26.11.1969
Sameinað þing: 16. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 741 í D-deild Alþingistíðinda. (3637)

903. mál, raforkumál

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðh. fyrir það svar, sem hann veitti við fsp. minni. Þegar hann sagði, að engar reglur væru nú í gildi, sem drægju úr þeim heimildum, sem til eru í lögum um lánveitingar til vatnsaflsstöðva í sveitum, þá varð ég næsta glaður við, því að við það mætti nokkurn veginn una, og er þó lögð þung byrði á þá, sem þurfa að byggja vatnsaflsstöðvar á býli sínu til þess að leysa raforkumálið. En svo bætti ráðh. því við, að þó hefði verið sett sú regla, að ekki yrði veitt hærra lán en 250 þús. kr. á býli. Það er þá vatnsaflsrafstöð, sem kostar hálfa millj., sem fær lán samkvæmt hámarksákvæðum laganna. En fari svo, að vatnsaflsstöðin kosti eina millj., og það gerist í mörgum tilfellum, nema virkjunarskilyrðin séu því hagstæðari, þá er lánveitingin bundin við 25%, og það er ekki nægileg aðstoð til þess að leysa slíkt vandamál. Þessa takmörkun í lögunum þarf tvímælalaust að fella niður, þannig að menn geti átt þess von, að þegar verið er að raflýsa framtíðarbýli og vatnsaflsvirkjunarskilyrði eru fyrir hendi, þá sé veitt 50% lán hið minnsta til slíkrar mannvirkjagerðar. Fyrr er það ekki viðunandi. Að ætla bónda að leggja fram 75% af slíkum kostnaði í mörgum tilfellum er of þung byrði og of lítil aðstoð af hendi hins opinbera. Ef það er rétt, sem það sjálfsagt er, að nú fækki þeim tilfellum mjög, þar sem virkjunarskilyrði eru fyrir hendi og um byggingar vatnsaflsstöðva sé að ræða, þá ætti að vera hægt að leysa þessi fáu tilfelli, því að á því er brýn nauðsyn, með þeirri aðstoð, sem löngu sett lög gera ráð fyrir.

Ég skal svo aðeins í örfáum orðum segja það, í tilefni af því, sem hv. 1. þm. Vestf. sagði um för okkar eitt sinn á fund orkumrh. vegna rafmagnsmála Barðastrandar og lýsingu á flugvellinum við Patreksfjörð, að það er létt, að við fórum þannig af fundi hæstv. ráðh., að við töldum það nokkurn veginn víst, að flugvöllurinn yrði lýstur á næsta ári, e.t.v. með aðstoð flugmálastjórnarinnar, í samvinnu við hana. Mér datt það ekki í hug, og ég hygg, að hvorki Sigurði Bjarnasyni né Sigurvini Einarssyni hafi dottið í hug, að það yrði leyst með rafgeymum, sem væru geymdir á Patreksfirði og þannig væru alls ekki tiltækir, ef flugvél þyrfti í neyð að lenda þar í myrkri. Þetta er blekking og hættulegt úrræði, auk þess sem það er ófullnægjandi á allan hátt. Okkur fannst sem hálfur sigur væri unninn í raforkumálum Barðastrandarhrepps, ef orkan væri komin yfir Patreksfjörð og að flugvellinum og hans mál þannig leyst, en Barðstrendingar hafa orðið fyrir vonbrigðum og búa enn í algerri óvissu um það, hvenær eða hvernig þeirra raforkumál verði leyst.

Um regluna, að í einu tilfelli skyldi Trékyllisheiði verða dregin frá meðaltalsvegalengd á milli bæja, sem er staðreynd að var gert, og í öðru tilfellinu aftur Kleifaheiði talin með í vegalengdinni, að því er snertir Barðastrandarhrepp, þá er þetta algert ósamræmi og óviðunandi að fara svona eftir tveimur reglum og mismuna þannig héruðum. Það mega stjórnarvöld ekki gera. En þetta misræmi kom fyrr í ljós, því að þegar raforkan var leidd frá virkjuninni í Hólmavík suður í Reykhólasveit og Geiradalshrepp, en Bjarnarfjarðarbyggðin, sem er afar þéttbýl, fékk ekki raforku, þá olli þetta mjög mikilli óánægju innan héraðs, sem von var. Bjarnarfjarðarháls var hins vegar lagður við vegalengdina á milli bæja þar, og þannig byrjaði þetta ósamræmi með þessar reglur. Bjarnarfjarðarháls var talinn með, þegar reiknuð var meðaltalsvegalengdin þar, í því tilfelli, Trékyllisheiði dregin frá, og aftur Kleifaheiði reiknuð með í meðaltalsvegalengdina. Svona er skipulagsleysið, og þó er látið í það skína, að reglur gildi um framkvæmd hlutanna, og að mismuna sveitarfélögum svona er óhafandi.