14.01.1970
Sameinað þing: 30. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 770 í D-deild Alþingistíðinda. (3688)

908. mál, aðgerðir gegn kali

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Ég tel rétt að lesa upp allar í einu þessar fsp., sem eru í 4 liðum, til upprifjunar, og mun ég svo svara þeim eftir töluröðinni.

„1. Hvað líður störfum kalnefndar, sem skipuð var 7. ágúst s.l., og á hvaða grundvelli er henni ætlað að starfa?

2. Hvaða fjármagn hefur kalnefnd til umráða vegna starfa sinna?

3. Hvaða ráðstafanir aðrar eru áætlaðar til þess að koma í veg fyrir túnkal og fóðurskort? 4. Er að vænta sérstaks stuðnings við félagsræktun bænda?“

Út af fyrir sig er eðlilegt, að fsp. þessu líkar komi fram hér í hv. Alþ., því að oft er rætt um kalið og skemmdirnar í túnunum, og er oft í því sambandi talað um fjárskort og að erfitt sé að vinna að þessum rannsóknum vegna þess, að það vanti fé. Stundum er meira að segja talað um það, að við höfum ekki nógu marga menn til þessara starfa, ráðunauta eða nógu góða menn. Um allt þétta má sjálfsagt deila. En hitt er víst, að fjármagnið hefur verið aukið mjög mikið að undanförnu til rannsóknarstarfsemi á sviði landbúnaðarins. Þannig hefur þetta fjármagn verið tólf- eða þrettánfaldað á 10 árum. Ég ætla samt sem áður ekkert að fullyrða um það, hvort þetta fjármagn er nægilega mikið. Ég ætla ekki heldur að fullyrða um það, hvort ráðunautarnir eru nógu margir eða hvort þeir búvísu menn eru nægilega margir, sem við rannsóknir fást. En hitt vitum við, að ráðunautarnir eru mjög margir og þeir, sem að þessum rannsóknum vinna, eru einnig margir. Við skulum vona, að árangur af þeirra störfum verði í samræmi við tölu þeirra manna, sem að þessu vinna, og í samræmi við það fjármagn, sem þjóðin lætur til þessara hluta.

Það er ekki rétt, sem hv. fyrirspyrjandi sagði hér áðan, að ríkisstj. hafi ekki haft forgöngu um að útvega kalnefnd fjármagn. Ég vil taka það fram, að erindið, sem kom frá kalnefndinni, var sent í samráði við mig, og það var alltaf vitað, að n. þurfti að fá nokkurt fjármagn til starfsemi sinnar. Og fjvn. tók þetta mál upp að mestu leyti, lét kalnefndinni í té talsvert fjármagn, jafnframt því sem fjármagn var aukið til Rannsóknastofnunar landbúnaðarins beint. Þannig er fyrir því séð, að kalnefndin hefur nægilegt fjármagn til starfsemi sinnar.

Það, sem kalnefndinni er ætlað að vinna og má segja að sé hlutverk hennar samkv. skipunarbréfi, er: 1. Að safna gögnum, sem fyrir liggja nú, um kal og kalrannsóknir í landinu. 2. Gera till. um varnir gegn kali og grasbresti af völdum kals. 3. Athuga, á hvern hátt sé heppilegt að endurrækta skemmd tún, þar sem kal er fyrir hendi og arfavöxtur er ríkjandi.

Mér er kunnugt um, hvernig n. hefur hagað störfum. Hún hefur leitað upplýsinga hjá héraðsráðunautum í öllum sýslum landsins um þau atriði, sem tilgreind eru í bréfi, sem n. skrifaði ráðunautunum og ég gjarnan vildi, með leyfi hæstv. forseta, lesa hér upp til upplýsingar. Bréfið hljóðar svo:

„Herra ráðunautur.

Með bréfi, dags. hinn 7. ágúst s.l., skipaði landbrh. samstarfsnefnd 7 manna til að vinna að nánar tilgreindum verkefnum, þ. á m. að söfnun gagna um kal og kalrannsóknir. Með tilvísun til þessa leyfir undirritaður sér fyrir hönd n. að beina til þin eftirfarandi spurningum, þar sem við teljum líkur til, aðstöðu þinnar vegna, að þú hafir manna bezt yfirsýn um þau atriði, sem um er spurt, að því er tekur til þíns umdæmis. Óskað er yfirlits um útbreiðslu kals á s.l. sumri á jörðum í umdæmi þínu. Tilgreindar séu þar jarðir, þar sem kal hefur valdið verulegu tjóni, og áætluð heyskaparrýrnun af þeim sökum. Hverjar líkur telur þú, að séu orsakir kalsins:

a. Veðurfarsáhrif, beinir frostskaðar, áhrif snjóalaga, áhrif veðurfars á nýtingu áburðar.

b. Áhrif jarðvinnsluaðferða.

c. Áhrif áburðarnotkunar og áburðartíma á þeim svæðum, er orðið hafa fyrir samfelldu kali.

d. Hefur komið fram mismunur á þolni fræblandna, sem verið hafa á markaði hér hin síðustu ár? — Þetta sýnist vera nauðsynlegt að liggi fyrir.

e. Áhrif mismunandi notkunar hins ræktaða lands:

1. Hefur sláttutími árið áður áhrif til aukinnar aukningar á kalhættunni?

2. Voru kaláhrif meiri á landi, sem beitt var eftir slátt, og hver virðast þér áhrif haustbeitar, vetrarbeitar og vorbeitar vera í sambandi við varanleik hins ræktaða lands? Hverra atriða telur þú, að þurfi að gæta í sambandi við notkun hins ræktaða lands til að draga úr áhrifum kalhættunnar?

f. Hver er skoðun þín um áhrif aukinnar notkunar þungavinnuvéla við framkvæmd ræktunar og við árlega notkun landsins?

Það eru vinsamleg tilmæli n., að umbeðnar upplýsingar verði veittar við fyrstu hentugleika þína og sendist til undirritaðs. Hafi verið gerðar tilraunir á þínum vegum, sem skýrt gætu einstök atriði þessa máls, væri mikils um vert að fá aðgang að niðurstöðum þeirra eða upplýsingar um, hvar þær hafi verið birtar.

Virðingarfyllst,

Páll Einarsson.“

Hann er formaður nefndarinnar.

Varðandi þetta bréf skal nú upplýst, að svör hafa nú borizt frá meiri hl. ráðunautanna, og allir hafa þeir heitið að senda n. svör sín á næstu vikum og verður úr þeim unnið, er svörin hafa borizt. N. hefur verið heimilað að ráða sér vinnuaðstoð við úrvinnslu gagna varðandi kalrannsóknir og þær athuganir, sem gerðar hafa verið af Búnaðarfélagi Íslands og Rannsóknastofnun landbúnaðarins um þessi mál. N. hefur nú þegar lagt til við Rannsóknastofnun landbúnaðarins og Búnaðarfélag Íslands, að þessar stofnanir haldi nú eftir áramótin ráðstefnu með þátttöku ráðunauta, sérfræðinga, tilraunastjóra Rannsóknastofnunar landbúnaðarins og annarra sérfróðra manna, t.d. veðurfræðinga, þar sem fjallað yrði um kalvandamálið, kalrannsóknir og leiðbeiningar um meðferð og endurræktun kals. Þessar stofnanir hafa brugðizt vel við þeirri beiðni og heitið að gangast fyrir slíkri ráðstefnu og eiga hlutdeild í greiðslu kostnaðar, er af því fundahaldi leiðir, og hefur þessi ráðstefna verið ákveðin í næsta mánuði.

Af könnun þeirri, sem þegar hefur verið gerð, er ljóst, að þó að fyrirliggjandi tilraunaniðurstöður gefi ábendingar um mikilsverð atriði varðandi þann vanda, er um ræðir, þá er ljóst, að sprettuleysi ræktaðs lands á undanförnum árum hefur átt fleiri orsakir en bein kaláhrif, og ég hef hlustað á ýmsa vísindamenn ræða einmitt um það, að túnin eru nú raunverulega þríslegin í staðinn fyrir það, að þau voru áður einslegin eða í mesta lagi tvíslegin. Nú er beitt á túnin á vorin oft fram undir júnílok. Síðan eru þau slegin í ágústmánuði, og svo eru þau þrautbeitt á haustin og kannske oft sviðin niður í rót. Þetta er það, sem kallað var ofnotkun túnanna, og margir halda, að þetta eigi sinn þátt í því að auka kalhættuna.

N. er sammála um, að búrekstrarfyrirkomulag og meðferð hins ræktaða lands þurfi að rannsaka betur en orðið er, því að meðferð ræktaðs lands og ýmis atriði í núverandi búskaparháttum geta stuðlað að sprettuleysi og jafnvel aukið kalhættuna. Þannig eru lítið rannsökuð áhrif á gróðurfar og kalþol ræktaðs lands. Hefur n. gert sér grein fyrir, hvers sé vant í þessu efni, og unnið að skipulagningu nýrra tilrauna til að fá svör við þeim spurningum, sem að dómi n. er brýnast að leysa, svo að öruggar leiðbeiningar geti orðið gefnar við endurræktunarvandamálinu, og hverju þurfi að breyta í rekstrarformum og notkun tæknibúnaðar, sem líklegt þyki, að geti haft óbein áhrif til að draga úr grasvexti. Tilraunir, sem hér eru áætlaðar, verða að fara fram á þeim svæðum, sem orðið hafa fyrir tjóni vegna grasbrests. Hér er um að ræða 6 tilraunir, sem eru þessar:

1. tilraun: Áhrif beitar á gróðurfar og kalþol túna.

2. tilraun: Mismunandi jarðvinnsluaðferðir við endurvinnslu kaltúna.

3. tilraun: Niðurfelling kalís og fosfórs við endurvinnslu túna.

4. tilraun: Eyðing illgresis með lyfjum úr kölnum túnum og við endurræktun kalinna túna.

5. tilraun: Endurræktun kals með mismunandi tegundum og afbrigðum.

6. tilraun: Mismunandi djúp plæging við endurvinnslu kaltúna.

Þegar orsakir og eðli grasbrests þess, sem orðið hefur hin síðustu ár, hafa með rannsóknum og tilraunum þeim, sem áætlaðar eru, verið kannaðar, er fyrst hægt að gera grein fyrir, hvernig eigi að koma í veg fyrir túnkal og fóðurskort. Og enginn vafi er á því, að þessi 7 manna n., samstarfsnefnd sérfræðinga frá Rannsóknastofnun landbúnaðarins og Búnaðarfélagi Íslands, mun nú leggja sig fram um það að vinna að þessu máli, því að engum er fremur ljós sú hætta, sem af kalinu stafar, heldur en þeim. Og það er enginn vafi á því, að þetta, sem hefur skeð nú síðustu 3 árin, er sá mesti ógnvaldur fyrir íslenzkan landbúnað, sem komið hefur. Þess vegna ber að gera allt, sem í mannlegu valdi stendur, til þess að ráða bætur á þessu.

Síðasti liður fsp. er um það, hvort vænta megi sérstaks stuðnings við félagsræktun bænda. Það hefur verið veittur talsverður stuðningur við félagsræktun bænda að undanförnu, en nú er starfandi n., sem skipuð var á s.l. sumri, sem mun taka þetta mál fyrir meðal annarra verkefna, sem henni hafa verið falin.

Ég vona, að ég hafi nú svarað þessum fsp. forsvaranlega og að það, sem ég hef sagt, gefi nokkrar upplýsingar um málið.