04.03.1970
Sameinað þing: 37. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 826 í D-deild Alþingistíðinda. (3787)

916. mál, álit háskólanefndar

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Ég skal með ánægju svara þessari fsp. Á undanförnum árum hefur á vegum menntmrn. og með fjárhagsaðstoð frá Efnahags- og framfarastofnuninni í París verið unnið að allsherjar menntaáætlun fyrir Ísland. Ástæðan til þess, að Efnahags- og framfarastofnunin í París er aðili að þessu verki, er sú, að sú stofnun hefur látið sig þróun menntamála í aðildarríkjunum mjög skipta og lagt fram fé til þess, að slíkar áætlanir væru gerðar í mjög mörgum aðildarríkjanna, ekki öllum enn þá, en mjög mörgum þeirra. Það tókst samvinna milli menntmrn. og Efnahags- og framfarastofnunarinnar fyrir nokkrum árum um framkvæmd þessa verks. Efnahagsstofnunin greiðir nokkurn hluta þess, en íslenzka ríkið greiðir samt langmestan hluta af kostnaðinum við þetta. Ótal sérfræðingar hafa að þessu verki unnið, en forustan hefur hvílt á herðum. Torfa Ásgeirssonar hagfræðings, Wolfgangs Edelsteins, sem er starfsmaður háskólans í Berlín, en hefur á undanförnum árum komið hingað a.m.k. tvisvar sinnum á ári vegna þessa verks, en auk þess unnið að því í starfstíma sínum í Berlín, og Jóhanns Hannessonar skólameistara. Þessu verki er nú um það bil að verða lokið. Skýrsla n. er um það bil að verða fullbúin til prentunar, og mun koma út á vegum menntmrn. og Efnahags- og framfarastofnunarinnar á næsta sumri. Hér er um mjög mikið rannsóknarstarf að ræða, rannsóknarstarf á ástandinu eins og það hefur verið á undanförnum áratugum, eins og það er í dag og áætlanir og spádómar um framtíðina, þ. á m. ítarlegar áætlanir og spádómar um nauðsynlega þróun á einstökum sviðum íslenzka skólakerfisins, t.d. tækniskólasviðinu og menntaskólasviðinu.

Ég hygg, þegar þessi skýrsla verður komin út, og alþm. verður tvímælalaust send hún þegar eftir birtingu hennar, að hún muni geta orðið stjórnvöldum í menntamálum hinn nauðsynlegasti leiðarvísir — óhjákvæmilega nauðsynlegur leiðarvísir á næstu árum, ég þori ekki að segja áratugum vegna þess, hve breytingar verða örar á þessu sviði sem öðrum, en örugglega á þessum áratug. Og enginn vafi er á því, að hverjir sem það verða sem um stjórnvölinn halda í menntamálum á þessum áratug, þá munu þeir geta sótt geysilegan fróðleik í þessa skýrslu og haft geysilegt gagn af því verki, hinu mikla verki, sem þarna hefur verið unnið, einmitt til þess að komast hjá því, að um handahófsaðgerðir eða skyndiákvarðanir verði að ræða á þessum sviðum.