04.03.1970
Sameinað þing: 37. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 826 í D-deild Alþingistíðinda. (3786)

916. mál, álit háskólanefndar

Jón Skaftason:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð. Ég vil láta í ljós mikla ánægju með skipan háskólanefndarinnar á sínum tíma og þær till., sem hún gerði, og með þær ákvarðanir, sem teknar hafa verið af hæstv. ríkisstj. til þess að fjármagna þær framkvæmdir, eins og hæstv. ráðh. skýrði hér frá. En í sambandi við þessar umr. vakna ýmsar spurningar í hugum manna um ástandið á öðrum menntunarsviðum í landinu, öðrum skólastigum en Háskólanum, og langar mig í því sambandi t.d. að spyrja hæstv. ráðh., hvort til sé nokkur áætlun um þróun tæknimenntunar í landinu, þ.e. þess hluta tæknimenntunarinnar, sem ekki fer fram í sjálfum Háskólanum. Er til einhver áætlun um byggingu menntaskóla almennt í landinu eða á það að gerast, að ákvarða stofnsetningu menntaskóla og byggingu menntaskóla á þann hátt, sem við höfum orðið vitni að hér á undanförnum árum í þinginu, að einstakir menn gangi fram með hagsmuni síns kjördæmis eða síns landshluta, sem ég vil ekki gera lítið úr, fyrst og fremst að leiðarljósi, og fái samþ. till. um stofnun menntaskóla hér og þar? Væri ekki eðlilegra, að uppbygging menntaskólanna færi fram eftir einhverju heildarkerfi, sem miðað væri við meginreglur og aðstæður, eins og þær eru á hverjum tíma í þjóðfélaginu?