04.03.1970
Sameinað þing: 37. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 817 í D-deild Alþingistíðinda. (3775)

915. mál, fiskiðnskóli

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Ég vil lýsa óánægju minni yfir því, hvernig tekizt hefur til með allan undirbúning í sambandi við fiskiðnskólann, og undrun minni á því svari, sem hér kom fram frá hæstv. menntmrh. við þeirri fsp., sem hér er til umr.

Það liggur fyrir, að Alþ. hefur lýst yfir vilja sínum til þess, að komið yrði upp fiskiðnskóla, enda getur ekki farið á milli mála, að brýn þörf er á því að koma upp fiskiðnskóla hér á landi. Sett hefur verið n. sérfræðinga til þess að athuga um undirbúning á málinu. Hún hefur gert ákveðnar till., og svo þegar liðin eru mörg ár frá þessu, þá kemur hér svar frá sjútvrn. um það, að farið sé að hafa námskeið fyrir skipstjórnarmenn í ýmsu, sem varðar meðferð á fiski, það sé verið að halda hér eitt og annað námskeið fyrir verkstjóra í frystihúsum nýlega, svonefnt þrifnaðarnámskeið, og ýmis almenn námskeið um fiskverkun. Auðvitað er þetta svar, sem á að koma frá sjútvrn., gersamlega út í hött. Það kemur fiskiðnskólamálinu auðvitað ekkert við. Það er ekki aðeins það, að slík námskeið hafi verið haldin hér um langan tíma, heldur hljóta þau einnig að verða haldin hér á landi, þó komið yrði upp fiskiðnskóla. Ég vona a.m.k., að slík námskeið verði ekki lögð niður.

Svar sjútvrn. staðfestir í rauninni, að það hefur ekkert verið gert í málinu.

Svo verður sú breyting, að menntmrn. tekur við þessu máli nú um áramótin, vegna verkefnaskiptingar á milli rn., og nú kemur í ljós að mínum dómi, að það rn. — það hefur kannske nokkra afsökun, því að það hefur ekki fjallað um málið ýkjalengi — það veit ekkert enn þá, hvað á að gera í málinu, því nú segir hæstv. ráðh., að verkfræðideild Háskólans hafi í athugun ýmsar till. um breytingar á prófum fyrir verkfræðinga og tæknifræðinga og varðandi iðnaðar- og verknám o.s.frv. Þetta kemur þessu máli ekki nokkurn skapaðan hlut við. Og síðan sagði hæstv. ráðh., að hans rn. hefði nú til athugunar, á hvaða námsstigi bezt yrði séð fyrir menntun í fiskiðnaði. Sem sagt, það er verið að athuga um, hvernig í ósköpunum á að koma þessu fyrir.

Öll þessi vinnubrögð minna mig á störf togaranefndar, sem hefur verið að störfum að undanförnu og helzt staðið þannig að málum, að hún ætlar að finna hér upp einhvern togara, sem ekki hefur enn þá verið fundinn upp í heiminum. Hún hefur ekki þurft á því að halda auðvitað og ekki komizt að neinni nýrri niðurstöðu. Eins er þessu í rauninni farið með fiskiðnskóla. Fiskiðnskóli er ekkert nýtt fyrirbæri. Slíkir skólar eru starfandi í löndum í kringum okkur og hafa verið starfræktir þar í mörg ár. Meira að segja hafa ýmsir Íslendingar sótt slíka skóla. Spurningin er aðeins þessi: Viljum við standa að því að koma upp slíkum skóla hér á landi? Þurfum við á honum að halda að okkar dómi? Alþ. hefur greinilega tekið afstöðu til þessa máls. Rn. eru búin að fá sinn tíma til að undirbúa málið, og hér stendur í rauninni bara á framkvæmdum. Það þarf ekkert að athuga um það, á hvaða námsstigi bezt væri að koma þessu fyrir.

Ég vildi í tilefni af þessu, sem hér hefur komið fram, beina því til hæstv. menntmrh., sem nú tekur við þessu máli, að hann taki nú rögg á sig og sjái um það, að framkvæmdir verði í þessu fiskiðnskólamáli. Það er augljóst mál, að þeir, sem með málið hafa haft að gera á framkvæmdastigi, hafa vanrækt allt, sem þeir hafa átt að gera í þessu máli. Nú er komið að hæstv. menntmrh. og ég vona, að hann bæti hér nokkuð úr og snúi sér nú að því að koma þessum skóla hér upp, því að það er ábyggilega vilji Alþingis.