21.01.1970
Sameinað þing: 31. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 783 í D-deild Alþingistíðinda. (3704)

128. mál, strandsiglingar

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Ég verð að viðurkenna, að ég hef ekki sett mig nógu vel inn í þessi mál enn sem komið er, enda stutt síðan ég tók við þeim. Ég vil eigi að síður leitast við að gefa nokkur svör við þeim fsp., sem hér hafa verið fram bornar. Og þá er það 1. fsp.:

„Hefur ríkisstj. undirbúið till. um skipulagningu vöruflutninga á sjó og landi á langleiðum innanlands ?“

Þar er þá því til að svara, að stjórnarnefnd Skipaútgerðarinnar hefur hugsað sér, þegar bæði nýju vöruflutningaskipin eru komin, að þau gangi mest í hringferðum. Þá fá allar hafnir hálfsmánaðarlega ferð úr sömu átt og vikulega viðkomu sína úr hverri átt. Þannig er komið skipulag á vöruflutninga og fólksflutninga að nokkru leyti með ströndum fram og breytt og bætt þjónusta frá því, sem verið hefur um sinn. Skipulag vöruflutninga á landi, á langleiðum innanlands, er í athugun, og verður hægt að greina nánar frá því síðar, hver niðurstaðan verður af því.

2. liður fsp.: „Hafa verið gerðar ráðstafanir til þess að bæta aðstöðu til vöruafgreiðslu hjá Skipaútgerð ríkisins, svo að tæknibúnaður og aukin afkastageta nýju strandferðaskipanna komi að fullum notum?“

Í sambandi við þetta má rifja upp, að á fjárl. á árunum 1966 og 1967 var gert ráð fyrir heimild til greiðslu á allt að 15 millj. kr. til þess að bæta húsakost, aðstöðu og tæknibúnað við afgreiðslu strandferðaskipa ríkisins, og var verkfræðifirmanu Hönnun, Reykjavík, í þessu sambandi, samkv. ábendingu hafnarstjórans í Reykjavík, falið að gera könnun á hugsanlegum endurbótum á húsakosti og aðstöðu strandferðaþjónustunnar í Reykjavík á þeim forsendum, að Grófarhryggja yrði áfram aðalafgreiðslustaður umræddra skipa. Var athugun Hönnunar um bættan húsakost og aðstöðu nálægt Grófarbryggju miðuð við kaup á vöruhúsi SÍS og án þess, og voru samdar álitsgerðir um þetta í tvennu lagi á tímabilinu febrúar–apríl 1967. Í júlí 1969 var þetta mál tekið upp að nýju við rn. á þeim grundvelli, að til greina gæti komið að byggja upp aðstöðu fyrir strandferðaskipin á fleiri stöðum en við Grófarbryggjusvæðið, svo sem í Örfirisey eða við Sundahöfn, og var í samráði við rn. ákveðið að fela Efnahagsstofnuninni að gera nánari athugun á málinu. Það er enginn vafi á því, að það er þörf á að bæta aðstöðuna við vöruafgreiðsluna, bæði útskipun og uppskipun, til þess að þau nýju tæki nýtist, sem nýju strandferðaskipin hafa. Það gæti flýtt mikið fyrir útskipun og uppskipun, það gæti sparað vinnulaun og það gæti gert allan reksturinn hagkvæmari. En eins og hér hefur verið sagt, er þetta mál enn í athugun, og á árunum 1966–1967 var heimilað að verja fjármagni til þessara hluta.

Þá er það 3. spurningin: „Hvað ætlast ríkisstj. fyrir varðandi farþegaflutninga með ströndum fram: a) vegna sumarferða innlendra og erlendra ferðalanga, b) til þjónustu við þær strandbyggðir, sem erfiðasta sókn eiga til flugvalla á vetrum?“

Með þessum nýju strandferðaskipum er gert ráð fyrir, að pláss verði fyrir 12 farþega, og auk þess gæti verið svefnpláss fyrir 6 farþega í viðbót, þannig að oft mun þetta nægja, en reynslan sker úr því, hvort þetta farþegapláss verður nægilegt á veturna. Og þegar við spyrjum að því, hvort þetta sé nægilegt, þá verður að hafa það í huga, að tímarnir eru breyttir, samgöngur hafa batnað, fólk ferðast nú allt öðruvísi en það gerði, þegar gamla Esja var byggð eða þegar Heklurnar voru byggðar. Þá voru ekki flugferðir til flestra staða á landinu, og þá vöru vegasamgöngur allt aðrar og verri en þær eru nú. En það er rétt að minna á það vegna sumarferða innanlands, innlendra og erlendra ferðalanga, að það er ekki hægt að reka dýr skip vegna þriggja mánaða árlegrar nýtingar í þágu erlendra ferðamanna. Það verður allt of dýrt. En það er hugsanlegt, að það væri möguleiki fyrir Skipaútgerð ríkisins að leigja skip yfir þennan tíma, ef það þætti að athuguðu máli æskilegt og eðlilegt að halda uppi hringferðum í kringum landið, til þess að útlendir ferðamenn gætu kynnt sér fegurð lands okkar. En að eiga skip allt árið og reka það með þeirri nýtingu, sem fæst, þar sem þarf að hafa 42 manna áhöfn, eins og var á Esju, þá verður vitanlega alltaf hallarekstur á því. Og það er rétt að vekja athygli á því, að það liggur fyrir samgönguáætlun, sem danska verkfræðifirmað Kampsax gerði um samgöngur á Íslandi, samgöngur með ströndum fram, á landi og í lofti. Samkvæmt þessari áætlun kemur fram, að farþegatala hefur alls staðar minnkað með skipum Skipaútgerðarinnar á árunum 1960–1967, .nema til Vestmannaeyja á þeim árum, sem farþegarými er nóg. Samdrátturinn nemur alls staðar yfir 50% og yfir 75%, en að meðaltali 60%. Þetta eru þær rauntölur, sem liggja fyrir og eru eðlilegar, þegar tekið er tillit til þeirra breytinga, sem orðið hafa í samgöngumálum þjóðarinnar undanfarin ár.

Ég veit ekki, hvort hv. fyrirspyrjanda finnast þessi svör nægjanleg. En það væri eðlilegt, að þá mætti gefa þau fyllri eða betri, eftir að ég hef haft tækifæri til að kynna mér betur þessi mál, sem sjálfsagt er að athuga til hlítar og reyna að gera sér grein fyrir því, hvað bezt má verða til úrlausnar.