21.01.1970
Sameinað þing: 31. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 790 í D-deild Alþingistíðinda. (3711)

913. mál, flutningar frá Reykjavíkurhöfn um veg til álversins

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Sundurliðunina hef ég hérna, og það er sjálfsagt, úr því að um það er spurt nú, að það komi alveg fram, en af því að það var ekki spurt um það áður las ég bara töluna í einu lagi.

Í Straumsvíkurhöfn hefur verið flutt af áli 1768 tonn og súráli 22 600 tonn, gas 159 tonn, byggingarefni 2354 tonn. Það er ekki heldur spurt að því hér í fsp., sem er á þskj. 224, hver borgi vörugjöldin. En ég býst nú satt að segja við því, að Eimskip innheimti vörugjöldin. Þeir eru ekki vanir að gefa eftir. Ég reikna með því. En ég spurði ekki um þetta, vegna þess að fsp. gaf ekki tilefni til þess.

Svo er ég að lokum alveg sammála fyrirspyrjanda um það, að mér finnst ekki heppilegt, að þessir stóru benzínbílar séu á ferðinni á Kópavogshálsi eða á þessum þröngu leiðum í gegnum þéttbýlið. Og ég teldi það mjög æskilegt, ef það væri hægt að komast hjá því eftirleiðis, og ég held, að með nokkrum fyrirvara hljóti að vera hægt að fyrirbyggja það.