03.12.1969
Sameinað þing: 18. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 752 í D-deild Alþingistíðinda. (3661)

85. mál, endurskoðun laga um húsnæðismál

Félmrh. (Eggert G. Þorsteinsson):

Herra forseti. Í sambandi við þessa fsp. vildi ég gefa eftirfarandi svör, sem ég vænti að fullnægi hv. fyrirspyrjendum:

1. Ríkisstj. hefur nú um nokkurt skeið, frá því snemma hausts, haft til athugunar till. að heildarlöggjöf um húsnæðismál, þar sem gert er ráð fyrir að sameina í einum lagabálki öll ákvæði um opinbera aðstoð við húsnæðisöflun láglaunafólks, en að þessu hefur verið unnið á vegum húsnæðismálastjórnar, svo sem fram kemur í fsp.

2. Framangreindar till. gera ráð fyrir gagngerðri breytingu á núverandi lánakerfi, sem einnig tekur til almenna veðlánakerfisins, Byggingarsjóðs verkamanna og byggingaáætlana fyrir láglaunafólk. Slíkri breytingu, sem till. gera ráð fyrir, verður því aðeins komið á, að lánakerfinu í heild verði jafnframt séð fyrir nýjum tekjustofnum. Sú hlið málsins hefur verið í sérstakri athugun á vegum ríkisstj. Hefur því áður verið lýst yfir opinberlega, sbr. tilkynningu rn. dags. 16. sept. í haust, að ríkisstj. mun taka það mál upp á Alþ. því, sem nú situr.

3. Á það má benda í þessu sambandi, að vegna þess, hve öflun nýrra tekjustofna til lánakerfisins er viðamikið mál, þá ákvað ríkisstj. í septembermánuði s.l. að gera þá þegar sérstakar ráðstafanir til bráðabirgðalánsfjárútvegunar vegna Byggingarsjóðs ríkisins og framkvæmdaáætlana utan Reykjavíkur, en þessar lánveitingar eru þegar komnar til framkvæmda. Hliðstæðar ráðstafanir eru nú í undirbúningi að því er Byggingarsjóð verkamanna varðar.

Af því, sem ég nú hef sagt, má ljóst vera, að það, sem á stendur í þessum efnum, eru till. um nýja tekjustofna, væntanlega tekst að fullbúa þær till. fljótlega, en án þeirra till., er tryggi stórauknar tekjur til ráðstöfunar í húsnæðismálum, verða aðrar breytingar á lögunum tiltölulega lítils virði.