03.12.1969
Sameinað þing: 18. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 752 í D-deild Alþingistíðinda. (3660)

85. mál, endurskoðun laga um húsnæðismál

Fyrirspyrjandi (Gils Guðmundsson):

Herra forseti. Í sambandi við lausn kjaradeilu verkalýðsfélaga og atvinnurekenda árið 1965 gaf ríkisstj. sérstaka yfirlýsingu um að hún mundi beita sér fyrir tilteknum aðgerðum í húsnæðismálum. Sú yfirlýsing var í nokkrum liðum. 4. liður var á þessa leið:

„Unnið verði að því af hálfu ríkis og sveitarfélaga að tryggja láglaunafólki húsnæði, sem ekki kosti það meira en hóflegan hluta árstekna. Í þessu skyni verði nú hafin endurskoðun laga um verkamannabústaði og gildandi lagaákvæða um opinhera aðstoð vegna útrýmingar heilsuspillandi húsnæðis með það fyrir augum að sameina í einum lagabálki og samræma öll ákvæði um opinbera aðstoð við húsnæðisöflun láglaunafólks. Ríkisstj. hafi fullt samráð við verkalýðsfélögin um þessa endurskoðun laga um húsnæðismál láglaunafólks.“

Hinn 21. okt. 1965 skýrði hæstv. félmrh. frá því í ræðu hér á Alþ., að til að uppfylla framangreint ákvæði yfirlýsingarinnar um húsnæðismál hefði rn. með bréfi 15. okt. falið húsnæðismálastjórn, svo vitna ég orðrétt í orð ráðh.: „falið húsnæðismálastjórn allsherjar endurskoðun á allri lagasetningu um húsnæðismál til samræmingar og athugunar á því að setja upp nýtt heildarkerfi, er hafi með höndum alla stjórn og forystu þessara mála fyrir ríkisins hönd.“

Þetta voru ummæli hæstv. félmrh. á Alþ. 21. okt. 1965. Og til þess að ekkert væri á huldu um þessi efni og til að undirstrika, að endurskoðun þessi væri þegar hafin, eins og hæstv. ráðh. orðaði það, þá las hann erindisbréf rn. til húsnæðismálastjórnarinnar, þar sem henni er með mjög ótvíræðum orðum falið að framkvæma þessa endurskoðun og semja síðan frv. til l. samkv. þeirri yfirlýsingu, sem ríkisstj. hafði gefið í tilefni af lausn kjaradeilunnar.

Oftar en einu sinni hefur það átt sér stað, þegar húsnæðismál eða umbætur í húsnæðismálum hafa verið til umr. nú síðustu árin, að bæði hæstv. félmrh. og fleiri hv. ráðamenn stjórnarflokkanna í þessum málum hafa vísað til þeirrar allsherjar endurskoðunar laga um húsnæðismálin, sem verið væri að framkvæma, og talið einsætt að bíða eftir niðurstöðu þeirrar rannsóknar. Þetta hefur komið fyrir hvað eftir annað. Nú eru liðin 4 ár og bráðum tveimur mánuðum betur síðan hæstv. ráðh. fól húsnæðismálastjórn þessa mikilvægu endurskoðun. Um þá endurskoðun hefur verið næsta hljótt nú að undanförnu. Það getur því naumast talizt vonum fyrr né að ófyrirsynju, þó að spurt sé, hvað þessari endurskoðun líði. Ég hef því, ásamt hv. 11. þm. Reykv., leyft mér að leggja fram á þskj. 94 svo hljóðandi fsp.:

„Hvað líður þeirri endurskoðun laga um húsnæðismál, sem húsnæðismálastjórn var falið að framkvæma með ráðherrabréfi 15. okt. 1965?“