21.01.1970
Sameinað þing: 31. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 778 í D-deild Alþingistíðinda. (3698)

119. mál, nýting landgrunnsins

Fyrirspyrjandi (Sigurður Bjarnason):

Herra forseti. Á síðasta Alþ. voru sett lög um yfirráðarétt íslenzka ríkisins yfir landgrunninu umhverfis Ísland. Í 1. gr. þeirra laga segir á þá leið, að íslenzka ríkið eigi fullan og óskoraðan yfirráðarétt yfir landgrunni Íslands að því er tekur til rannsókna á auðæfum landgrunnsins og vinnslu og nýtingar þeirra. Öll slík auðæfi eru eign íslenska ríkisins og skulu íslenzk lög gilda í einu og öllu í þessum efnum. Í 3. gr. þessara sömu laga segir einnig, að íslenzka landgrunnið skuli teljast í merkingu þessara laga ná svo langt út frá ströndum landsins sem unnt reynist að nýta auðæfi þess. Landgrunn eyja, sem utan landhelgi liggja, skal markað á sama hátt.

Þessi lög, sem sett voru, eins og ég sagði, á síðasta þingi, eru hin mikilvægustu, og í framhaldi af því, sem ég hef nú rakið um efni þeirra, hef ég leyft mér að beina eftirfarandi fsp. til hæstv. utanrrh.:

1. Hvaða upplýsingar liggja fyrir um verðmæt jarðefni, föst eða fljótandi, í hafsbotni íslenzka landgrunnsins?

2. Hafa farið fram eða eru í vændum skipulegar vísindalegar rannsóknir á landgrunninu með könnun auðlinda þess í huga?

3. Hafa íslenzkum stjórnvöldum borizt óskir um það frá erlendum aðilum að fá að kanna, með borunum eða á annan hátt, hvort olíu eða önnur verðmæt jarðefni sé að finna í landgrunninu, sbr. lög nr. 17 frá 1. apríl 1969, er ég vitnaði til í upphafi máls míns?