28.01.1970
Sameinað þing: 32. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 798 í D-deild Alþingistíðinda. (3738)

141. mál, ávísanir með nafni Seðlabanka Íslands á

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Í lögum Seðlabankans, nr. 10 1961, kemur skýrt fram, að honum er fyrst og fremst ætlað að eiga viðskipti við banka og aðrar peningastofnanir, ríkissjóð og ríkisstofnanir og erlenda aðila. Í 17. gr. laganna er honum heimilað að reika önnur bankaviðskipti, sem samrýmanleg geta talizt hlutverki hans sem seðlabanka, en hann skal þó yfirleitt hvorki skipta við almenning né keppa um viðskipti við aðrar lánastofnanir, eins og hv. fyrirspyrjandi tók fram í fsp. sinni réttilega.

Þessi ákvæði marka vitaskuld einnig, hverjir geta átt ávísanareikninga í Seðlabankanum, en meðal reikningshafa, er fengið hafa ávísanahefti, eru bankar, sparisjóðir, ríkissjóður, stofnanir á vegum rn., fjárfestingarsjóðir, erlendir bankar, sendiráð og alþjóðastofnanir. Einnig hafa nokkrar deildir bankans, sem þess hafa þurft, fengið ávísanareikninga, sem notaðir eru til greiðslu útgjalda. Loks eru laun starfsmanna bankans og framkvæmdasjóðs lögð inn á ávísanareikninga í bankanum, og hefur bankinn talið, að í þessu felist hvorki viðskipti við almenning né umtalsverð samkeppni við aðrar lánastofnanir. Hins vegar er að þessu hagræði bæði fyrir starfsmenn og bankann. Eins og stendur eru ávísanareikningar Seðlabankans samtals 198, og hefur tala þeirra lítið breytzt um nokkurra ára skeið. Af þessum reikningum er um helmingur á vegum deilda bankans og starfsmanna hans, tæpur þriðjungur á vegum peningastofnana, en afgangurinn er í höndum opinberra aðila innanlands og utan.

Í framsöguræðu sinni bætti hv. fyrirspyrjandi þeirri fsp. við hina skriflegu fsp., hvort bankastjórar Seðlabankans fengju afgreiddan erlendan gjaldeyri vegna ferðakostnaðar á annan hátt en aðrir þegnar þjóðfélagsins. Um þetta er mér ekki kunnugt, en get þó vel hugsað mér, að ávísanir, sem bankastjórar Seðlabankans fá til greiðslu erlends ferðakostnaðar, séu á erlenda viðskiptabanka Seðlabankans, en ekki hina tvo gjaldeyrisbankana, Landsbanka Íslands og Útvegsbanka Íslands, og tel ég mig vera fullvissan um, að munurinn getur ekki legið í öðru en því, enda hefur Seðlabankinn gjaldeyrisréttindi eins og viðskiptabankarnir tveir. En að sjálfsögðu gilda sömu reglur um upphæð ferðakostnaðar um bankastjóra Seðlabankans og aðra hliðstæða opinbera starfsmenn.