04.03.1970
Sameinað þing: 37. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 805 í D-deild Alþingistíðinda. (3756)

909. mál, ráðstafanir vegna beitusíldar

Fyrirspyrjandi (Jónas Árnason):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðh. svör hans. Eftir svörunum að dæma ætti ekki að vera hér um neitt vandamál að ræða, eða a.m.k. telur hann, að rn. hans hafi gert allt, sem í þess valdi stóð, til þess að bæta úr þessu. Ég minntist hér áðan á beitunefnd og till., sem beitunefnd hefði gert til lausnar þessum vanda, og lét þess getið um leið, að fróðlegt væri að vita, hverjar þær till. hefðu verið, enda hef ég það fyrir satt, að rn. hafi ekki farið a.m.k. að öllu leyti eftir þeim till. Hér á hinu háa Alþ. á sæti a.m.k. einn maður úr beitunefnd, hv. 2. þm. Vesturl. Hann var hér á ferðinni rétt áðan. Það væri fróðlegt að vita, hvort Jón Árnason vildi koma í salinn og e.t.v. veita einhverjar upplýsingar í þessu máli.

Ég ætla nú ekki að fara að þjarka við hæstv. ráðh. um þessi mál. Staðreyndin er sú, að það hefur verið við mikinn vanda að etja í sambandi við beitu í vetur og beita sú, sem töluverður hluti bátaflotans hefur átt völ á, verið mjög léleg. Með góðri beitu hefði mátt búast við miklu meiri afla hjá þessum bátum. Þessi staðreynd breytist að sjálfsögðu ekkert við fullyrðingar hæstv. ráðh. um það, hvað hann hafi gert eða viljað gera í þessum efnum. Eftir sem áður er ósvarað þessari brennandi spurningu, hvað verður gert til þess að tryggja næga beitu, þegar grálúðuútgerð hefst í vor. En að öðru leyti, eins og ég segi, tel ég ekki ástæðu til þess að þjarka við ráðh. um málið. Staðreyndirnar liggja fyrir. Það hefur ekki verið séð fyrir þeirri beitu, sem bátaflotinn þurfti á að halda í vetur, og ómögulegt að segja, hvað það hefur kostað í afla.