26.11.1969
Sameinað þing: 16. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 767 í D-deild Alþingistíðinda. (3682)

907. mál, raforka til húshitunar

Fyrirspyrjandi (Eysteinn Jónsson):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðh. fyrir svörin. En eins og gefur að skilja og við var að búast, er hér ekki um einfalt mál að ræða, og í þessu var mikið af upplýsingum. Ég vil fara þess á leit, að hæstv. ráðh. geri annaðhvort, að hann láti birta þetta orðrétt í blaði eða hann láti vélrita þetta eða prenta á annan máta og því verði útbýtt til þm. allra, svo að það geti orðið skoðað.

Það er öruggt af því, sem hæstv. ráðh. upplýsti, að hér er um mjög stórfellt mál að ræða, eins og raunar var vitað fyrir fram, og þýðingarmikið á marga lund. Einnig kemur það fram, að í þessu ættu að vera stórfelldir framtíðarmöguleikar, því þó að það megi rétt vera hjá hæstv. ráðh., að erfitt væri að selja raforku inn á dreifikerfin til hitunar með jafnlágu verði og til stóriðju af ástæðum, sem hann greindi, þá er samt svo mikill munur á 26 aura verði, sem hann nefndi að rafmagn væri látið í té fyrir til stóriðju, og 60–70 aurum á kwst., sem raforkan má kosta, að mér skilst, til húsahitunar til þess að keppa við olíu, að þarna ættu að vera stórfelldir möguleikar fólgnir. Ég skil, að það þarf að skoða betur dreifingarkostnað og annað því líkt í sambandi við málið, og ég vil skora á hæstv. ráðh. að útvega þeirri n., sem skipuð hefur verið, nægileg fjárráð til þess að hún geti hraðað verki sínu. Ég vil í því sambandi minna á, að milljónatugum er varið árlega til þess að rannsaka skilyrði til að byggja raforkuver, og er ekki nema gott um það að segja að sjálfsögðu. En þá má ekki heldur að mínu viti láta skorta fé til þess að fram geti farið athuganir á þessum þýðingarmikla þætti og öðrum slíkum jafnframt og með fyllsta hraða. Ég ætla ekki í sambandi við þessa fsp. að deila um, hvort þessu hafi verið nægilega sinnt undanfarið eða ekki. Aðalatriðið er, að á þetta verði settur sem allra mestur skriður nú og þeirra peninga verði aflað, sem þarf til þess, að á þessu verði sem mestur hraði.

Ég minntist á, að það færi lítið fyrir því, að veruleg raforka væri ætluð til sölu til hitunar húsa í sambandi við nýjar áætlanir að raforkuverum. Ég vil ekki vefengja það, sem hæstv. ráðh. sagði, að það væri ráðgert eitthvað í þessu tilliti í sambandi við Landsvirkjunina. En þó getur það varla verið mjög mikið, miðað við, að margir liðir eru enn óvissir í þessu máli skv. því, sem hæstv. ráðh. upplýsti sjálfur. Það er eðlilegt, meðan svo margir liðir eru óvissir og ekki búið að leggja vinnu í að rannsaka þá, að þá sé ekki gert ráð fyrir að selja raforku frá nýju raforkuverunum til hitunar í stórum stíl. En einmitt þess vegna er aðalatriðið nú að ganga með krafti í rannsóknir og þá að skoða þá mörgu liði, sem þarna koma til greina. Ég hef tekið eftir því, að í þær áætlanir, sem gerðar hafa verið um Lagarfossvirkjun og ég er sérstakalega kunnugur, hefur mjög lítið farið fyrir því, að gert væri ráð fyrir orkusölu til hitunar, og maður skilur ástæðurnar fyrir því, þegar maður heyrir, hvað margir liðir virðast enn vera órannsakaðir. Aðalatriðið er því að setja kraft á rannsóknina.