26.11.1969
Sameinað þing: 16. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 764 í D-deild Alþingistíðinda. (3681)

907. mál, raforka til húshitunar

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Hér er um mjög mikið stórmál að ræða og umfangsmikið, og það er nauðsynlegt að greina á milli tvenns konar tilvika, þegar um þetta mál er rætt. Það er í fyrsta lagi hitun húsahverfa, þar sem bæði húsin sjálf og dreifikerfi raforkunnar í hverfinu eru skipulögð með rafhitun fyrir augum, og í öðru lagi hitun húsa, sem þegar eru byggð og eru hvorki gerð sérstaklega fyrir rafhitun né heldur dreifikerfið við hana miðað.

Í fyrra tilvikinu, þegar húsahverfi er skipulagt fyrir rafhitun, getur húseigandi oft notfært sér alla kosti rafhitunar, svo sem ódýrt hitunarkerfi, og dregið úr kostnaði við hana með því að velja þá einangrun, sem hagkvæmust er fyrir rafhitun. Hann getur þá sparað sér miðstöð, kyndiklefa og skorstein, sem annars kynni að vera nauðsynlegur. Á sama hátt getur rafveitan miðað dreifikerfi sitt í upphafi við það hlutverk að dreifa raforku til hitunar. Umframkostnaður rafveitunnar vegna dreifingar hitaorkunnar, getur þá orðið tiltölulega lítil.

Í síðara tilvikinu, þar sem um er að ræða hverfi, sem þegar eru byggð og ekki eru skipulögð sérstaklega fyrir rafhitun, er enginn þessara möguleika til. Vilji húseigandi taka upp rafhitun, verður hann að leggja í nýjan stofnkostnað. Einangrun hússins er sjaldnast eða aldrei við rafhitun miðuð og ef rafveitan þarf að styrkja dreifikerfið, sem fyrir er, vegna hitunarálagsins, getur orðið um mjög mikinn viðbótarkostnað að ræða fyrir hana. Aðstaða raforku til samkeppni við aðra hitagjafa er því gerólík í þessum tveimur tilvikum. Í því fyrra keppir raforkan á jafnréttisgrundvelli að segja má. Í því síðara þarf hún að rýma burt keppinaut, sem þegar hefur náð markaðinum.

Húshitun með raforku er enn þá tiltölulega lítt rannsakað mál á Íslandi. Þær athuganir, sem gerðar hafa verið, benda þó eindregið til þess, að rafhitun sé mjög vel samkeppnisfær við olíuhitun í einbýlishúsahverfum, sem skipulögð eru frá upphafi fyrir rafhitun. Þar mætti raforkan kosta a.m.k. 60–70 aura á kwst., án þess að samkeppnisaðstöðunni gagnvart olíu væri stefnt í hættu. Athuganirnar benda einnig til þess, að í slíkum hverfum geti rafveitan dreift hitaorkunni með því að skipuleggja dreifikerfi fyrir fram fyrir húshitun með tiltölulega lágum kostnaði. Það væri því í slíkum tilfellum fyrst og fremst vinnslu- og flutningskostnaður hitaorkunnar, sem ræður eða gæti ráðið söluverði hennar til notenda. Varla leikur á því vafi, að hitun slíkra einbýlishúsahverfa með raforku, sem seld væri í heildsölu til dreifiveitna á 26 aura kwst., sama verði og til álbræðslunnar, væri ábatasöm. Á hinu leikur meiri vafi, hvort framleiðandi raforkunnar, virkjunin, stenzt það að selja raforku til hitunar á því verði. Á hitunarmarkaðinum og á álbræðslunni er nefnilega sá afdrifaríki munur fyrir framleiðandann, að hitunin er mjög misjöfn eftir tíðarfari og fellur mikið til niður yfir sumarið, en salan til álbræðslunnar er jöfn allan ársins hring. Það er þetta jafna álag álbræðslunnar ásamt mjög miklu orkumagni, sem er alger forsenda hins lága raforkuverðs til hennar. En jafnvel þótt vinnslukostnaður hitaorkunnar hljóti jafnan að verða nokkru hærri en raforka til álbræðslu, er tæplega nokkur vafi á því, að rafhitun einbýlishúsahverfa getur verið hagkvæm, vel að merkja ef hverfin eru skipulögð fyrir fram fyrir slíka hitun. Um ný fjölbýlishúsahverfi ríkir meiri óvissa, jafnvel þótt þau væru skipulögð fyrir rafhitun. Þar hafa athuganir enn ekki verið gerðar í nægilega ríkum mæli. Vitað er þó, að í slíkum hverfum er samkeppnisaðstaða raforkunnar gagnvart olíunni örðugri en í einbýlishúsahverfum. Litlar sem engar athuganir eru til á hitun eldri húsa með raforku, húsa, sem ekki eru byggð með slíka hitun sérstaklega fyrir augum. Þó er augljóst, að verð raforkunnar verður þar að vera mun lægra en til húsa þeirra, sem áðan var rætt um, þeirra er skipulögð eru fyrir fram fyrir rafhitun. Mjög dýrt er að skipta um hitunarkerfi, og ýmsa kosti rafhitunar er ekki unnt að nýta í eldri húsum, t.d. þá að losna við kyndiklefa og skorstein. Hlutverk raforkunnar er þá það eitt að spara það olíuhitunarkerfi, sem fyrir er.

Núverandi olíuverð til húshitunar er í kringum 50 aura á hverja kwst. þeirrar varmaorku, er úr olíunni nýtist. Varmaorku má mæla í kwst. engu síður en raforku. Raforka til hitunar eldri húsa þarf því að vera nokkru ódýrari en 50 aurar á kwst., því að notandinn þarf að leggja í nokkurn kostnað vegna rafhitunarbúnaðarins. Spurningin er þá, getur rafveitan selt orku til húshitunar í eldri hverfum, þar sem dreifikerfið er ekki sérstaklega við hitun miðað, við verði, sem er vel neðan við 50 aura á kwst.? Svarið við þeirri spurningu er komið undir vinnslu- og flutningskostnaði raforkunnar og dreifingarkostnaðinum.

Lítum fyrst á síðari liðinn, dreifingarkostnaðinn. Rafveitan getur dreift vissu, takmörkuðu magni hitunarorku fyrir mjög lágt verð um dreifikerfi, sem fyrir er, nefnilega upp að því marki, að hitunarorkan fari að hafa áhrif á toppálagið. Þessi orka nægir aðeins fyrir tiltölulega lítinn hluta hitunarþarfarinnar. Ef hitunarorkan verður það mikil, að styrkja þurfi hennar vegna dreifikerfið, sem fyrir er, hækkar dreifingarkostnaðurinn mjög mikið. Til viðbótar dreifingarkostnaðinum kemur svo vinnslu- og flutningskostnaðurinn eða heildsöluverðið, ef dreifiveita kaupir orku í heildsölu. Þetta verð er 37–74 aurar á kwst. hér á landi til almennra rafveitna, mismunandi eftir stöðum og nýtingartíma. Hér er um meðalverð að ræða, sem felur í sér fastagjald. Fyrir orku, sem ekki hefur áhrif á toppálagið, er heildsöluverðið 12–23 aurar á kwst., mismunandi eftir stöðum.

Þrátt fyrir takmarkaðar athuganir á möguleikum húshitunar með raforku hér á landi, virðist mega greina eftirfarandi meginatriði, og eru þau niðurstaða framangreindra hugleiðinga og athugana:

Við vinnslu- og flutningskostnað raforku, eins og hann gerist hér á landi og birtist í heildsöluverði til dreifiveitna, virðist augljóst, að húshitun með raforku sé hagkvæm í eftirtöldum tilvikum:

1. Hitun einbýlishúsahverfa, sem skipulögð eru fyrir fram með rafhitun fyrir augum. Um fjölbýlishúsahverfi ríkir mikill vafi enn sem komið er.

2. Hitun eldri hverfa getur verið hagkvæm að vissu marki, en það mark er ekki nema tiltölulega lítill hluti af hitunarþörfinni. Sé farið yfir það mark, er hagkvæmnin miklum mun vafasamari.

Heildarþörf orku til húshitunar á Íslandi er sem stendur af stærðargráðunni 1500–2000 gígawattstundir. Ein gwst. er 1 millj. kwst. En notkunarþörfin er 1500–2000 gwst. á ári. (Gripið fram í.) Jú, jú, gwst, er 1 millj. kwst. Það er reikningsdæmi. Af því sér raforkan fyrir nálega 90 gwst. eða 5%. Afgangurinn, 95%, skiptist milli jarðhita og olíu, þannig að jarðhitinn sér fyrir 55%, en olían fyrir 40%. Til samanburðar má geta þess, að orkusala til ÍSALs verður 1237 gwst. á ári, ef viðbótarorkusölusamningur sá, sem nú liggur fyrir Alþ., verður staðfestur.

Af framangreindum tölum má fá hugmynd um hugsanlega stærð markaðsins fyrir rafhitun. Ef ekki er reiknað með, að raforka taki markað frá jarðhitanum, verður eftir núverandi hlutur olíunnar, um 700 gwst. Rafhitunin næmi þá alls um 800 gwst. á ári nú, ef öll olíuhitun væri flutt yfir á rafhitun.

Tölur þessar eru í eðli sínu óvissar, en þær gefa samt rétta hugmynd um stærð. Nú er nokkurn veginn öruggt, að ekki borgar sig að útrýma olíuhitun með öllu, svo að hugsanlegur rafhitunarmarkaður í dag er nokkru minni en þessar 800 gwst. Orkuþörfin til húshitunar fer að sjálfsögðu vaxandi. Eftir 10 ár er hún væntanlega orðin 30% meiri en í dag.

Svo sem þegar er sagt, hafa húshitunarmál ekki verið rannsökuð að fullu hér á landi til þessa. Hér er um yfirgripsmikið mál að ræða, sem tekur mikinn tíma að rannsaka að fullu. Nú í haust var skipuð sérstök rannsóknarnefnd húshitunar með fulltrúum frá Orkustofnun, Efnahagsstofnun, rafveitum, hitaveitum, Landsvirkjun og olíufélögunum. Sú n. er nú að taka til starfa og lýkur störfum eins fljótt og unnt er, en að áliti sérfræðinga mun það taka talsverðan tíma að reikna út og gera sér grein fyrir öllum þeim óþekktu stærðum, sem taka þarf til greina við slíka útreikninga. Verkefni n. verður að rannsaka, á hvern hátt mætti gera rafmagnshitun hagkvæma, ekki aðeins í þéttbýli, heldur einnig í strjálbýli. Það er nú þegar að verða aðkallandi að fá tæknilegt álit og heildaryfirlit um, hvernig raforkan verður bezt nýtt með húshitun fyrir augum. Um leið og orkuvinnsla eykst og rafmagn er fyrir hendi til þessara nota, má segja, að tími sé til þess kominn að rannsaka þessi mál að fullu. Það má reikna með því, að í framtíðinni verði mikill hluti húshitunar annaðhvort með rafhitun eða jarðhita, og það er ekkert efamál, að það mun gera hvorttveggja að skapa þægindi og spara gjaldeyri.

Í sambandi við það, sem hv. fyrirspyrjandi sagði áðan, að það hafi lítið verið að því gert að gera ráð fyrir rafhitun húsa í áætlunum í sambandi við virkjanir, þá má geta þess, að það er gert ráð fyrir því, að Landsvirkjun hafi raforku aflögu til húshitunar, og er einmitt til þess hugsað. Aftur á móti er öðru máli að gegna með Laxárvirkjun, á meðan fullkomin óvissa er um, hversu sú virkjun verður stór. En þó hefur það verið í stærra mæli á Akureyri, sem rafhitun hefur verið til húsa, heldur en nokkurs staðar annars staðar. Það hefur fram að þessu ekki verið til raforka til þess að láta til húshitunar nokkuð að marki. En nú er sá tími að renna upp, og einmitt þess vegna hefur verið skipuð sérstök n. sérfræðinga til þess að gera sér fulla grein fyrir því, á hvern hátt raforkan verði helzt hagnýtt til húshitunar.