03.12.1969
Sameinað þing: 18. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 744 í D-deild Alþingistíðinda. (3642)

906. mál, Hagráð

Fyrirspyrjandi (Þórarinn Þórarinsson):

Herra forseti. Vorið 1966 var samþ. hér á Alþ. mikill lagabálkur um Framkvæmdasjóð Íslands, Efnahagsstofnun og Hagráð. Þriðji kafli þess lagabálks fjallar um Hagráð, og segir þar á þessa leið:

„Stofna skal Hagráð, er sé vettvangur, þar sem fulltrúar stjórnvalda, atvinnuvega og stéttarsamtaka geti haft samráð og skipzt á skoðunum um meginstefnuna í efnahagsmálum hverju sinni.

Hagráð skal skipað sem hér segir: Í því skulu eiga sæti tveir ráðherrar tilnefndir af ríkisstj., og skal annar þeirra vera formaður ráðsins. Þá skulu eftirtaldir aðilar eiga rétt á að tilnefna hver einn fulltrúa og jafnmarga varafulltrúa í Hagráð til eins árs í senn: Alþýðusamband Íslands, Bandalag starfsmanna ríkis og bæja, Farmanna- og fiskimannasamband Íslands, Félag Ísl. iðnrekenda, Iðja, félag verksmiðjufólks í Reykjavík, Landssamband iðnaðarmanna, Landssamband ísl. útvegsmanna, Landssamband ísl. verzlunarmanna, Samband ísl. sveitarfélaga, Sjómannasamband Íslands, Stéttarsamband bænda, stéttarsamband fiskiðnaðarins, stjórnmálaflokkar, sem fulltrúa eiga á Alþ., Verkamannasamband Íslands, Verzlunarráð Íslands, Vinnumálasamband samvinnufélaganna, Vinnuveitendasamband Íslands.

Hagráð skal koma saman til fundar, þegar formaður þess ákveður eða minnst fjórir ráðsmenn óska þess. Meginverkefni Hagráðs skal vera að ræða ástand og horfur í efnahagsmálum þjóðarinnar. Efnahagsstofnunin skal leggja fyrir Hagráð tvisvar á ári, í apríl og október, yfirlitsskýrslur um þróun þjóðarbúskaparins og horfur í þeim efnum, þ. á m. varðandi framleiðslu, fjárfestingu, greiðslujöfnuð, afkomu atvinnuveganna og verðlags- og kaupgjaldsmál. Þjóðhags- og framkvæmdaáætlanir ríkisstj. skulu lagðar fyrir Hagráð.“ Og svo segir enn fremur: „Efnahagsstofnunin undirbýr fundi Hagráðs og á fulltrúa á fundum þess. Hún annast skrifstofustörf vegna Hagráðs. Allur kostnaður Hagráðs greiðist úr ríkissjóði.“

Í grg. þeirri, sem fylgdi frv. um þennan lagabálk, sagði á þessa leið um væntanlega starfsemi Hagráðs:

„Á undanförnum árum hefur það komið æ betur í ljós víða um heim, hverja þýðingu það hefur í stjórn efnahagsmála, að fulltrúar stjórnvalda, atvinnuvega og stéttarsamtaka skiptist á skoðunum og hafi samráð um meginstefnuna í efnahagsmálum. Í flestum nágrannalandanna hefur verið komið á fót sérstökum vettvangi fyrir slíka samvinnu, þar sem jafnframt fer fram miðlun upplýsinga um þróun efnahagsmála. Með þessu frv. er lagt til, að slíkur vettvangur sé myndaður hér á landi með stofnun Hagráðs.“

Á því, sem hér hefur verið rakið, sést, hvað Hagráði hefur verið ætlað. Því hafa verið ætluð merkileg og nægileg verkefni og verulegar vonir hafa verið tengdar starfi þess. Þess vegna hef ég talið rétt að bera fram þær fsp., sem hér liggja fyrir og eru á þessa leið: Hve marga fundi hefur Hagráð haldið og hvenær? Hefur Efnahagsstofnunin lagt fyrir Hagráð skýrslu samkvæmt 19. gr. laga um Framkvæmdasjóð Íslands, Efnahagsstofnun og Hagráð?