10.12.1969
Neðri deild: 22. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 443 í B-deild Alþingistíðinda. (376)

115. mál, iðja og iðnaður

Magnús Kjartansson:

Herra forseti. Ég verð nú að lýsa því yfir, að ég er algerlega sammála hæstv. ráðh. um það, að hv. 4. þm. Reykv. virðist gersamlega hafa misskilið tilganginn með flutningi þessara tveggja frv. Það liggur fyrir sem óhagganleg staðreynd, að frv. eru einvörðungu flutt til þess að standa við ákveðin loforð, sem gefin hafa verið í sambandi við 16. gr. EFTA–samninganna. Í grg. fyrir EFTA–till. segir svo m.a., með leyfi hæstv. forseta:

„Þó það sé meginhugsun 16. gr., að aðildarríki eigi ekki að koma í veg fyrir það eða spilla fyrir því, að tilgangur samtakanna náist, með því að skerða það jafnræði, sem afnám verndartolla og hafta á að búa fyrirtækjum á Fríverzlunarsamtakasvæðinu, þá er það ekki tilgangur 16. gr. að skylda ríki til þess að leyfa atvinnurekstur í landi sínu, sem það er á móti. Framkvæmd Fríverzlunarsamtakasamningsins hefur og staðfest þessa skoðun. Ekki er vitað um neitt dæmi þess, að aðilar hafi stofnað fyrirtæki í öðru aðildarríki gegn vilja stjórnarvalda þar í landi. Með hliðsjón af þeim skilningi á 16. gr., að íslenzk stjórnarvöld geti eftir sem áður haft alger yfirráð yfir því, hvort erlendu fyrirtæki er leyfð starfsemi í landinu og þá hvernig, má segja, að ákvæði hennar veiti erlendum fyrirtækjum engan nýjan rétt til atvinnurekstrar hér, ef núgildandi l. um iðju og iðnað og verzlunaratvinnu yrði breytt þannig, að leyfi þurfi til stofnunar allra nýrra fyrirtækja á þessum sviðum. Verða frv. um þetta efni lögð fyrir Alþ.“

Tilgangurinn með því að flytja þessi frv. er að standa við þetta fyrirheit, að gerðar séu ráðstafanir til þess að tryggja það, að hér verði ekki stofnuð erlend fyrirtæki án samþykkis íslenzkra stjórnarvalda. Og þessi frv. verður að meta með tilliti til þess, hvort þau ná þessu markmiði eða ekki.

Ég held, að það sé algerlega út í hött að fara að ræða þessi frv. á þeim forsendum, hvaða áhrif þau hafa á þann atvinnurekstur, sem fyrir er í landinu, því það hefur alls ekki verið tilgangurinn með flutningi þessara frv. Hitt skiptir máli, hvort frv. ná þeim tilgangi, sem sagt er að þau eigi að þjóna, og eins og ég rakti í fyrri ræðu minni, tel ég mjög fjarri því fara, að svo sé.

Það er alger misskilningur hjá hv. 4. þm. Reykv., að aðildarríki EFTA hafi ekki heimild til þess að gera l. samkv. ráðstafanir til þess að takmarka hin almennu ákvæði 16. gr. Til þess er full heimild og með því er ekkert verið að fara á bak við einn eða neinn. En ég hef enga trú á því, að hæstv. ríkisstj. hafi nokkurn minnsta áhuga á því að takmarka þann erlenda atvinnurekstur, sem hér kæmi til greina samkvæmt 16. gr. Það marka ég af hinni almennu stefnu hæstv. ríkisstj., margvíslegum yfirlýsingum hennar, þ.á.m. hæstv. iðnrh. og beinum tilraunum hans til þess að fá erlenda aðila til þess að stofna hér fyrirtæki strax og við erum gengnir í EFTA, eins og hann reyndi í sumar með viðræðum sínum við norræna iðnrekendur, sem hann hreinlega spurði, hvort gætu ekki fengizt til að stofna hér dótturfyrirtæki á Íslandi eftir að við værum gengnir í EFTA. Þess vegna er það gallinn við þessi frv. og gerir þau einskis nýt plögg, að þar er enga slíka tryggingu að finna. Ég vil raunar spyrja hæstv. iðnrh., fyrst hann leggur hér til, að honum verði persónulega falið úrslitavald um að leyfa og leyfa ekki á þessu sviði, hvort það sé ekki rétt skilið hjá mér, að sú stefna hans sé óbreytt, að það sé hagstætt fyrir Íslendinga að fá hingað erlend fyrirtæki til þess að taka upp útflutningsstarfsemi og hvort hann muni ekki reyna að beita sér fyrir því, að laða slík fyrirtæki hingað, — og mun hann ekki hagnýta sér það vald, sem í þessu frv. felst, ef það verður að 1., til þess að opna sem mest fyrir slík fyrirtæki í samræmi við þessar almennu skoðanir hans?