28.01.1970
Sameinað þing: 32. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 801 í D-deild Alþingistíðinda. (3745)

912. mál, starf forstjóra Sementsverksmiðju ríkisins

Fyrirspyrjandi (Halldór E. Sigurðsson):

Fleira forseti. Ég leyfi mér að þakka hæstv. iðnrh. svar hans, svo langt sem það nær. Í tilefni af því, sem hann sagði, að verksmiðjustjórnin réði forstjóra fyrir Sementsverksmiðjuna, þá liggur það í orðanna hljóðan, í sambandi við 5. gr. laganna, en jafnframt er það háð því skilyrði, að hann hafi til brunns að bera þá menntun, sem þar er tilskilin. Nú hefur þetta hins vegar verið viðloðandi á annað ár, án þess að nokkrar ráðstafanir hafi verið gerðar til að starfið væri setið í samræmi við lögin. Auk þess hef ég heyrt marga halda því fram, að það hafi verið óeðlilegt að gera endurskoðanda fyrirtækisins að framkvæmdastjóra vegna þeirra atvika, sem áður hafa fyrir komið. Út í það ætla ég ekki að fara, en hins vegar geta þess, að tvö ný fyrirtæki, sem hafa verið sett á stofn, ÍSAL og kísilgúrverksmiðjan, hafa bæði ráðið sér verkfræðing fyrir aðalforstjóra, og því er ekki óeðlilegt, að þetta ákvæði verði áfram í lögum, enda skilst mér, að ef ætti að breyta því, þá væri breytingin í því fólgin að ákveða þessu fyrirtæki tvo forstjóra í staðinn fyrir einn, en út í það ætla ég ekki frekar að fara. Ég tel eðlilegt, að það verði farið að leysa þetta mál á viðunandi hátt, því það er mjög óeðlilegt, að svo stórt ríkisfyrirtæki sem þetta hafi ekki forstjóra samkv. gildandi lögum.