26.11.1969
Sameinað þing: 16. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 763 í D-deild Alþingistíðinda. (3680)

907. mál, raforka til húshitunar

Fyrirspyrjandi (Eysteinn Jónsson):

Herra forseti. Ég held, að allir hljóti nú að vera sammála um, að eitt af stærstu málum landsins er að finna skynsamlegar leiðir til þess að hagnýta orkulindirnar, náttúruauðæfin. Í því sambandi kemur mönnum það oft í hug, að við flytjum inn ógrynni af olíu fyrir of fjár til þess að hita upp íbúðir og aðrar byggingar landsmanna. En þetta leiðir þá aftur hugann að því, sem ég hef oft orðið var við undanfarið hjá fólki, að það tekur eftir, að undarlega lítið verður samt vart við áætlanir um stóraukna raforkusölu til húsahitunar í sambandi við ráðagerðir um virkjanir, bæði þær virkjanir, sem nú nýlega hafa verið framkvæmdar, og raunar er það sama að segja um þær virkjanir, sem ráðgerðar eru á næstunni. Það verður ekki mikið vart við þetta. En þó eru þessar áætlanir og ráðagerðir ýmsar miðaðar við að selja hluta af raforkunni mjög ódýrt til stóriðju, og þá spyr fólk að sjálfsögðu unnvörpum þeirra spurninga að efni til, sem ég nú beini til hæstv. raforkumrh., en ég hef leyft mér að orða þær á þessa lund:

Hvað telur ráðh. að mikill markaður yrði fyrir rafmagn til húsahitunar, ef það væri á boðstólum inn á dreifingarkerfin með sama verði og rafmagn er selt til stóriðju? Og í öðru lagi: Hvaða verð telur ráðh., að þyrfti að vera á rafmagni til þess að hagfelldara væri að nota það til húsahitunar en olíu?

Ég þykist mega gera ráð fyrir því, að sagt verði, að þessum spurningum sé erfitt að svara með nákvæmni, og kemur mér ekkert á óvart, þó að hæstv. ráðh. upplýsi það, því að það má vel vera rétt. En þessum spurningum hlýtur samt að vera hægt að svara á þann hátt, að fengur verði að því, til þess að byggja á skynsamlegar umr. um þennan mikilsverða lið í þjóðarbúskapnum, sem sé, þann lið að hita hús landsmanna með innlendri orku og þá raforku, þar sem jarðhitaorka kemur ekki til með hagfelldara móti. Ég ætlast til þess og vonast eftir því, að svar hæstv. ráðh, við fsp. gefi einhverja hugmynd um stærð þessa máls, hversu stórfellt það muni vera, að út frá svari hans við fyrri spurningunni megi geta sér til um stærð þess markaðar, sem þarna væri fyrir hendi, og þá aftur út frá því, hve mikið mætti spara í innflutningi, ef hægt væri að láta orkuna hæfilega ódýrt í þessu skyni. En það má kallast ömurlegt, ef það er í raun og verú rétt stefna að flytja inn olíu til húsahitunar í stórum stíl í stað þess að hafa raforkuverin svo við vöxt, að þau geti selt raforku eins og menn þurfa til að hita íbúðir sínar og aðrar byggingar.

Þetta blasir enn betur við og leitar enn sterkar á, þegar farið er að selja raforku mjög ódýrt til stóriðju og ráðgera enn stórfelldari raforkusölu á þeim grundvelli. En svarið við síðari spurningunni vona ég að gæti einnig hjálpað eitthvað til við þær umr., sem um þetta þurfa að verða, og þá á þann hátt að átta sig á því, hvað olíukyndingin kostar raunverulega samanborið við hæfilegt raforkuverð og það raforkuverð t.d., sem nú er farið að reikna með frá næstu virkjun. Ég undrast það ekki sem sagt, þó að hæstv. ráðh. geti ekki rætt þetta af nákvæmni, en ég vonast eftir því, að svar hans gefi hugmynd um m.a., hvernig um þessi mál er hugsað hjá raforkumálastjórninni, og gæti þá orðið grundvöllur að frekari málefnalegum umr. um þennan geysiþýðingarmikla þátt.