10.12.1969
Neðri deild: 22. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 437 í B-deild Alþingistíðinda. (373)

115. mál, iðja og iðnaður

Þórarinn Þórarinsson:

Herra forseti. Mér finnst rétt að vekja athygli á því, áður en þessi tvö mál, sem hér liggja fyrir og tengd eru hvort öðru, fara til n., að í þeim felst mikil stefnubreyting hjá hæstv. ríkisstj. Það hefur verið stefna hæstv. ríkisstj. að hafa hér allt sem frjálsast, takmarka ekki aðstöðu eða leyfi manna til atvinnurekstrar og að hafa hér, að því er hún hefur talið, sem frjálsasta og mesta samkeppni. Og hún hefur bæði í tíma og ótíma lýst sig andvíga alls konar höftum eða því, sem hún hefur talið höft og fordæmt það á allan hátt. Sérstaklega hefur hún fordæmt það, ef einhverjar ráðstafanir hafa verið gerðar til þess að hafa hömlur á fjárfestingunni, t.d. ef það væri stofnað til nýrra fyrirtækja í atvinnugrein, þar sem talið væri, að nægilega mörg atvinnutæki væru fyrir og þyrfti þess vegna ekki á fjölgun atvinnufyrirtækja að halda.

Í báðum þessum frv., sem hér liggja fyrir, er vikið mjög frá þessari stefnu. Áður voru leyfi til atvinnurekstrar og sérstaklega til verzlunar rekstrar nokkurn veginn frjáls. Menn gátu fengið verzlunarleyfi, ef þeir uppfylltu viss skilyrði og átti ekki annað að vera því til hindrunar. Nú á víst að taka upp alveg nýjar reglur í þessum efnum í sambandi við iðju og iðnað. Það á að hefja könnun á því, hvort það séu ekki nægilega mörg fyrirtæki til á viðkomandi vinnustað eða verzlunarstað, hvort það séu söluskilyrði fyrir hendi, þegar um iðnaðarfyrirtæki er að ræða eða verzlunarfyrirtæki og öðru, sem snertir fjárhagsafkomu og svo hvaða áhrif þetta hefur á fjárhagsafkomu þeirra fyrirtækja, sem fyrir eru og manni skilst, að það eigi ekki að veita leyfi, ef þessi skilyrði eru ekki talin fyrir hendi. Þessum báðum frv. fylgir það, að þeir embættismenn, sem eiga að framkvæma lögin, verða að taka upp verulegt fjárfestingareftirlit og rannsókn á markaði og sölumöguleikum í hverri einstakri grein, til þess að geta framfylgt lögunum eins og frv. gera ráð fyrir. Ég skal t.d. rifja það upp, að nýmælið í því frv., sem hér liggur fyrir, felst sérstaklega í 3. málsl. 2. gr., sem hljóðar á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta:

„Iðjunni er annars svo háttað, að varhugavert þykir að leyfa hana, m.a. vegna þess að möguleikar til öflunar hráefnis teljist ónógir, framleiðslu– eða söluaðstæður ófullkomnar eða telja megi stofnun og starfrækslu iðjufyrirtækisins þjóðhagslega óhagkvæma.“

Ekkert af þessum atriðum, sem hér eru talin upp, er að finna í núgildandi l., nema það, sem segir svo í 3. mgr. 7. gr. núgildandi laga: „Iðjan er annars svo vaxin, að hættulegt er eða varhugavert að leyfa hana.“ En þar er auðsjáanlega átt við allt önnur atriði heldur en þau, sem eru talin hér. Það sést af þessari gr., sem ég hef nú lesið upp, að lögin er ekki hægt að framkvæma, nema það sé tekið upp fjárfestingareftirlit og eins konar markaðseftirlit til að gera sér grein fyrir því, hvort rétt sé að leyfa stofnun viðkomandi fyrirtækis eða ekki. Þó verður þetta enn þá meira áberandi í því frv., sem fylgir hér á eftir og fjallar um breyt. á l. um verzlunaratvinnu. En þar kemur nýr liður í 2. gr., sem ekki er að finna í l. um verzlunaratvinnu nú, svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Lögreglustjóri skal vísa umsókn til ákvörðunar ráðh., ef hann telur, að stofnun nýs fyrirtækis í viðkomandi verzlunargrein sé þjóðhagslega óhagkvæm, hvort heldur almennt eða miðað við fyrirhugaðan verzlunarstað eða starfsemi umsækjanda sé annars svo háttað, að varhugavert sé að leyfa hana. Getur ráðh. synjað veitingu leyfis eða sett leyfinu sérstök skilyrði, ef ástæða er til að hans dómi. Skal réttur til verzlunarleyfis samkv. 4. og 5. gr. vera háður þeim takmörkunum, sem hér voru greindar.“

Hér á sem sagt að fara fram athugun á því, þegar sótt hefur verið um ný verzlunarleyfi, hvort það séu sölumöguleikar á viðkomandi stað, þannig að það sé eðlilegt að fjölga þar fyrirtækjum og ekki verður önnur ályktun dregin af þessu heldur en sú, að það eigi að synja um leyfið, ef markaðurinn er álitinn ónógur. Ég er alls ekki að segja það eða halda því fram, að þetta sé röng stefna, síður en svo. Ég held, að það sé á ýmsan hátt eðlilegt að taka slíkt aðhald og eftirlit upp. En hins vegar liggur það í augum uppi, að þetta brýtur algerlega gegn þeirri stefnu, sem hæstv. ríkisstj. hefur haldið fram að þessu, þ.e. að það eigi að hafa allt sem allra frjálsast í þessum efnum og ekki að viðhafa neitt slíkt eftirlit eða aðhald, sem gert er ráð fyrir í báðum þessum frv. Í staðinn fyrir það, að þetta var nokkurn veginn frjálst áður og menn gátu stofnað til atvinnufyrirtækja eða verzlunarfyrirtækja án þess að þurfa að sýna fram á nytsemi þeirra, bara ef þeir sæktu um leyfi til þess, þá verður þetta háð þeim takmörkunum hér eftir, að það séu markaðsskilyrði fyrir hendi og framleiðsluskilyrði og það er það, sem viðkomandi embættismenn þurfa að vega og meta, þegar þeir veita slík leyfi. Hér er að ýmsu leyti tekið upp ekki ósvipað eftirlit og fjárhagsráð framkvæmdi á sínum tíma, þó að það hafi að sumu leyti gengið nokkru lengra.

Ég er ekki að segja þetta vegna þess, að ég álíti það aðhald rangt eða þau höft röng, sem felast í þessum frv., heldur til þess að benda á það; að hér hefur orðið veruleg breyting á stefnu ríkisstj. frá því, sem áður var, þ.e.a.s. gagnvart innlendum aðilum. Ég álít, að þessi frv., ef þau verða að lögum, komi fyrst og fremst til með að hafa áhrif gagnvart innlendum aðilum. Ég held, að slík ákvæði sem þessi hafi mjög lítið að segja í sambandi við EFTA–samninginn, ef úr EFTAaðild verður og það skipti eiginlega engu máli í sambandi við hann, hvort þessar reglur eru settar eða ekki, því að ef í EFTA–samningnum felast atvinnuréttindi fyrir útlendinga að vissu marki, þá er ekki hægt að útiloka þá með þessari löggjöf frá því að neyta þess réttar. Þeir verða að njóta síns réttar, ef til kemur, alveg jafnt Íslendingum, hvort sem þessi lög eru í gildi eða ekki. Og ef það væri aðaltilgangurinn með þessu frv. að fara eitthvað að reyna að sniðganga þá samninga, sem hér er verið að gera, þá get ég lýst því yfir, að ég er slíku ekki fylgjandi. Ég álít, að það, sem skiptir mestu fyrir smáþjóð, sé að sú hefð skapist í heiminum, að samningar séu haldnir og ef Ísland gerir einhverja samninga við aðrar þjóðir eða einhver bandalög, þá er það skylda okkar að halda þá samninga, hvort sem okkur líkar það betur eða verr, en reyna ekki með neinum krókaleiðum að sniðganga að taka á okkur þær skyldur, sem við erum búnir að gangast undir með þessum samningum. Og ef það er tilgangurinn með þessu frv. að reyna að sniðganga eitthvað það EFTA–samkomulag, sem í ráði er að gera, þá get ég ekki fylgt því frá því sjónarmiði. Hins vegar finnst mér, að gagnvart innlendum aðilum sé þarna tekið upp aukið eftirlit og höft eða hvað sem menn vilja kalla það, sem eiga rétt á sér, því það er óeðlilegt, að það séu starfandi mörg fyrirtæki í einni atvinnugrein eða jafnvel í verzlun. Það þarf að hafa nokkurt aðhald og eftirlit með því, að þar sé ekki um of mörg fyrirtæki að ræða. Og það mundi ég telja ávinning við þessi frv., ef þau yrðu að lögum.

Hins vegar finnst mér það engu máli skipta í sambandi við þetta EFTA–mál, vegna þess að ef í þeim felst að einhverju leyti réttur fyrir útlendinga til atvinnurekstrar hér á landi, sem ég ætla ekki að ræða að þessu sinni, þá verða þeir að njóta hans án tillits til þessarar löggjafar alveg til jafns við Íslendinga. Við getum ekki samkv. þessum frv., þótt þau yrðu að lögum, svipt útlending, sem ætti rétt á því samkv. EFTA–samkomulaginu að reka hér atvinnu, þeim rétti með því að lögreglustjóri synjaði honum um leyfi, en léti t.d. Íslending hafa það, þegar nokkurn veginn stæði eins á. Við verðum að gera okkur grein fyrir því, að þegar við gerum samninga við aðrar þjóðir, verðum við að standa við þá, hvort sem okkur líkar það betur eða verr og það hefnir sín, ef við erum að reyna að fara einhverjar krókaleiðir til þess að komast hjá því að standa við slíkt samkomulag. Ef það býr á bak við þau frv., sem hér liggja fyrir, þá get ég strax lýst því yfir, að ég er þeim ekki samþykkur frá því sjónarmiði. Hins vegar er ég þeim samþykkur frá því sjónarmiði, að þau skapi aukið eftirlit og aðhald gagnvart innlendum aðilum, á þann hátt, að það verði ekki stofnað óhæfilega mikið af fyrirtækjum í hverri atvinnugrein eða verzlunum fjölgað óhæfilega mikið. Það tel ég, að hljóti að vera aðaltilgangurinn með þessari löggjöf. Það má segja, að í henni felist nokkur réttarskerðing sem er óhjákvæmileg frá þjóðhagslegu sjónarmiði og gildir að vísu á mörgum öðrum sviðum. Hún á að sjálfsögðu ekki síður rétt á sér, þó að hún brjóti í bága við þá stefnu, sem hæstv. ríkisstj. hefur fylgt á undanförnum árum og hefur verið fólgin í því að láta þetta allt vera sem frjálsast og afskiptaminnst.

Ég skal svo ekki hafa þessi orð öllu fleiri að sinni. En ég vildi aðeins vekja athygli á því, áður en ég lýk máli mínu, að mér finnst álitamál, hvort það sé ekki gengið of langt í frv. í því að rýra rétt einstaklinga til þess að fá leyfi til iðjureksturs eða verzlunarreksturs. Samkv. núgildandi lögum hefur einstaklingur, sem sækir um verzlunarleyfi eða iðjuleyfi og er neitað um það, rétt til að leita úrskurðar dómstólanna um það, hvort hann hafi verið beittur órétti eða ekki. Mér sýnist, að samkv. frv. sé þessi réttur umsækjanda felldur niður, þannig að ef ráðh. synjar honum um leyfi, þá hafi hann ekki rétt til að leita til dómstólanna og fá úrskurð um það, hvort hann hafi verið rangindum beittur. Mér finnst það dálítið vafasamt að svipta umsækjendur, sem vilja stofna til iðju eða verzlunar, slíkum málsvarsrétti, en að því virðist vera stefnt með löggjöfinni.

En það, sem ég vil svo draga saman að lokum, er það, að mér finnst þessi frv. geta komið að gagni gagnvart innlendum aðilum, vegna þess að hér er um eftirlit eða höft að ræða, sem geta komið í veg fyrir offjölgun fyrirtækja í vissum atvinnugreinum. En hins vegar tel ég þau algerlega þýðingarlaus í sambandi við hina svokölluðu EFTA–aðild, því að við getum ekki með neinu móti eftir einhverjum krókaleiðum ætlað að sniðganga þær kvaðir, sem við tökum á okkur með henni. Við verðum að standa við þá samninga, sem við gerum við erlenda aðila, hvort sem okkur líkar það betur eða verr, því að tilvera smáþjóðar eins og Íslendinga byggist á því, að hún haldi sína samninga og verði ekki sökuð um það, að hún fari einhverjar krókaleiðir til þess að komast undan þeim skyldum, sem hún tekur á sig í sambandi við þá.