04.03.1970
Sameinað þing: 37. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 806 í D-deild Alþingistíðinda. (3758)

909. mál, ráðstafanir vegna beitusíldar

Bjarni Guðbjörnsson:

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að taka undir það með fyrirspyrjanda, að beitumálin eru í algerri sjálfheldu og að ófremdarástand ríkir þar.

Það kom fram í svari hæstv. sjútvrh. áðan, að það hefði verið tryggt, að svo og svo mikið magn af síld yrði fryst til beitu. Því hámarki er ekki náð, því að það er ekki búið að frysta nema 2500 tonn í staðinn fyrir 3500, sem heimild var fyrir. En þegar jafnmikið hungur er í síld, eins og virðist vera á öllum mörkuðum, bæði innanlands og erlendis, þá rýkur beitusíldin upp úr öllu valdi, og það er algerlega óhugsandi, að hægt sé að búa við það, að verðið á beitusíldinni fari upp í 16–18 kr. eins og staðreyndin var í haust. Það verður eitthvað til bragðs að taka til þess að gera útgerðarmönnum kleift að eignast þessa síld, því að það er algerlega óhugsandi, enda þótt bankar láni 7.80 kr. út á síldina, að það sé hægt að kaupa hana fyrir 16–18 kr. eða þaðan af meira til þess að nota hana á línuveiðum á vor- og sumarvertíð og á grálúðuveiðunum, sem ábyggilega verða í vaxandi mæli stundaðar á komandi vori og sumri. Ég veit, að a.m.k. þar sem ég er kunnugur á Vestfjörðum, þar var búið nokkuð vel að síld í vetur fyrir forsjálni ýmissa útvegsmanna þar, en þrátt fyrir það er fyrirsjáanlegt, að útgerð eins og átt hefur sér stað á undanförnum sumrum getur ekki átt sér stað á komandi sumri vegna beituskorts, og á það jafnt við þorskveiðar og grálúðuveiðar. Það hlýtur að koma að því, að sveiflur á markaðsverði geti ekki ráðið verðinu á beitusíld og yrði þá að reyna að finna eitthvert annað ráð. Gæti ég látið mér detta í hug, að Verðjöfnunarsjóður fiskiðnaðarins kæmi þar eitthvað til og aðstoðaði í þessu máli, því að það er alveg óhugsandi, eins og ég sagði áðan, að síldin hækki margfalt meira í verði heldur en fiskurinn. Ef á að fara að beita síld fyrir 16–18 kr., þá er ekki nokkur grundvöllur fyrir því að gera út á línu.

Það lítur ekki út fyrir það, að byrlega blási með útvegun á síld, hvorki hér né erlendis, en ég legg á það ríka áherzlu, að gert verði allt, sem hugsanlegt er í því efni, því að það skiptir a.m.k. þrjá landshluta, bæði Vestfirðina, Norðurlandið og Austfirðina, mjög miklu máli, að unnt verði að gera út á grálúðuveiðar á komandi sumri. Þetta var reynt á s.l. sumri með góðum árangri víða, og það yrði mikið áfall, ef þetta tækist ekki á komandi sumri. Jafnframt vil ég leggja áherzlu á það, að reynt verði að koma til móts við útvegsmenn, sem þurfa að kosta alla beituna, svo að þeir þurfi ekki að greiða neitt okurverð fyrir beitusíld.