03.12.1969
Sameinað þing: 18. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 751 í D-deild Alþingistíðinda. (3652)

951. mál, sjálfvirkt símkerfi

Vilhjálmur Hjálmarsson:

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðh. fyrir ítarleg svör. Ég vil jafnframt nota tækifærið og taka undir þau ummæli hv. 4. þm. Reykv. áðan, að það væri ákaflega æskilegt, að skýrslum ráðh. og svörum við fsp. væri útbýtt hér í þinginu til mikils hagræðis fyrir þm., enda gæti það líka sparað tíma að einhverju leyti.

Ég ætla ekki að fara neitt út í að ræða þetta mál frekar. Ég vil aðeins vekja athygli hæstv. ráðh. á því, að það er ekki alvarlegast með stytzta tímann hjá smæstu stöðvunum. Þær eru yfirleitt á þeim svæðum, þar sem lítill atvinnurekstur er. Hitt er verra, hvað afgreiðslutíminn er stuttur á þeim stöðum, þar sem atvinnurekstur er verulegur og umsvif meiri en í strjálbýlinu.

En ég endurtek það, ég þakka hæstv. ráðh. fyrir svörin og ég vil vona, að þær áætlanir, sem okkur er nú sagt frá, standist betur en þær, sem gerðar voru 1961, því að ástandið í símamálunum eins og við þekkjum það, þar sem það er lakast, er hálfgert miðaldaástand.