28.01.1970
Sameinað þing: 32. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 800 í D-deild Alþingistíðinda. (3744)

912. mál, starf forstjóra Sementsverksmiðju ríkisins

Dómsmrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Samkv. 9. gr. laga um Sementsverksmiðju ríkisins er það verkefni verksmiðjustjórnarinnar að ráða forstjóra. Ég get á þessu stigi málsins ekki svarað því, hvenær eða með hverjum hætti það verður gert, og það liggja til þess nokkrar ástæður, sem rétt er að rifja upp.

Eins og fram kom hjá hv. fyrirspyrjanda, þá var Jón Vestdal efnaverkfræðingur forstjóri verksmiðjunnar, en fékk bráðabirgðalausn frá starfi á árinu 1968, eins og vikið var að, og þá um tíma, ég held um tveggja mánaða skeið, fór formaður verksmiðjustjórnarinnar með framkvæmdastjórnina eða frá 1. sept. til 1. nóv. 1968. En það var 1. nóv. 1968 sem Svavar Pálsson var ráðinn, til bráðabirgða einnig, sem framkvæmdastjóri fjármála fyrirtækisins með prókúruumboði. Á meðan á þessu stóð voru hins vegar fengnir danskir efnaverkfræðingar til þess að annast fyrst um sinn störf yfirverkfræðings, en það starf var auglýst síðar, og 1. febr. 1969 var Jóhann Jakobsson efnaverkfræðingur ráðinn í það starf.

Nú er mér kunnugt um það, að verksmiðjustjórnin hefur fjallað nokkuð um þessi mál að undanförnu. Fyrir utan það, sem ég nú hef getið, þá hefur sú breyting orðið á, að skrifstofa verksmiðjunnar hefur verið flutt til Akraness, og svo er það rétt, sem hér kom fram, að Jón Vestdal efnaverkfræðingur og fyrrv. framkvæmdastjóri hefur endanlega látið af störfum hjá verksmiðjunni.

Það hefur í raun og veru á þessum tíma, sem ég hef nú vitnað til, árin 1968 og 1969, oft borið á góma í viðræðum einstakra stjórnarmeðlima verksmiðjustjórnarinnar, að ef til vill væri eðlilegt að gera breytingu á lögum um sementsverksmiðju, en það er hins vegar jafneðlilegt, ef menn eru þess sinnis, að það komi tillaga um það frá verksmiðjustjórninni. Hún mun ekki vera alveg á eitt sátt, eftir því sem ég bezt veit, ekki a.m.k. fram til þessa, um þörf á slíkri breytingu, og það skýrir kannske það, að verksmiðjustjóri hefur ekki verið ráðinn í bili, því að yrði það ofan á, sem ég skal ekkert segja um í dag og mér er algjörlega ókunnugt um, að ástæða þætti til að breyta ákvæðum sementsverksmiðjulaganna að þessu leyti, eins og t.d. að breytt var ákvæðum um áburðarverksmiðjuna, þannig að ekki var gerð krafa til þess, að forstjórinn væri verkfræðingur, þá gæti það orðið með öðrum hætti sem forstjóri yrði ákveðinn heldur en núverandi ákvæði laganna gera ráð fyrir. Hjá þeim, sem hafa gert mér grein fyrir skoðun sinni, að það kynni að vera fullt eins eðlilegt, þá hefur alltaf jafnframt verið gert ráð fyrir því, að sérstakur yfirverkfræðingur eða maður, sem kalla mætti verksmiðjustjóra, annaðist tæknilega stjórn verksmiðjunnar sem sérfræðingur á því sviði.

Á meðan málunum er komið eins og ég nú hef stuttlega reynt að gera grein fyrir, er ekki hægt að svara þessari spurningu ákveðið hvorki um tíma né með hverjum hætti, en að sjálfsögðu er eðlilegt og verður unnið að því að fá sem skjótast varanlega og endanlega lausn á þessu máli, úr því sem komið er nú.