er vitanlega vegna þess, að fjármunir hafa verið takmarkaðir, eins og við vitum allir.

Um línuna á Barðaströnd, þar sem vegalengdin er 1.4 km á milli bæja, en Kleifaheiðin að auki, þá er það að segja, að raforkulögin hafa alltaf gert ráð fyrir því, að þær sveitir og þau byggðarlög, þar sem stytzt væri á milli bæja, sætu fyrir, og línan yfir Kleifaheiði hefur verið reiknuð með í þeim kostnaði, sem af því væri að rafvæða Barðaströndina. Nú nefnir hv. 1. þm. Vestf., að svona hafi þessu ekki verið varið með aðra heiði, kostnaðurinn við þá línu hafi ekki verið reiknaður með í rafvæðingu Reykhólasveitar og Barðastrandar, Austur-Barðastrandarsýslu. Þetta man ég nú ekki, og ég veit ekki nema sú byggð hefði þolað að taka þann kostnað, þannig að kostnaðurinn færi ekki fram úr því eðlilega, og vegna þess að ég hef ekki neinar tölur fyrir hendi um það, vil ég ekki fara nánar út í þá sálma. En það er alveg rétt, sem hv. 1. þm. Vestf. sagði áðan, að það er ekki mjög mikið um rafvæðingu dreifbýlisins á Vestfjörðum, en það er eingöngu vegna þess, að þar er mikið strjálbýli.

Hv. þm. minntist á Bæjarhreppinn. Ég get upplýst það, að sú lína er í byggingu. Það eru 17 notendur, sem eru í fyrsta áfanga í Bæjarhreppnum, og búið er að reisa staurana. Hv. þm. sagðist ekki vita, hvenær strengurinn kæmi, en það er alltaf venjan að láta það ekki taka meira en tvö ár að fullgera hverja línu. Það er oft, að byrjað er á því að flytja staurana og reisa staurana, en ég veit þess ekki dæmi, að ekki hafi verið haldið áfram árið eftir að fullgera línuna, og ég held, að hv. þm. geti alveg vonað það, að þessum fyrsta áfanga verði lokið á næsta ári og kannske verður enn prjónað við. Ég vil ekki fullyrða um það í dag.

Ég held, að ekki sé fleira, sem ég þarf að segja vegna ræðu hv. 1. þm. Vestf., en ég vil upplýsa það, að þegar talað er um, að á þessu ári verði væntanlega tengd aðeins 70 býli, þá hefur verið unnið að því á þessu ári að leggja línu til 84 býla að auki og 14 annarra notenda. Það er Prestbakkalínan, það er Skagalína í Austur-Húnavatnssýslu, það er Hofslína og Lýtingsstaðalína í Skagafirði, það er Síðu- og Landbrotslína í Vestur-Skaftafellssýslu og það er Búrfellslína í Svínadal í Austur-Húnavatnssýslu. Að þessum línum hefur verið unnið og það er hátt á sjöttu millj. kr., sem hefur verið varið til þessara lagninga. Þessum línum verður ekki lokið fyrr en á næsta ári, þannig að það er náttúrlega meira framkvæmt á þessu ári en það, sem er sagt með því, að talað er um að tengja aðeins 70 býli.

Hv. 5. þm. Austf. talaði um, að það þyrfti að rífa sig upp úr þeirri kyrrstöðu, sem þessi mál væru í núna. En ég vil ekki samþykkja, að við séum á neinum kyrrstöðutíma í rafvæðingarmálunum. Ég yrði hins vegar mjög glaður, ef við hefðum meira fjármagn til ráðstöfunar, svo að við gætum flýtt þessum málum enn þá meira en við gerum nú. En fjármagn til þessara framkvæmda hefur verið takmarkað eins og til annarra framkvæmda, sem við viljum hraða meira en gert hefur verið, og það er alveg rétt, sem hér hefur komið fram, að 200 býli eru eftir með vegalengdina 1–1.5 km á milli bæja, en þá má draga frá þessi 84 býli, sem verið er að vinna að á þessu ári, þannig að það eru í rauninni alls ekki eftir 200 býli. Það er búið að leggja inn í þessa áætlun, þannig að það eru ekki eftir alveg 200 býli, ef út í það er farið. Þess vegna má segja, að það er ekki heljarmikið átak, sem eftir er. En ég vil upplýsa það, þó að ég hafi fullyrt það hér áðan og ég sé sannfærður um það, að haldið verður áfram að leggja til býla, sem eru með 1.5–2 km vegalengd, að það hefur enn ekki verið formlega samþ. í orkuráði meira en 1–1.5 einfaldlega vegna þess, að ákveðið er að byrja ekki á þeim, sem hafa lengri vegalengd, fyrr en hitt er búið. En hitt er ég sannfærður um, að þegar þessu er lokið, 1–1.5 vegalengdinni, þá verður hitt tekið á eftir, og ég þarf þess vegna í rauninni ekkert að bera til baka. Það hefur einungis ekki verið formlega frá því gengið enn vegna þess, að ekki er að því komið, en hins vegar er áætlun um það gerð. Í sambandi við það, að hv. 5. þm. Austf. taldi, að ég hefði ekki nefnt, hvað það mundi kosta að ljúka við þessi 270 býli, sem eru með vegalengdina 1.5–2, þá mun það kosta um 90 millj. kr. samkv. áætlun. Það sýnir, að hér er ekki um neinar ógnvekjandi upphæðir að ræða og ekki er stórt átak eftir, en undirstrikar og sannar það, að á síðustu árum hefur verið unnið mikið að þessum málum, þegar litið er á, að ekki er meira eftir heldur en þetta.

Spurningin er: Höfum við peninga til þess að hraða þessu meira en við gerum? Það eru 27 millj. á fjárl. núna. Það er spurning, hvað fjvn. getur sagt um það eða hæstv. fjmrh., hvort hægt er að bæta á fjárl. verulegri upphæð í þessu skyni án þess að leggja á skatta. Fjvn. er að vinna að fjárl., og satt að segja veit ég ekki nákvæmlega, hvernig málum er farið á þessu stigi. Þessu hefur þó miðað anzi vel áfram. Hv. 1. þm. Austf. sagði hér áðan, að ekkert þýddi að vera að gera samanburð á því, sem nú er, og því, sem var. Ég er alveg samþykkur því, það er aukaatriði að vera að deila um þetta, en það var að gefnu tilefni, sem ég fór að nefna tölur. Það voru 158 býli, sem voru tengd 1958, og á þeim áratug, sem nú er að líða, hafa oftast verið miklu fleiri býli tengd á hverju ári, eitt árið hátt á þriðja hundrað, og þess vegna skulum við ekki vera neitt með ásakanir hvor í annars garð út af því, að ekki hafi verið talsvert að þessum málum unnið og stundum þó nokkuð vel. En þetta er eftir, sem áður er nefnt, og þá er alveg eðlilegt og jákvætt að ræða um, hvernig á að standa að því að ljúka því sem fyrst. Ég er til viðræðu um það.

Hv. 9. þm. Reykv. gerði hér fsp. Ég held, að ég fari með rétt mál, þegar ég segi, að um lán út á vatnsaflsstöðvar sé farið eftir lögum, sem heimila allt að 50%, en hámarkið hefur þó verið bundið við það, að ekki sé farið yfir 250 þús. á býli. Ég held, að alveg sé óhætt að segja, að við þetta hafi verið staðið og það hafi ekki verið fært niður með nýjum reglugerðum, það er öruggt, að svo er ekki. En því miður — ég segi því miður — þá er ekki víða hagstætt að koma upp einkavatnsaflsstöðvum. Allvíða er búið að nýta þá möguleika, sem eru hagstæðir, og óvíða eru hentugir bæjarlækir eftir, sem ekki hafa verið notaðir. En það er alveg óhætt að hafa það eftir, að lán út á vatnsaflsstöðvar eru fáanleg úr Orkusjóði með þessum hætti, sem ég nú segi.

Hv. 1. þm. Austf. var að tala um það, að það væri ekki sæmilegt að nota sér neyð annarra og láta einstaklinga leggja fram fé, sem þeir fengju ekki vexti af, í því skyni að hraða rafvæðingu heim til þeirra. Sannleikurinn er sá, að það eru sveitarfélögin, sem þarna hafa lagt fé fram, vegna þess að þau hafa viljað til þess vinna að hraða framkvæmdum, og ég sé alls ekki, að það sé verið að nota sér neyð annarra. Síðan ég kom á þing hefur það tíðkazt að bjóða fram vaxtalaus lán til þess að hraða vegaframkvæmdum. Ég man, að áður en ég kom í stjórn stóð ég í því fyrir mitt kjördæmi að bjóða fram fé til þess að hraða vegaframkvæmdum, og það fékkst samþ. að við þeim lánum væri tekið, sem við buðum, og ég minnist þess aldrei, að um það væri talað, að ríkisstj. væri að nota sér neyð okkar, af því að við buðum þetta fé fram. Við gerðum þetta af frjálsum vilja, til þess að fá veginn og samgöngurnar í betra horf. Og þannig er þetta með rafmagnið, að þeir, sem vilja til þess vinna að leggja fram féð og eru innan þessarar vegalengdar — það dugir ekki að bjóða féð, nema vera innan þessarar vegalengdar — eiga kost á að fá rafmagnið fyrr en annars hefði verið. Þetta hefur verið notað, og ég sé ekkert ósæmilegt við það, þó að ég geti tekið undir það, að æskilegast væri og eðlilegast, að nægilega mikið fé væri á fjárl. hverju sinni til þess að halda framkvæmdunum í því horfi, sem við helzt vildum óska. Ég minni á það, að ég sé ekki, að þetta sé ósæmilegra en að taka við vaxtalausum vegalánum, sem hefur verið gert í tíð núv. stjórnar og í tíð fyrrv. stjórnar einnig.